Birt þann 7. september, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: Attack The Block
Hópur ungra villinga úr blokk í suður Lundúnarborg hafa það að iðju að ræna aðra og slæpast um stefnulaust, en bregður þó heldur betur í brún þegar loftsteinn hrapar hjá þeim þegar þeir eru í miðju ráni. Áður en þeir vita af ræðst geimvera á þá og þeim tekst að drepa hana í æsingnum. Þeir komast þó brátt að því að geimveran er einungis upphafið af innrás úr geimnum sem virðist beinast aðallega að blokkinni þeirra. Nú er tími til að standa saman, halda lífi og verjast þessari ógn, en það reynist erfiðara en þeir bjuggust við.
Myndin er óður til klassísku skrímslamyndanna, en sker sig úr þekktari titlum í þeim flokk að því leyti að hér er stíllinn og tónnin í samræmi við nútímaþéttbýli, en ekki stórborg með stóran leikvöll fyrir verurnar til að valda usla. Atburðarrásin á sér stað í afmörkuðu rými á einni nóttu, en þetta leiðir til spennandi eltingarleikja þar sem fáir felustaðir eru í boði.
Blokkin er einnig notuð sem innlit í líf villinganna- sérstök tilbreyting að sjá heim persónanna og hvað mótar þær í formi herbergja þeirra og örstuttu útidyraspjall við fjölskyldur þeirra. Jafnvel ef þér líkar ekki ennþá við þá í lokin ættir þú að geta tengt þig við spennuna, sem er mjög vel útfærð, almennilega mynduð og klippt í stíl við spennumyndir af gamla skólanum – ekkert óþarfa shakycam hér á ferð.
Jafnvel ef þér líkar ekki ennþá við þá í lokin ættir þú að geta tengt þig við spennuna, sem er mjög vel útfærð, almennilega mynduð og klippt í stíl við spennumyndir af gamla skólanum – ekkert óþarfashakycam hér á ferð.
Attack The Block er fyrsta leikna mynd breska leikstjórans Joe Cornish í fullri lengd, það kom mér á óvart að heyra þetta eftir að hafa séð hversu fagmannleg leikstjórn hans er. Þetta er klárlega náungi sem hefur stundað kvikmyndagláp af mikilli ástríðu. Joe Cornish skrifaði einnig handritið sem er þétt, hnitmiðað og heldur mjög góðu flæði út alla myndina. Kvikmyndatakan er án efa með þeim betri sem sést hefur í spennumyndum uppá síðkastið og er auðvelt og þægilegt að greina hvað er að gerast á skjánum; einnig er kvikmyndatakan notuð snilldarlega til að gera geimverurnar sannfærandi og bæta upp fyrir að þær eru praktískar en ekki tölvugerðar.
Hönnunin á geimverunum er fersk og kemur á óvart hversu raunverulegar þær líta út í myndinni. Það er eitthvað svo einstaklega sígilt og girnilegt að sjá geimverurnar á iði og ráðast á fólk í afburðar brelluskotum. Að notast við praktískar brellur er í dag kostnaðarsamt og tímafrek iðja þannig að fáir aðdáendur af gömlu góðu skrímslamyndunum ættu vart að verða vonsviknir að sjá kvikmynd í dag meðhöndla svona brellur af jafn miklum metnaði og Attack The Block.
Leikararnir skila flest allir góðri frammistöðu, en þá sérstaklega John Boyega í aðalhlutverki myndarinnar sem Moses og verður spennandi að sjá hvað verður úr honum í framtíðinni sem leikara. Slökustu frammistöðurnar eru þau Nick Frost og Jodie Whittaker, en ég myndi segja að það væri vegna hversu einhliða hlutverkin þeirra í myndinni eru – ég mæli með að þið kíkið á Paul ef þið viljið sjá Nick Frost í einu af sínum bestu hlutverkum. Terry Notari á líka hrós skilið fyrir túlkun sína á geimverunum í myndinni. Attack The Block er stórgóð skemmtun og einstakt dæmi um hvernig á að nýta gamlar kvikmyndabrellur til að bæta raunveruleika og spennu í kvikmyndum í dag.
– Axel Birgir Gústavsson