Bíó og TV

Birt þann 12. júní, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

Kvikmyndarýni: Los ojos de Julia (2010)

Kvikmyndarýni: Los ojos de Julia (2010) Nörd Norðursins

Samantekt: Skortir frumleika. Los ojos de Julia heldur þó athygli áhorfanda til loka og er vel þess virði að sjá.

4

Góð


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Andri Þór Jóhansson skrifar:

Fátt er skelfilegra en það sem þú getur ekki séð. Öll þekkjum við barnslega hræðslu við myrkrið og það sem ímyndunaraflið getur búið til. Flest getum við þó kveikt ljósið í aðstæðum þar sem myrkrið verður yfirþyrmandi. Það er hins vegar ekki hægt þegar sjón manns fer síminnkandi. Los ojos de Julia (Augun hennar Juliu) er spænsk mynd frá árinu 2010 sem tekst á við þennan vanda.

Tvíburasysturnar Sara og Julia eru báðar með hrörnunarsjúkdóm sem gerir þær smám saman blindar. Sara verður fyrri til að verða algjörlega blind og deyr á dularfullan hátt nokkru síðar. Á sama tíma verður Julia fyrir áfalli í vinnunni og finnur á sér að eitthvað hafi komið fyrir systur sína. Þegar hún kemur að henni hangandi í snöru heima hjá sér er hún viss um að ekki sé allt með feldu og hyggst komast að raunverulegri dánarorsök systur sinnar. Stressið sem fylgir þeirri rannsókn hefur slæm áhrif á sjón hennar og því nær sem hún kemst sannleikanum því minna sér hún. Nokkuð kaldhæðið, ekki satt?

Los_Ojos_01

Myndin er jú frekar köld ef út í það er farið. Bláir tónar einkenna myndina og hún gerist að miklu leyti að nóttu til, á skýjuðum dögum og í stormi. Með stormi fylgir svo rafmagnsleysi sem spilar inn í notkun ljóss og skugga, ásamt skertri sjón. Myndatakan nær nokkuð vel að gefa áhorfandanum tilfinningu fyrir blindu án þess þó að það sé truflandi. Andlit fólksins sem að Julia talar við sjást sjaldan og myndatakan reynir þannig að setja áhorfandann í spor hennar. Þar sem að hryllingsmyndir eru sífellt að endurnota leiðir til að leika með ljós og myrkur getur verið erfitt að halda áhorfanda spenntum. Los ojos de Julia tekst það hins vegar að mestu leyti og þó að fyrrnefndar leiðir séu ekki ýkja frumlegar þá passa þær vel við fléttu myndarinnar.

Myndin er vel leikin og Belén Rueda er sérstaklega sannfærandi í hlutverki Juliu þegar líða tekur á myndina, en margir gætu munað eftir henni úr El orfanato, frábærri hryllingsmynd frá árinu 2007. Það kemur kannski engum á óvart að myndin er framleidd af Guillermo del Toro, eins og svo margar aðrar hryllingsmyndir frá Spáni, en þetta er aðeins önnur mynd leikstjórans Guillem Morales í fullri lengd.

Los_Ojos_02

Það sem hamlar myndinni frá því að vera jafn góð og t.d. El orfanato er frumleikinn. Myndinni tekst nefnilega að skapa óþægilegt andrúmsloft en á það til að detta aðeins niður þegar maður rekst á atriði sem minna mann á aðrar myndir. Það eru a.m.k. mjög sterk áhrif frá hrollvekjumeisturunum Alfred Hitchcock og Dario Argento. Sumir gætu kallað það tilvísanir en hér virðist það frekar vera formúlukennd hugsun sem heldur sig innan þægindarammans. Ég myndi þó alls ekki segja að myndin sé ófrumleg því hún varpar nýju ljósi á margt og nýtir gamlar hefðir á eigin forsendum. Flétta myndarinnar er ekki heldur alveg skotheld, en best er að vita sem minnst um söguþráðinn til þess að njóta myndarinnar að fullu. Los ojos de Julia heldur þó athygli áhorfanda til loka og er vel þess virði að sjá.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑