Íslenskt

Birt þann 21. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

DNA þekktra goðsagna

Við hjá Nörd Norðursins kíktum í heimsókn til Michelsen úrsmiða snemma í júlí og fengum að skoða nýja sendingu af heldur óhefðbundnum úrum. Um er að ræða lúxusúr sem eru framleidd af úrsmiðum RJ-Romain Jerome sem nota tunglryk, íslenskt hraun og ryð úr breska farþegaskipinu Titanic.

RJ-Romain Jerome er frekar ungt merki en fyrirtækið var stofnað árið 2004, þrátt fyrir ungan aldur hefur það öðlast miklar vinsældir á stuttum tíma með hugmyndinni og slagorðinu: „DNA of famous legends“ eða „DNA þekktra goðsagna“. Hugsunin á bak við DNA lúxusúrin frá RJ er að taka þekkta sögufræga hluti og færa þá yfir á úlnlið eigandans. Hönnun úranna er djörf og útlit þeirra afar frábrugðið því sem þekkist á hefðbundnum úrum. DNA úralínan samanstendur af þremur úrum; Moon-DNA, Titanic-DNA og Eyjafjallajökull-DNA. Margar mismunandi úrfærslur eru fáanlegur af úrunum þremur og eru þau öll framleidd í takmörkuðu upplagi.

 

Moon-DNA

Í Moon-DNA úrinu er meðal annars notað tunglryk, brot úr Apollo XI tunglfarinu og hluta úr geimbúningi Alþjóðlegu geimstöðvarinnar (International Space Station (ISS)). Útlit úrsins sækir innblástur til tunglendingarinnar. Umgjörð úrsins er úr stáli og kolefnatrefjum úr Apollo XI – fyrsta mannaða tunglfarinu sem lenti á tunglinu. Margar útgáfur af Moon-DNA eru fáanlegar og á sumum þeirra má sjá líkingu umgjarðarinnar á sjálfu tunglfarinu þar sem umgjörðin er meðal annars með svipaðar fætur og tunglfarið var með. Í útgáfunni sem við skoðuðum hjá Michelsen úrsmiðum var samanþjappað tunglryk á bakhlið úrsins, þannig að sá sem ber úrið er í stöðugri snertingu við tunglrykið sem er að finna í úrinu. Ólin er ýmist úr plasti eða krókódílaleðri og hefur geimbúningur sem  notaður var við Alþjóðlegu geimstöðina verið ofinn með.Með hverju úri fylgir viðurkennt vottorð frá alþjóðasamtökum geimfara (Association of Space Explorers (ASE)) þar sem fram kemur að hráefni úrsins er ósvikið.Aðeins 1.969 eintök voru framleidd af Moon-DNA úrinu.

 

 

Í lok júní á þessu ári sendi Romain Jerome frá sér tilkynningu þar sem kom fram að fyrirtækið hefði náð samkomulagi við leikjafyrirtækið TAITO við gerð sérstakra úra til heiðurs tölvuleiknum Space Invaders frá 1978, en leikurinn sló í gegn á sínum tíma í spilakössum um allan heim. Úrin verða útfærð á svipaðan hátt og Moon-DNA en með sérstöku Space Invaders þema. Um er að ræða tvær gerðir af Space Invaders úrum og verður hvor gerðin aðeins framleidd í 78 eintökum.

 

Titanic-DNA

Fyrir tæpri öld sökk eitt þekktasta farþegaskip sögunnar; Titanic. Skipið sökk í jómfrúarferð sinni, 15. apríl 1912, eftir að hafa rekist utan í ísjaka á ferð sinni frá Southampton í Englandi til New York í Bandaríkjunum. Yfir 1.500 manns létust í þessu hræðilega slysi.
Umgjörð Titanic-DNA úrsins er úr ryðguðu stáli Titanic skipsins og handan við glerið eru kol úr skipinu. Líkt og með Moon-DNA eru nokkrar gerðir til af Titanic-DNA, en úrið var framleitt í takmörkuðu upplagi eða í 2.012 eintökum.Með úrinu fylgir viðurkennd vottun á því að hlutirnir séu í raun og veru fengnir úr Titanic sem liggur í dag á hafsbotni – 3.840 metra undir sjávarmáli.

 

Eyjafjallajökull-DNA

Í fyrra fékk Ísland Forever Alone stimpil á sig þegar Eyjafjallajökull (borið fram sem Íjakalaffakkala af erlendum fréttamönnum) gaus. Í kjölfarið raskaðist flug í Evrópu verulega og allir fóru að hata Ísland. Umgjörð Eyjafjallajökull-DNA er úr ösku gossins og klukkuskífan úr þunnri hraunsneið. Aðeins 99 eintök voru framleidd af úrinu.
Við mælum með heimasíðu RJ-Romain Jerome,   www.romainjerome.ch , sem er algjört augnakonfekt. Þar er einnig hægt að nálgast nánari upplýsingar um úrin – já eða einfaldlega kíkja í heimsókn til Michelsen úrsmiða.
DNA úrin sem eru fáanleg hjá Michelsen kosta á bilinu 1,6 og upp í 4,1 milljónir kr.

– BÞJ


_

 


Deila efni

Tögg: , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



One Response to DNA þekktra goðsagna

Skildu eftir svar

Efst upp ↑