Birt þann 26. febrúar, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: The Woman in Black
Sagan er sáraeinföld og inniheldur mjög lítinn persónuleika utan hryllingsins, en tekst þó að vera mjög fullnægjandi og tókst aðstandendum myndarinnar að mjólka hrollinn upp á hvern einasta dropa. Myndin sker sig ekki frá öðrum hryllingsmyndum af þessu tagi, enda er hún alls ekki að reyna það- það er ekki únsa af ferskri hugmynd hérna og aðstandendur myndarinnar voru greinilega fullmeðvitaðir um það. Myndin er einfaldlega fullviss um takmörk sín og ákveður að gera þessa einföldu draugahúsaráðgátu eins skemmtilega og drungalega og mögulegt er.
Leikmyndirnar, lýsingin, og leikmunirnir (hugsanlega þeir ógnvænlegustu sem ég hef séð) færa mann beint í drungalega gotneska sögusvið myndarinnar og tæknibrellurnar eru nýttar mjög vel til að skapa mjög óvænt bregðuatriði. Frammistaða Radcliffes er ekki sérlega eftirminnileg en hann stendur fyrir sínu í einföldu aðalhlutverki og hann er nógu sjarmerandi til að virka eins og traust handarband í gegnum sívaxandi drunga myndarinnar.
Myndin inniheldur slatta af bregðuatriðum sem eru nýtt á hárréttum tímum og virka flest öll. Til að undirstrika þau og byggja upp drungann er mikið af ofur drungalegum senum sem fá hárin til að rísa til himna úr ótta. Eitt sem ég fílaði mikið við myndina er að hraða klippingin gerir mann ansi óstyrkann, hvenær næsta bregðuatriði mun eiga sér stað (þó að flestir sem kunna formúluna út og inn geta að sjálfsögðu giskað nánast alltaf á rétta punktinn) og tókst nokkrum sinnum að gera manni MJÖG bylt við.
Myndatakan hoppar á milli sjónarhorna þegar eitthvað að handan virðist komast nær aðalpersónunni og eru mörg skotin uppsett þannig að maður hefur ekki hugmynd um hvort eitthvað eigi eftir að stökkva í áttina að persónu Radcliffes þaðan sem maður sá vættina síðast, og bíður maður oft með öndina í hálsinum þó ekkert gerist í kjölfarið.
hún skilar sér almennilega og er mjög heilsteypt og drungaleg afþreying af gamla skólanum…
Það er í raun frekar lítið hægt að segja um myndina þar sem hún er mjög stutt og einföld, en eitt er þó víst: hún skilar sér almennilega og er mjög heilsteypt og drungaleg afþreying af gamla skólanum (með stóru G-i) sem á líklega eftir að vera í miklu uppáhaldi hrollvekjuaðdáenda á þessu ári.