Leikjarýni

Birt þann 16. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Duke Nukem Forever

eftir Daníel Pál Jóhannsson

10. júní 2011 var merkur dagur í heimi tölvuleikja, því þá kom Duke Nukem Forever út sem hafði, hvorki meira né minna, verið 15 ár í bígerð. Fyrirrennari hans, Duke Nukem 3D kom út 1996. Ástæðan fyrir þessari áður óheyrðu töf í gerð leiks var sú að fyrirtækið 3D Realms voru ekki að leggja áherslu á að klára gerð leiksins þó þeir tilkynntu að Duke Nukem Forever yrði gefinn út 1998. Í maí 2009 var 3D Realms niðurskorið vegna fjárhagslegra ástæðna og liðið bakvið framleiðslu leiksins látið fara. En í september 2010 var tilkynnt að framleiðandinn Gearbox Software hefði tekið upp hanskann og væri að vinna við gerð leiksins.

Duke Nukem Forever byrjar á því að hetjan er inni á baðherbergi og stendur við hlandskál sem spilarinn getur, já, skvett úr skinnsokknum í. Þegar það er búið er hann látinn vita að þegar hann notar ákveðna hluti í umhverfinu sínu í fyrsta skipti hækkar Egóið hans Duke Nukem, sem kemur í stað hins hefðbundna lífs sem er í öðrum tölvuleikjum. Egóið minnkar við hvert skot sem hann verður fyrir, en eftir ákveðinn tíma fyllist það aftur og gamla goðið okkar er tilbúið í tuskið. Þessir hlutir sem spilarinn getur notað í umhverfi sínu til að auka lífið sitt eru t.d. að horfa á sjálfan sig í spegli, setja lóð á stöng og taka bekkpressu, skoða klámblað og setja poppkorn í örbylgjuofn. Snemma í leiknum er auðvelt að taka eftir því að Duke Nukem Forever á eftir að minnast á, vitna í og gera grín af þekktum bíómyndum, þáttum og öðrum tölvuleikjum. Það er minnst á South Park, þegar Duke er boðin græn ofurbrynja (sem er lík brynjunni hans Master Chief úr Halo seríunni) segir hann „Power armor is for pussies“ og þegar hann Duke eyðileggur gíra í einu borðinu segir hann „Duke One; Gears None“ sem vísar í Gears of War seríuna. Leikurinn er uppfullur af þessum tilvitnunum sem krydda upp á leikspilunina.

 

 

Fyrsti óvinurinn sem spilarinn berst við er endakallinn úr fyrri leiknum Duke Nukem 3D en þegar hann er sigraður kemur í ljós að Duke var að spila tölvuleik um sjálfan sig. Þegar hann er spurður hvort að leikurinn sé góður segir hann „Yeah, but after 12 fucking years it should be!“Spilarinn á því næst að mæta á svið í spjallþætti en áður en Duke kemst þangað er sjónvarpað að geimverurnar séu komnar aftur og hætt hefur verið við þáttinn. Duke heldur því næst í fylgsnið sitt þar sem honum er skipað beint af Bandaríkjaforseta að ráðast ekki á geimverurnar, heldur ætlar forsetinn að tala við þær og finna leið til að mannkyn og geimverur geti lifað í sátt og samlyndi. Stuttu eftir það samtal kemur í ljós að geimverurnar hafa enga löngun til að búa með mannkyninu og þær ráðast á leynistöð Duke. Hann tekur því upp hanskann fyrir mannkynið sem okkar eina von og fer í stríð við geimverurnar. Hann er þó ekki einn því EDF (Earth Defense Force) hjálpar honum að ferðast á milli staða, gefur honum upplýsingar ogberst með honum. Í gegnum leikinn berst Duke Nukem við þá óvini sem við höfum lært að elska og hata svo sem löggusvínin og fljúgandi kolkrabba og fleiri nýja. Í leiknum getur Duke aðeins haldið á tveimur byssum í einu sem neyðir spilarann til að finna sér þau vopn sem honum lýst best á hverju sinni. Helstu vopnin frá fyrri leiknum eru í Duke Nukem Forever svo sem RPG, Frystirinn (Freeze Ray), Smækkarinn (Shrink Ray), Eyðirinn (Devestator), haglabyssan góða og fleiri vopn, en nýjum vopnum hefur verið bætt við og vert er að nefna vopnið Railgun sem er riffill sem drepur flesta óvina í einu skoti. Auðvitað eru rörasprengjan enn í leiknum en hún er hálfgert uppáhald Duke Nukem í bardögum, enda öflugt vopn til að nota.

 

Gagnrýni

Eftir öll þessi ár þá getum við loksins brakað í puttunum og gripið í þennan langþráða leik sem heitir Duke Nukem Forever. Það er ekki hægt að segja annað en að eftirvæntingin hafi verið gríðarleg og að mikil spenna hafi fylgt því að komast yfir gripinn og byrja að spila. Nostalgían var gríðarleg til að byrja með og það að heyra Duke Nukem titillagið var næstum þess virði að fjárfesta í leiknum. Bara að sjá og heyra í Duke Nukem var eins og að fá knús frá kærleiksbirni. Í smástund.

Eftir stutta spilun komst maður fljótlega að því að Duke Nukem Forever myndi ekki standa undir þeim væntingum sem maður hafði sett sér fyrir leikinn. Borðin voru línulega hönnuð þannig að það maður vissi alltaf hvert átti að fara en hafði litla sem enga valmöguleika á að fara aðrar leiðir að markmiðinu í hverju borði fyrir sig. Grafíkin er ekki það sem við má búast nú til dags og var oft vart við galla í umhverfinu. Tímabil milli bardaga var oft þreytandi og reynt var að brjóta borðin upp með því að hafa þrautir í þeim sem voru álíka skemmtilegar ogað þrífa baðherbergið heima hjá sér. Endakallar voru oftar en ekki mjög auðveldir að sigra og maður fann ekki fyrir þessari klassísku vellíðan sem kemur þegar erfiðir endakallar hafa verið yfirbugaðir. Margir af stóru bardögunum í leiknum skilja lítið eftir sig og manni þyrstir í betra umhverfi, en þau eru einmitt oft á tímum endurnýtt. Í leiknum fær maður tækifæri til að keyra nokkur faratæki eins og risa jeppa og lyftara, en stýringarnar eru hálf klunnalegar og þegar keyrt er á óvin þá verður útkoman mjög óraunveruleg. Þeir hreinlega springa eða fljúga tugi metra beint upp í loftið.

Það sem er samt hægt að mæla með er hljóðið í leiknum en sá sem hefur talað fyrir Duke Nukem talar aftur fyrir hann í Duke Nukem Forever og titillagið góða (sem er mjög auðvelt að fá á heilann) er ennþá til staðar. Tónlistin fer meira og minna alveg framhjá manni og er þar með alls ekki eftirminnileg.

 

 

Það sem verst er við leikinn hinsvegar er tíminn sem fer í að byrja hvert borð eða kafla fyrir sig. Þetta geta verið allt frá 30 til 50 sekúndur sem er langur tími miðað við nútíma leik. Þetta gerist með mjög stuttu millibili í leiknum og í hvert skipti sem spilarinn deyr, sem er nokkuð oft þar sem leikurinn er nokkuð erfiður. Þetta hefur þau áhrif að maður er oft næstum búinn að slökkva á tölvunni og fara að gera eitthvað annað, enda virðist þessi tími vera miklu lengri þegar verið er að stara á skjá sem segir að verið sé að hlaða borð.

 

Lokaorð

Duke Nukem Forever er frábær fyrir gamla nördið í okkur sem langar að upplifa gömlu góðu tímana sem Duke Nukem 3D var. En því miður stendur hann ekki undir þeim væntingum.

Þrátt fyrir langt framleiðsluferli og þau mörgu skipti sem grafíkvélinni var skipt út fyrir nýrri þá er þetta leikur sem hefði betur verið gefinn út fyrir fjórum árum. Maður fær á tilfinninguna að þetta sé gamli leikurinn með betri grafík, enda söguþráðurinn næstum sá sami. Sagan er mjög fyrirsjáanleg og lítið sem kemur á óvart. Spilunin virtist oft vera einhverskonar húsverk sem gera þurfti til að komast áfram í leiknum og skemmtanagildið eftir því.Ég get ekki mælt með þessum leik en mæli samt með því að prufa hann, bara til að mynda þitt eigið álit á leiknum.

 

Grafík 5,0
Hljóð 7,0
Saga 5,0
Spilun 5,0
Endurspilun 4,5

Samtals 5,3

 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑