Birt þann 22. apríl, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: The Cabin in the Woods
Þú! Já, þú sem ert að lesa. Gerðu sjálfum/sjálfri þér stóran greiða; ekki lesa neina umfjöllun um myndina þar sem kemur fram um hvað hún fjallar, ekki horfa á stiklurnar, og alls ekki tala við neinn sem hefur séð hana og á erfitt með að halda aftur reglulegri munnræpu. Þetta verður rýni laus við alla spilla (spoilers) og ég lofa því að ef þið haldið ykkur við það sem ég sagði hér fyrir framan og farið á hana með opnu hugarfari, þá mun myndin borga það margfalt til baka. Sjálfur var ég þakklátur fyrir að hafa farið eftir fyrirmælum þeirra sem sáu þessa snilldar ræmu á undan mér, í raun er best fyrir þá sem vilja upplifa myndina ferska að fara á hana STRAX til að forðast spilla – stóra sem smáa.
Eftir frumsýningu Cabin in the Woods á afmælisveislu Harry Knowles frá AintItCoolNews.com síðast liðinn desember, voru aðstandendur og gagnrýnendur fljótir að drita niður viðvaranir á ýmsum vefsíðum um slæmt upplýsingaflæði við markaðsetningu myndarinnar. Að forðast allt um myndina áður en þú sérð hana borgar sig því að myndin er kostuleg rússíbanaferð, full af óvæntum og skemmtilegum fléttum. Hér hefði markaðsetning á borð við það sem J.J. Abrams sérhæfir sig í hjálpað heilmikið og skapað skemmtilega dulúð, sem Cabin in the Woods á í raun skilið.
Myndin er hrollvekja, já – bara svo það sé á hreinu. Hún er mun meira en það sem sést á yfirborðinu og þegar kjarninn afhjúpast hægt og rólega verðið þið vonandi jafn spennt að sjá útkomuna og ég var. Hugmyndinni er best lýst eins og ef þeir Drew Goddard, leikstjóri myndarinnar, og nördagoðið Joss Whedon hefðu sest niður eitt kvöld til að horfa á sígildu hrollvekjuna Evil Dead úr smiðju Sam Raimi og einn þeirra hefði sagt „hey, hvað ef allt sem er að gerast er í raun…“ og unnið út frá því (hugsanlega jafn bakaðir og ein persóna myndarinnar er). Útkoman er snjöll og vel framsett afbygging hrollvekjumynda og hugsanlega hrollvekjubransans.
ALLIR hrollvekjuaðdáendur þurfa að sjá þessa, hún á eftir að breyta því hvernig þú sérð margar af uppáhalds hrollvekjum þínum…
Goddard og Whedon vita klárlega hvernig leikurinn er spilaður og hversu oft persónurnar taka klunnalegar ákvarðanir í myndum sem þessari, en Cabin in the Woods er einn stór leikvöllur fyrir þá félaga til að spila með klisjur og galla hrollvekjuflokksins og rýnir í hvers vegna formúlur síendurtaka sig í svona ræmum. Útkoman er villt, kolsvört, og meinfyndin. Það er nákvæmlega útaf svona ræmum sem við notum frasann „unnin af nördum fyrir nörda“. ALLIR hrollvekjuaðdáendur þurfa að sjá þessa, hún á eftir að breyta því hvernig þú sérð margar af uppáhalds hrollvekjum þínum og skemmta þér jafn mikið og hún rýnir í bransann.
Eitt sem ég gjörsamlega elskaði við myndina er að eftir miðbik myndarinnar vissi ég varla hvaða hlið málsins ég stæði með því myndinni tekst svo vel að útskýra aðstöðurnar og mikilvægi beggja hliða, jafnvel þó hún birti ekki hversu mikil alvaran er í raun og veru fyrr en í lokin. Og til að toppa allar væntingar tekst Cabin in the Woods að færa okkur einn mest fullnægjandi loka þriðjung sem ég man eftir í hrollvekju. Allt er látið flakka og þeir sem vonuðust eftir meira en bara áhugaverðri grunnhugmynd fá svo sannarlega meira en þá grunaði.
Cabin in the Woods stendur við tröllvaxin loforð sín og meira til. Myndin skilur eftir sig heilmikið fóður til umhugsunar á svipaðan máta og önnur brillerandi afbyggingarræma hrollvekjuflokksins, Behind the Mask, nema á stærri skala og með meira fullnægjandi afrakstur í lokin.