Spil

Birt þann 14. mars, 2017 | Höfundur: Ingunn Jóna Þórhallsdóttir

Spilarýni: 7 Wonders

Spilarýni: 7 Wonders Ingunn Jóna Þórhallsdóttir

Samantekt: Á heildina er litið er 7 Wonders ofarlega á vinsældarlistanum og klárlega eitthvað sem á heima í spilasafninu.

4.5

Skemmtilegt!


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

7 Wonders gerist á tímum forngrikkja. Hver leikmaður ræður yfir einni af sjö stórborgum Grikkja til forna og tilgangur leiksins er að sanka að sér auðlindum, byggingum, her o.fl. Spilið gerist á þrem öldum og á hverri öld fær hver leikmaður 7 spila bunka á hendi. Hann velur sér svo eitt spil og lætur bunkann ganga til næsta manns. Allir leikmenn byggja svo spilið sitt og borga fyrir það með auðlindum eða peningum eftir því sem við á. Bunkarnir ganga svo hringinn þar til allir hafa lagt niður 6 spil á hverri öld. Spilabunkarnir ganga svo mismunandi hring eftir því hvaða öld er í gangi svo leikmenn verða að vera vakandi fyrir borgunum beggja megin við sig, fylgjast með hvað aðrir eru að byggja og mögulega koma í veg fyrir að spilari fái spil sem hann vantar.

Spilin hafa mismunandi eiginleika. Hægt er að styrkja herinn sinn, byggja auðlindir sem auðvelda manni kaup á dýrari spilum, byggja spil sem gefa af sér stig, fá ýmsa bónusa og margt fleira. Á hverri öld verða spilin dýrari og gefa af sér meira. Einnig er hægt að fá spil frí á öld tvö og þrjú fyrir það eitt að hafa byggt annað spil á fyrri öldum. Til að eignast spil er ekki nauðsynlegt fyrir leikmenn að eiga allar auðlindir sem tiltekið spil kostar. Leikmenn geta keypt auðlindir af nágrannaborgum fyrir pening, svo nauðsynlegt er að fylgjast vel með hvað sessunautarnir eru að byggja því það hefur áhrif á þinn leik. Spilið klárast svo þegar búið er að byggja síðasta spil þriðju aldar, þá eru stigin tekin saman.

7 Wonders er mjög skemmtilegt spil. Það sem gerir spilið skemmtilegast að mínu mati er hversu mikil áhrif þú getur haft á aðra leikmenn með því sem þú byggir. Svo er það svo óútreiknanlegt. Það er ekki auðvelt að giska á hver vinnur því stigin sem hver leikmaður fær koma alls staðar frá. Hægt er að fara margar mismunandi leiðir í spilinu sem hver um sig getur skilað manni sigri ef maður spilar rétt úr því sem maður hefur. Annað sem ég hef tekið eftir við 7 Wonders. Öll tákn sem fylgja borgunum og á spilunum eru mjög vel útfærð og mjög lýsandi. Augljóst er að mikið var lagt í útlitshönnunina og það gefur þessu spili mikinn karakter.

Ókostirnir eru þó nokkrir líka. Stærsti ókosturinn er líklegast umfangið á spilinu. Það þarf mikið borðpláss, þar sem borgirnar stækka og dreifa úr sér eftir því sem líður á spilið. Einnig er það frekar tímafrekt í uppsetningu. En þegar á heildina er litið er 7 Wonders ofarlega á vinsældarlistanum og klárlega eitthvað sem á heima í spilasafninu.

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑