Birt þann 26. janúar, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: Troll Hunter
Troll Hunter (Trolljegeren) er norsk fantasíu hrollvekja frá árinu 2010. Það hefur ekki mikið farið fyrir myndinni en hún hefur verið sýnd í völdum kvikmyndahúsum og kom út á DVD í Bretlandi og víðar 9. janúar síðastliðinn.
Í myndinni er fylgst með þremur nemendum úr Volda University sem rannsaka bjarnardráp í Noregi. Nemendurnir, Thomas, Johanna og Kalle, festa rannsóknina á filmu og gruna mann að nafni Hans um þennan glæpsamlega verknað. Við nánari athugun kemur þó í ljós að Hans er ekki á bjarnarveiðum, heldur tröllaveiðum! Í kjölfarið fær áhorfandinn að fylgjast með ferðalagi hópsins og örlögum þeirra.
Tæknibrellur myndarinnar eru hreint út sagt frábærar, sérstklega ef tekið er tillit til þess að um er að ræða kvikmynd frá Noregi en ekki Hollywood.
Áhorfandinn kynnist nokkrum gerðum af tröllum og eru þau mis stór og með sín sérkenni. Tæknibrellur myndarinnar eru hreint út sagt frábærar, sérstklega ef tekið er tillit til þess að um er að ræða kvikmynd frá Noregi en ekki Hollywood. Þrátt fyrir að myndin sé að mörgu leyti ólík norsku nasista uppvakningamyndinni Død snø (2009) og sænsku dramatísku fantasíumyndinni Låt den rätte komma in (2008) þá er hún eitt annað dæmið um afbragðs tilraun til að hrista aðeins upp í norrænni kvikmyndagerð með myrku fantasíu þema og óhefðbundinni nálgun. Troll Hunter er ekki eins alvarleg og Låt den rätte komma in og ekki eins fyndin og Død snø, heldur er hún á línunni þar á milli. Troll Hunter fær stóran plús fyrir það að tækla áhugavert efni (blessuð tröllin) á vandaðan hátt, en meiri hluti myndarinnar er gerð í amatör heimildarmyndastíl í anda The Blair Witch Project (1999).
Það er samt eitthvað svo kjánalegt og fyndið að sjá skeggjaðan norskan miðaldra mann út í skógi að berjast við tröll.
Það er samt eitthvað svo kjánalegt og fyndið að sjá skeggjaðan norskan miðaldra mann út í skógi að berjast við tröll. Þrátt fyrir að myndin fjalli um það ótrúlega nær hún að grípa áhorfandann á köflum, og dansar myndin oft á fínni línu milli þess að taka viðfangsefnið á alvarlegan eða gamansaman hátt.
Frammistaða leikaranna og leikkonu í myndinni er ágæt en það er tröllaveiðarinn Hans, leikinn af Otto Jespersen, sem sker sig úr hópnum með afbragðs frammistöðu. Aðrir leikarar draga myndina hvorki niður né upp. Myndin er hin fínasta skemmtun, þó að seinni hluti hennar sé heldur langdreginn þar sem vantar einhverskonar uppbyggingu fyrir enda myndarinnar, en hann nær að grípa athygli áhorfandans aftur með aðstoð tæknibrellna.
Ég hafði trölltrú á þessari mynd en hún olli vissum vonbrigðum. Tæknibrellurnar, tröllin og hugmyndin að myndinni eru frábær en uppbygging sögunnar dregur myndina niður. Á heildina litið er Troll Hunter mynd sem vert er að horfa á, sérstaklega ef þú sækist í óhefðbundnar kvikmyndir.