Birt þann 14. janúar, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Viðtal: Christian Matari
Vísindaskáldsagan Locus Origin – The Never Born kom út í lok október síðastliðnum og er fyrsta bókin af níu í Locus Origin seríunni. Þó verkið sé á ensku er höfundur þess Íslendingur sem kýs að ganga undir höfundarnafninu Christian Matari og vill ekki gefa upp sitt raunverulega nafn.
Viðtalið fór fram í myrku herbergi.
Til lukku með nýju bókina.
Getur þú sagt lesendum í stuttu máli um hvað hún er?
Takk kærlega fyrir það. Já, þetta er semsagt vísindaskáldsaga með ævintýrabrag, eða soft sci-fi eins og það er víst kallað. Bókin fjallar um hóp einræktaðra hermanna sem „fæðast“ inn í framtíðar heim, þar sem mannkynið er búið að heyja langt og blóðugt stríð við herskáar geimverur.
Söguhetjurnar þurfa að berjast fyrir lífi sínu þegar þau lenda í hinum ýmsu hrakförum sem og að reyna að finna sjálf sig í heimi sem skeytir sig litlu um þau.Fyrsta bókin er aðallega kynning á nokkrum af söguhetjum seríunnar og stöðu mannkynsins í þessum heimi.
Hvernig kviknaði hugmyndin að bókinni?
Úff, ég hef nú alltaf verið þessi týpa sem lifir í sínum eigin hugarheimi. Það var bara kominn tími til að koma honum á blað. Ég byrjaði í raun og veru á því að skapa heiminn án þess að hafa nokkra hugmynd um hvað ég vildi gera við hann. Svo bara fór sagan hægt og rólega að myndast og áður en ég vissi af var ég byrjaður að skrifa alveg á fullu og hef varla undan.
Hvað tók það langan tíma að skrifa bókina?
Það tók nú ekki langan tíma að skrifa hana svo sem. Kannski í kringum hálft ár eða svo með hléum. Ég er sífellt að stökkva á milli verkefna, halda áfram að þróa heiminn með því að búa til fleiri tegundir geimvera, tungumála, kortleggja heiminn og skipuleggja næstu bækur.
Locus Origin – The Never Born er fyrsta bókin í Locus Origin seríunni, hvenær má búast við næstu bók?
Næsta bókin í seríunni á að koma út núna í vor, í maí nánar tiltekið. Hún mun heita Locus Origin – Merillian, og er það nafn tilvísun í nafnið á vetrarbrautinni sem sagan gerist í, enda stækkar sögusvið seríunnar all svakalega í þeirri bók.
Hvað mega lesendur búast við löngu bili á milli bóka í Locus Origin seríunni?
Ég reikna með að fyrstu fjórar sögurnar komi út með ca. hálfs árs millibili. En það er einfaldlega vegna þess að ég var byrjaður á þriðju bókinni áður en sú fyrsta kom út. Það er því komið svolítið buffer zone á milli útgáfu og skrifta. Eftir það býst ég við að bilið aukist í ca. ár, en ég hef uppi ýmsar hugmyndir að hliðarsögum sem gætu komið út á milli þannig að það er ekkert meitlað í stein.
Geturu sagt okkur eitthvað um heiminn og þann undirbúning sem er búinn að fara í gerð hans?
Það eru að verða komin þrjú ár núna frá því ég byrjaði að dútla mér við þetta verkefni og þetta er búið að vinda upp á sig ansi hratt. Það eru komnar núna meira en 50 mismunandi tegundir af geimverum, hver og ein með sitt eigið þjóðfélag, sögu og siði.
Ég er nú ekki kominn mjög langt í tungumálagerðinni. Fyrstu sex tungumálin eru komin ansi langt og státa hvert um sig af rúmlega 1.200 orða orðaforða ásamt sínum eigin málfræðireglum. Ég veit ekki alveg hvað ég á eftir að enda með að búa til mörg, en ég stefni á allavega 2-3 í viðbót til að ná yfir þau helstu.
Ég er á fullu þessa dagana að kortleggja heiminn og stefnir hann í að telja yfir 1000 sólkerfi, sem mun setja hann í flokk með stærstu sci-fi heimum sem hafa verið búnir til.
Það má því segja að þetta litla side project sem ég byrjaði á fyrir nokkrum árum er að stefna í alsherjar geðveiki.
Nú ertu líka að skrifa teiknimyndasögur. Gerast þær í sama heimi?
Já, fyrsta teiknimyndasagan kemur út núna í febrúar/mars og heitir Locus Origin – Evolution. Hugmyndin er að það verði að áframhaldandi sögu sem mun snúast um allt aðra charactera en bækurnar, en er engu að síður tengd bókunum á vissan hátt. Hún mun koma inn á ýmsa atburði sem eru að gerast í bakgrunninum á aðal sögunni og veita lesendum smá meiri innsýn inn í heiminn.
Þú kýst að nota höfundarnafn þitt í stað raunverulegs nafns, er einhver sérstök ástæða fyrir því?
Þar sem ég skrifa á ensku og stefni á erlendan markað þá taldi ég einfaldara að nota pennanafn frekar en mitt eigið, sem útlendingar eiga oft í stökustu vandræðum með að bera fram, hvað þá að muna.
Hver er besta vísindaskáldsaga allra tíma að þínu mati?
Ender‘s Game, eftir Orson Scott Card er ein af mínum uppáhalds vísindaskáldsögum. Ef um er að ræða sci-fi með meira fantasíu ívafi, sem er meira í takt við það sem ég skrifa sjálfur, þá myndi ég segja Babylon 5, sem er reyndar sjónvarpssería en ekki bók, en það skiptir ekki öllu. Þrátt fyrir arfaslakar tæknibrellur og sápuóperu leik á köflum, þá er þetta ein besta vísindaskáldsaga sem gerð hefur verið.
Trúir þú á geimverur?
Auðvitað. Ég er geimvera. Er ekki móðurskipið að fara að lenda í ár?
Eitthvað að lokum?
„Ar axa Echuan!“ (sjá bók 5).
Myndir:
Forsíðumyndi og myndir tengdar Locus Origin voru fengnar á heimasíðu Locus Origin.