Íslenskt

Birt þann 18. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Uppvakningaganga í Reykjavík

Þann 11. júní síðastliðinn var uppvakningaganga (e. zombie walk) haldin í Reykjavík þar sem fólk fór í uppvakningagervi og ráfaði um miðbæinn. Uppvakningagöngur hafa verið haldnar víðsvegar um heiminn síðastliðinn áratug, í kjölfar vinsælda uppvakninga í bókmenntum, kvikmyndum og tölvuleikjum.

Uppvakningarnir í Reykjavík söfnuðust saman á tveimur stöðum; við Hlemm annars vegar og við Tækniskólann hins vegar. Gangan frá Hlemmi hófst á slaginu þrjú og gekk sú hjörð niður Laugaveginn á meðan seinni hópurinn lagði af stað frá Tækniskólanum korteri síðar og ráfaði niður Skólavörðustíg. Hóparnir tveir mættust að lokum þar sem Skólavörðustígur og Laugavegur mætast og gengu saman áfram niður Laugaveg, Austurstræti, að Ingólfstorgi og enduðu svo á Austurvelli þar sem hungraðir uppvakningarnir ráfuðu um og stundu.

Ljósmyndari: Sigríður Sirrý Dagbjartsdóttir
 Ljósmyndir birtar með leyfi ljósmyndara og PressPhotos.biz

Gangan var skipulögð í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook sem lýsa uppvakningum sem; hægfara, líflausum, náhvítum og stynjandi. Uppvakningar ráfa um í þeirri von um að finna fólk til að bragða á. Samkvæmt heimildum okkar urðu engin slys á fólki og hægt að útiloka að uppvakningarnir hafi náð að smita aðra af hinni lítið þekktu veiru sem breytir þeim dauðu í uppvakninga.

Ljósmyndari: Sigríður Sirrý Dagbjartsdóttir
 Ljósmyndir birtar með leyfi ljósmyndara og PressPhotos.biz

Gangan var öllum opin og hvöttu skipuleggjendur sem flesta til að mæta og eiga góða stund saman, ungir sem aldnir. Viðburðurinn dreifðist líkt og eldur um sinu og voru yfir 900 búnir að boða komu sína og aðrir 600 sem ætluðu kannski að mæta. Það var þó ekki nema lítið brot af þessum hópi sem lét sjá sig en stemningin var þrátt fyrir það gríðarlega góð. Nokkrum dögum áður en gangan sjálf fór fram var hópur stofnaður þar sem fólk var hvatt til að mæta til að veita uppvakningunum mótspyrnu. Einhverjir mættu með NERF byssurnar sínar í gönguna til að reyna að stoppa hjörðina. Það fylgir ekki sögunni hvort það hafi tekist að stoppa uppvakningana og því öruggara að vera á varðbergi!

Smelltu hér til að horfa á umfjöllun kvöldfrétta Stöðvar 2 frá 11. júní.

– BÞJ

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑