Leikjarýni

Birt þann 27. júní, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Mario Kart 8

Mario Kart 8 er kominn og ég búinn að spila hann þó nokkuð. Áður en ég tala um hann vil ég skrifa smá um reynslu mína af Mario-Kart seríunni. Ég átti Mario kart á N64 og er það mögulega besti bílaleikur sem ég hef spilað, þannig að Mario Kart 8 hafði mikið að sanna þegar ég setti hann í vélina. 

Leikurinn er sem sagt bílaleikur þar sem maður keppir við 11 aðra, annað hvort alvöru fólk eða tölvustýrða ökumenn. Hver braut er venjulega þrír hringir og getur maður fengið mismunandi vopn eða hluti sem fleyta manni áfram til að gera keppnina aðeins skemmtilegri. Það er eitt sem mér finnst vanta í þennan leik, og fleiri leiki sem hafa verið að koma undanfarið, en hvergi er útskýrt hvað ákveðin vopn gera eða hvernig er best að stýra leiknum.

Grafíkin er litrík og skemmtileg á að horfa, og jafnvel þegar maður spilar leikinn inn í stóru Wii-U fjarstýringunni (Gamepad) lítur hann vel út. Borðin eru einnig mjög mismunandi og skemmtilega útfærð, og alltaf gaman að fara í gegnum gömul klassísk borð sem hægt er að velja í leiknum. Mér fannst reyndar fjölbreytileiki borðanna vera meiri í N64 leiknum en það gæti bara verið vegna þess að það var fyrsti leikurinn í seríunni sem ég spilaði. Hljóðið stendur líka fyrir sínu og alltaf gaman að heyra t.d. Mario segja „let’s-e go“ en eitt sem fór í taugarnar á mér er að Nintendo ákvað að breyta röddinni í Donkey Kong, mér fannst hún snilld í gamla daga og skil í rauninni ekki af hverju þeir voru að breyta henni.

Mario_Kart_8_01

Það er hægt að velja þrjú mismunandi erfiðleikastig og er miðjustigið og efstastigið mjög krefjandi sem gefur leiknum mikið endurspilunargildi. Ég keypti mér líka einhver plaststýri á tvöþúsund kall stykkið en þau eru alveg óþarfi og sé ég svolítið eftir að hafa eytt pening í þau. Maður þarf líka oft að gera svona „dash“ í erfiðustu beygjunum og getur verið smá snúið að ná því. Einnig er komin ný vídd í leikinn þar sem maður getur valið mismunandi bíla, dekk og fallhlífar, en þetta spilar allt inn í hvernig maður vill keyra þar sem sumir hlutir auka hraða manns, þyngja bílinn eða gera beygjur auðveldari í akstri. Þetta er einmitt annað atriði sem mætti vera einhvers konar sýningarmyndband um hvernig virkar.

Eitt það sem var skemmtilegast að gera í gamla Mario Kart leiknum var að spila með vinum sínum og tókst mér að hóa í vini mína til að prófa það, það er allt öðruvísi að stýra með þessum plaststýrum sem ég keypti og miklu erfiðara heldur en að nota stóru fjarstýringuna sem fylgdi upprunalega með tölvunni. Það var kannski svolítið erfitt að útskýra fyrir drengjunum hvað hlutirnir sem maður gat notað sér til styrks gerðu og hefði aftur verið fínt að hafa einhvern bækling eða kennsluborð til að læra á leikinn. Einnig er búið að breyta Battle Mode. Áður voru sérhannaðir vellir til að berjast á, en í Mario Kart 8 er maður bara á kappbrautunum að skjóta hvorn annan með skeljum.

Mario_Kart_8_02

Það er enginn söguþráður í leiknum, enda engin þörf á slíku. Maður bara keppir og reynir að vinna sem flesta bikara til að fá nýjar brautir og nýja ökumenn. Fjölbreytileiki ökumanna er ekkert svakalegur en allir klassísku karakterarnir eru í leiknum. Síðan eru barnaútgáfur af Mario-bræðrum og prinsessunum og síðan átta mismunandi Koopa fígúrur sem eru flest allar mjög svipaðar hvor annari. Það er velkomin breyting í leiknum að ef maður dettur útaf brautinni þá er það ekki jafn mikill dauðadómur og var í fyrri leikjum. Einnig ber að hafa í huga að maður getur klesst misvel á mótherja sína sem gefur manni sjálfum eða þeim auka drifkraft.

Mario_Kart_8_03

Skemmtilegur fídus er líka að maður getur spilað leikinn í stóru fjarstýringunni og haft slökkt á sjónvarpinu eða ef einhver vill horfa á sjónvarpið þá er hægt að færa sig yfir í hana og ekkert vesen verður í gangi (getur bjargað mörgum samböndum!)

Mario Kart 64 er ennþá uppáhaldsleikurinn minn í þessari seríu en þetta er góð viðbót við hana. Mikið endurspilunargildi og alltaf gaman að geta tekið nokkra hringi með vinum sínum á góðri stundu. Grafíkin og hljóðið mæta hinum háu stöllum sem Nintendo hefur alltaf sett sér og örugglega sú besta sem ég hef séð til þessa. Mario Kart-serían verður flóknari með hverri útfærslu og hefði ég vel getað þegið kennsluborð fyrir þessa útgáfu. Svo fær leikurinn plús fyrir að framkalla þetta móment:

 

Höfundur er Elmar Víðir Másson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑