Fréttir1

Birt þann 21. maí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Facebook komið á NASDAQ

Föstudaginn 18. maí hringdi Mark Zuckerberg, meðstofnandi og stjórnarformaður Facebook, NASDAQ bjöllunni frægu og opnaði þar með fyrir kaup og sölu á hlutabréfum í Facebook.

Hver hlutur var metinn á $38 í byrjun dags og fyrirtækið í heild sinni því metið upp á um 104 milljarða Bandaríkjadollara. Hlutabréfin hækkuðu upp í $42, en við lok fyrsta dags viðskipta í NASDAQ, einni stærstu kauphöll Bandaríkjanna, var hver hlutur metinn á $38.23.

Facebook hlutabréfin komu hálftíma seinna inn á markaðinn en áætlað var vegna tæknilegra örðugleika sem má rekja til mikillar eftirspurnar, en alls voru 566 milljón hlutabréf keypt og seld á fyrsta degi.

Mark Zuckerberg hringir NASDAQ bjöllunni frægu.

 

Hvers virði er Facebook í raun og veru?

Sumir segja að hlutabréfin séu ofmetin og vilja jafnvel meina að um sé að ræða bólu sem á eftir að springa (líkt og Netbólan á tíunda áratugnum). Aðrir telja að Facebook muni með tímanum verða stærra en netrisinn Google, en Google er u.þ.b. tíu sinnum verðmætara en Facebook í dag og óx mun hraðar en Facebook er að gera.

Meiri gróði, minni friðhelgi?

Þar sem Facebook er komið á markaðinn verður forvitnilegt að sjá hvað Zuckerberg og félagar munu gera til að auka verðmæti hlutabréfanna. Margir telja að Facebook muni selja upplýsingar um notendur í auknum mæli til fyrirtækja og bæta við fleiri auglýsingaplássum. Helsta tekjulind fyrirtækisins er jú að vita sem allra mest um mig og þig, hvað okkur líkar og hvernig við eyðum  tíma okkar á Facebook.

Við þetta má bæta að Facebook er á lista yfir stuðningsaðila hins umdeilda CISPA frumvarps, sem snýr að upplýsingasöfnun netverja. Smelltu hér til að kynna þér CISPA betur.

 

Heimildir: BBC News og Gizmodo.
Mynd: Zef Nikolla // Facebook.

BÞJ

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑