Birt þann 17. apríl, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: Enthiran (Vélmenni)
Áður en ég byrja ætla ég að biðja ykkur um að pæla ekkert í einkunnargjöf myndarinnar, það er ómögulegt að dæma þessa mynd á okkar skala því hún er framleidd fyrir allt aðra menningu með gjörólíkri kvikmyndagerð en við erum vön. Þetta var í fyrsta sinn sem ég horfði á Bollywood-mynd (Slumdog Millionare telst ekki vera Bollywood-mynd) og ég hafði sáralítið til að miða við áður en ég fór á hana; svona kvikmyndir sýna aldrei beinan koss og oft bresta leikararnir í söng, sama hvaða kvikmyndaflokki hún tilheyrir.
En Enthiran tilheyrir nefninlega ekki einum flokki, hún tilheyrir kryddblönduflokkinum þar sem þú ert í raun að fá fimmtán myndir á verði einnar, og þessi mynd lýgur því alls ekki. Þetta er sérkennilegasta kvikmyndasúpa sem ég hef nokkurn tíman séð í bíó (og heima fyrir).
Ef ég ætti að lýsa söguþræði Enthiran, myndi hún hljóma eins og dýrari og bandbilaðri útgáfa af Bicentennial Man.
Ef ég ætti að lýsa söguþræði Enthiran, myndi hún hljóma eins og dýrari og bandbilaðri útgáfa af Bicentennial Man. Enthiran er fjári góð mynd til þess að kynnast Bollywood því mér finnst eins og ég hafi kynnst ÖLLUM hliðum menningarinnar á 164 mínútum – og ef þú ert eitthvað eins og ég, þá verður erfitt fyrir þig á köflum að hemja hláturinn.
Ég veit að þetta hljómar eins og heilmikil óvirðing í garð menningarinnar sem tekst að detta inn í þessar myndir eins og það sé heimsins besta sing-a-long leikhús, en ég hló óvenjulega mikið af myndinni á mismunandi köflum – oft þar sem myndin var að sækjast eftir því, oftar þar sem eitthvað gerðist sem var óvart fyndið. Þetta fylgir einfaldlega svona stórum pakka af ofur-erlendri menningu að eitthvað á ekki eftir að smella hjá manni eins og gerir hjá markhópnum, en það gerði Enthiran ennþá skemmtilegri að mínu mati.
Ég hef aldrei átt jafn erfitt með að hemja hláturinn og þegar fyrsta söngatriðið birtist úr lausu lofti (reyndar er ákveðin uppbygging á bakvið hvert lag og hvar þau koma inn, en þarna kom hún mér algjörlega að óvörum). Það sem mér fannst svo óhemju fyndið var að myndin gaf mér enga ávísun um að það myndi gerast. Myndin lætur eins og þetta sé alveg sjálfsagður hlutur að maður sé kominn í tónlistarmyndband gjörólíkt því sem kom á undan. Það sést langar leiðir að þetta er rándýr mynd, því hún er troðin af litríkum og kostnaðarsömum fatnaði, leikmunum, leikmyndum, og tæknibrellum. Brellurnar eru hvergi nálægt því að vera á sama plani og það sem Hollywood býður upp á, en þær eru svo sannarlega skrítnari en ALLT sem Hollywood hefur fært okkur.
Ég virðist kannski grunnhygginn að segja að myndin virkar mjög fyndin fyrir einhvern sem veit ekkert um menninguna, en salnum fannst þetta allt álíka skemmtilega kjánalegt og mér af hlátrasköllunum að dæma. Þessi mynd er ekki bara til að svala þorstanum fyrir því að sjá hvernig raunveruleg Bollywood-mynd er, heldur er hún heilmikil upplifun sem magnast klárlega með félögum og fólki sem er jafn glórulaust um það sem er á ferðinni. Sum atriðin munu fá ykkur til að hugsa hvernig þeim tókst að komast lengra en á blað framleiðandanna – atriðið með moskítóflugurnar toppaði alla rökhugsun.
Enthiran er hiklaust súrasta og mest fyllandi rússíbanaferð sem ég hef upplifað í bíó. Það tók mig dágóðann tíma og rúmlega nætursvefn að melta hana almennilega og mig langar eiginlega að sjá hana aftur (sem ég mun klárlega gera einn daginn). Henni tókst að vekja áhuga minn á Bollywood og kynna fyrir mér því dýrasta sem þessi sérkennilega kvikmyndamenning býður upp á. Þetta er kvikmynd(?) sem langflestir þurfa að sjá einhvern tíman, sérstaklega með vinum – orð hreinlega bregðast mér í að lýsa þessari ræmu.
PS: myndin fer vægast sagt skemmtilega kjánalegar leiðir með hvernig hún forðast að sýna beinan koss.