Leikjanördabloggið

Birt þann 21. nóvember, 2011 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

0

Made in China 2: Famiklóninn prufaður

LNBanner

(Áður en lengra er haldið er vert að taka það fram að þessi færsla er eiginlegt framhald af þessari færslu HÉR)

Hérna um daginn var ég að taka til í íbúðinni minni og rak þá augun í bláan kassa sem lá á gólfinu ekki svo langt frá sjónvarpinu. Þetta var að sjálfsögðu kassinn sem inniheldur kínverska famiklónin sem ég fékk sendan fyrir nokkrum vikum en náði því miður ekki að prófa vegna tæknilegra örðugleika. Ég ákvað að ég þyrfti að fara að drífa í því að prufa hann, en það var spurning hvernig ég ætti að komast fram hjá þeim vandræðum að geta tengt hann í rafmagn? Eftir að hafa lagt höfuðið í bleyti yfir þessu vandamáli í nokkra daga komst ég að þeirri niðurstöðu að eina leiðin væri að breyta fjöltengi sérstaklega til þess að geta komið klóninum í gang. Ég brenndi því út í Elko og fann ódýrasta fjöltengið sem þeir höfðu í boði. Þegar ég kom heim sneiddi ég plastið ofan af fjöltenginu með járnsög, skóf umfram plast burt með dúkahníf og hristi síðan plastspænirnar úr svo ég myndi ekki enda á því að kveikja í húsinu.

Athugið! Eldhætta! Ekki gera þetta heima hjá ykkur!

Næsta skref var að athuga hvort straumbreytirinn passaði í Frankensteinfjöltengið. Hann smellpassaði þannig að ég hófst handa við að tengja tölvuna við sjónvarpið. Ég var búinn að minnast á að snúrurnar í öllu sem tengist famiklóninum eru frekar stuttar, en vá, þegar allt var tengt og tilbúið fann ég virkilega fyrir því hve stuttar þær voru. Ég þurfti að tengja framlengingarsnúru við fjöltengið svo ég kæmi klóninum fyrir framan sjónvarpið, og RCA snúran sem fylgdi með klóninum var líka alltof stutt, þannig ég þurfti að nota snúruna sem ég tengi í DVD-spilarann minn til að tengja klóninn við sjónvarpið. Snúran í fjarstýringunni er líka asnalega stutt þannig að ég þurfti að hafa tölvuna beint fyrir neðan mig til að hætta ekki á að kippa í tölvuna í miðjum leik. En hönnunargallar klónsins stoppa alls ekki við snúrulengd.

Ég ákvað að það væri réttast að prufa aftur einhvern af þessum leikjum sem ég fékk sendan með klóninum, en 64-in-1 hylkið varð fyrir valinu. Eins og ég minntist á í færslunni þar sem ég fékk kínversku hlutina í hendurnar þá voru tvær tegundir af leikjahylkum sem ég fékk sendar, en ég kallaði eina tegundina A-hylki og hina B-hylki. 64-in-1 leikurinn er í A-hylki, en þau eru aðeins stærri og klunnalegri en B-hylkin. Alla vegana, ég tók leikinn og bjó mig til að stinga honum inn í klóninn, en gat ekki fyrir mitt litla líf komið leiknum inn um lúguna þar sem leikirnir fara inn. Hylkið var einfaldlega of stórt til að passa í tölvuna! Hve glatað er það af hálfu kínverska fyrirtækisins að selja leiki sem eiga ekki eftir að passa í tölvurnar sem þeir selja? Þar sem ég var ekki tilbúinn til að taka hylkið í sundur til að koma leiknum fyrir, þá ákvað ég að velja B-hylki í staðinn, en þau eru mikið straumlínulagaðri og fíngerðari en A-hylkin. Sem betur fer passaði það í tölvuna, en þá var ekkert eftir nema að kveikja á tölvunni.

En það var auðvitað ekki auðvelt heldur þar sem kveikjutakkinn er merkilega vel falinn. Ég fann takkann eftir nokkrar sekúndur af leit en hann var undir „skyggninu“ á tölvunni, við hliðina á öðrum alveg eins takka sem ég gerði ráð fyrir að væri endurræsingartakkinn. Báðir takkarnir eru ómerktir og líta nákvæmlega eins út, en kveikjutakkinn er gerður til að festast inni á meðan endurræsingartakkinn smellur bara inn og út, og gefur frá sér svona smelluhljóð. Takkarnir eru líka pínkulitlir og stífir, og standa ekki út úr klóninum heldur eru slétt upp við plastið. Þeir eru það litlir að maður þarf helst að vera með barnsfingur til að ýta þeim inn, en það stífir að maður þarf styrk fullorðnar manneskju til að geta þrýst þeim inn! Þar sem tölvan er aðeins nokkur hundruð grömm á þyngd þurfti ég að halda við hana á meðan ég ýtti á kveikjutakkann með blýanti, og þá hrökk hún í gang!

Fjöltengið var ekki eina fórn dagsins

Miðað við allar þær serímóníur sem ég fór í gegnum til að koma vélinni í gang þá átti ég ekki von á miklu, en leikurinn birtist á skjánum og myndin var merkilega skýr í þokkabót! Eins og ég var búinn að segja áður þá voru flestir af kínversku leikjunum frekar truflaðir (glitchy) þegar ég spilaði þá á hinum famiklóninum mínum sem ég nota venjulega, en á þessum kínverska voru leikirnir merkilega flottir. Sennilega eru þessir leikir sérhannaðir til að vera spilaðir á síðri klónum, en það er vel þekkt að sumir pirate leikir spilast hreinlega ekki á alvöru Famicom tölvum. Hylkið sem ég setti í var með alla Adventure Island leikina á sér, þannig að ég valdi Adventure Island 4 og byrjaði að spila. Fjarstýringarnar á klóninum komu mér á óvart. Takkarnir voru akkúrat nægilega stífir, og litli steinaldarmaðurinn í Adventure Island brást hárrétt við öllum þeim skipunum um hopp og skopp sem ég sendi honum í gegnum fjarstýringuna. Meira að segja hljóðið í leiknum var frekar gott miðað við mono. Allt virkaði fullkomlega og var langt fram úr mínum væntingum sem ég hafði um þennan klón, þetta var of gott til að vera satt.

Þannig hlutir eru yfirleitt ósannir

Eftir að fyrsta borðið í Adventure Island 4 kláraðist þá fraus leikurinn. Það er svo sem ekkert óvenjulegt að lenda í því að leikir frjósi við og við. Hylkið gæti verið laust í tölvunni eða samböndin á milli leiks og hylkishaldarans gætu verið skítug, þannig ég kippti mér ekki mikið upp við þetta og kveikti aftur á leiknum. Eftir aðeins nokkrar sekúndur af spilun fraus leikurinn aftur. „Ok, þessi leikur er bara eitthvað bilaður ég prufa bara annan leik“ hugsaði ég. Þannig að ég setti annan kínverskan leik í sem er yfirfullur af RoboCop leikjum. Eftir að hafa aðeins náð að spila nokkrar sekúndur af RoboCop 2 áður en leikurinn fraus, þá komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta gæti ekki verið eðlilegt. Þannig að ég ákvað að setja gamlan reyndan pirate leik sem ég hef átt lengi í klóninn, nánar tiltekið Flipull: An Exciting Cube Game.

Sem er þrátt fyrir nafnið ekkert spennandi

Flipull fraus ekki og spilaðist bara fínt. Ég náði meira að segja að spila hann í gegnum alveg þrjú borð áður en lágt prumphljóð kom frá klóninum og sjónvarpsskjárinn varð alveg svartur. Síðan fann ég smá brunalykt, þannig ég stökk til og reif klóninn úr sambandi og kippti leiknum úr. Í fyrstu hélt ég að Frankensteinfjöltengið væri kannski farið að bræða plastafsag, en það var ekki neitt að sjá á því og rafmagnið hafði ekki slegið út. Þannig ég tók klóninn upp og lyktaði af honum, og fann að brunalyktin kom frá honum. Ástæðan fyrir því að leikirnir voru að frjósa hjá mér var vegna þess að smátt og smátt var famiklóninn að bræða úr sér.

Eftir að hafa skoðað kassann utan af famiklóninum betur er ég búinn að komast að því að straumbreytirinn sem fylgdi með var 110 volta, en ekki 220 volta eins og við notum hérna á Íslandi. Þar sem það stendur utan á kassanum má að vissu leyti skrifa þetta klúður á mig. En áður en ég pantaði klóninn talaði ég við Rose vinkonu mína sem er þjónustufulltrúi hjá kínverska fyrirtækinu sem ég pantaði klóninn hjá. Þá vildi ég bara fá tvo hluti staðfesta: Númer eitt; hvort klóninn væri fyrir PAL kerfið, og númer tvö; hvort hann notaðist við 110 eða 220 volt. Mér var sagt að hann væri PAL og 220 volt, þannig ég var ekkert að athuga utan á kassann áður en ég prufaði hann, en að sjálfsögðu hefði ég samt átt að gera það vitandi hvað Kínverjar eru lakir í gæðaeftirliti sínu (þetta gæti líka haft eitthvað með það að gera að ég fékk sendan vitlausan famiklón). Engu að síður vildi ég athuga hvort það væri eitthvað sem ég gæti gert til að fá klóninn aftur í gang, þannig að ég opnaði hann og skoðaði innyflin í honum.

"Halló, er engin heima?"

Það kom mér virkilega á óvart hvað tölvuíhlutirnir eru minimalískir í þessum klón. Það er nánast ekkert inní honum, og allir hlutirnir eru meira og minna festir með límbyssulími eða bara alls ekki. Sumir muna kannski eftir því þegar ég aftengdi NES Lockout Chip á NES tölvunni minni, en í þeirri færslu birti ég myndir af innviðum NES tölvunnar. Þegar maður ber saman innviði NES tölvunnar og kínverska famiklónsins þá verður maður hálf gáttaður. Hvernig í ósköpunum eiga þessir örfáu vírar og plastkubbar að jafnast á við NES móðurborðið? Staðreyndin er að sjálfsögðu sú að klónin er engan vegin jafn góð leikjatölva þegar kemur að mynd-, hljóð- og spilagæðum, en maður undrar sig samt á því hvernig svona lítið getur gert svo mikið. En eftir að hafa grandskoðað innviðin sá ég ekki neitt sem gæti verið brunnið öryggi eða neitt í þá áttina. Þar af leiðandi er nokkuð öruggt að NOAC (NES On A Chip) flagan sjálf hafi brunnið, en hún er í rauninni tölvan í heild sinni, þrátt fyrir að vera aðeins sentimeters stór örflaga, hulin bræddu plasti.

Án gríns, þessi svarti sentimeters breiði punktur undir límbandinu er tölvan í heild sinni

Ég er smá svekktur yfir því að klóninn hafi brætt úr sér. Þrátt fyrir alla hönnunargallanna á vélinni sjálfri þá spilaði hann kínversku pirate leikina mjög vel og fjarstýringarnar voru nokkuð góðar miðað við ódýrar eftirlíkingar. Svo fæ ég líka aldrei að komast að því hvort ljósbyssan sem fylgdi með klóninum virkaði, en ég á nokkra ljósabyssuleiki fyrir Famicom sem ég hef aldrei getað prufað. En maður lærir alla vegana af þessu; Aldrei að versla við kínverska heildsölu og búast við gæðavöru (og alltaf að lesa utan á vöruna áður en hún er prófuð).

R.I.P. Kínverski famiklón.

 

Takk fyrir lesturinn!

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Skildu eftir svar

Efst upp ↑