Echoes of the End var í þróun í tæpan áratug og er jafnframt frumraun íslenska leikjafyrirtækisins Myrkur Games. Leikurinn flokkast sem þriðju persónu hasar- og ævintýraleikur og er gefinn út af Deep Silver sem hefur gefið út leiki á borð við Kingdom Comes: Deliverance II, Dead Island 2 og Saint’s Row. Echoes of the End kom út á stafrænu formi 12. ágúst í fyrra á PC (Steam), PlayStation 5 og Xbox Series S|X. Í lok október var gefin út endurbætt útgáfa af leiknum sem kallast Enhanced Edition og miðast þessi rýni við þá útgáfu á PlayStation 5.

Ævintýrið hefst

Í leiknum stýrir spilarinn Ryn sem er með galdramátt sem hún er enn að læra að nota. Snemma í leiknum hverfur bróðir hennar og í kjölfarið fer hún af stað í björgunarleiðangur um Aema, sem er nafnið á ævintýraheiminum í Echoes of the End. Á leið sinni ferðast hún um fjölbreytt svæði, lendir í bardögum við ýmsa óvini og þarf að takast á við fjölbreyttar áskoranir.

Gullfallegur heimur

Það tekur ekki langan tíma fyrir Aema að grípa augað og toga mann inn í þann fallega töfraheim sem þar er að finna. Landslagið er ótrúlega fallegt og fjölbreytt og getur verið gaman að gleyma sér aðeins og skoða sig um. Glöggvir spilarar taka mögulega eftir að Kirkjufell og Sólheimajökull sjást í leiknum þar sem Myrkur Games þrívíddarskannaði svæðin fyrir leikinn og bætti þeim svo við Aema. Útkoman er virkilega flott þannig að ég stoppaði reglulega í leiknum einfaldlega til þess að dást af umhverfinu.

Landslagið er ótrúlega fallegt og fjölbreytt og getur verið gaman að gleyma sér aðeins og skoða sig um.

Fjölbreyttur leikur sem leynir á sér

Við fyrstu sýn virðist leikurinn ganga fyrst og fremst út á að berjast við óvini í stíl hjakk- og höggleikja (e. hack and slash) en leikurinn leynir á sér og á sér fleiri hliðar. Nokkuð stór hluti leiksins gengur út á að leysa þrautir með því að nota umhverfið og hæfileika Ryns. Þrautirnar eru í fyrstu frekar auðveldar og leiða spilarann vel áfram og kynna honum fyrir því hvernig ákveðnir hlutir leiksins virka. Með tímanum verða þrautirnar aðeins flóknari en þó aldrei of erfiðar eða of flóknar. Ef svarið er ekki í augsýn er oft hægt að hlusta á viskubrunninn Abram, sem er förunautur þinn í leiknum (og óspilanlegur karakter (NPC)) sem getur gefið þér ráð og getur komið að góðum notum í þrautum og bardögum.

Við fyrstu sýn virðist leikurinn ganga fyrst og fremst út á að berjast við óvini í stíl hjakk- og höggleikja (e. hack and slash) en leikurinn leynir á sér og á sér fleiri hliðar.

Sagan í leiknum kemur skemmtilega á óvart og er umfangsmeiri og dýpri en mig grunaði. Íslensku leikararnir Aldís Amah Hamilton (Ryn) og Karl Ágúst Úlfsson (Abram) fara með aðalhlutverk leiksins, útlit þeirra voru skönnuð inn og hreyfingar teknar upp með sérstökum hreyfiskynjurum og er útkoman góð. Talsetningin er yfirleitt vel heppnuð og virkilega skemmtilegt að sjá Aldísi og Karl Ágúst færast inn í þennan stafræna ævintýraheim. Þess má geta að þá fór Aldís einnig með stórt hlutverk í tölvuleiknum Hellblade II og var tilefnd til BAFTA verðlauna fyrir hlutverk sitt í þeim leik.

Betra bardagakerfi

Bardagakerfið er frekar einfalt og þægilegt í notkun. Þú getur læst óvini í sigti, notað sverðið þitt til að framkvæma létt eða þung högg og notað mátt Ryn til að toga hluti til og frá – þar á meðal látið tvo eða fleiri óvini skellast saman, sem er lúmskt skemmtilegt. Með tíð og tíma bætast við kraftar og galdrar sem hrista upp í bardögunum og sömuleiðis er hægt að efla krafta Abrams.

Með tíð og tíma bætast við kraftar og galdrar sem hrista upp í bardögunum og sömuleiðis er hægt að efla krafta Abrams.

Við útgáfu leiksins var bardagakerfið á köflum nokkuð erfitt og óþægilegt í stjórnun en þessi atriði voru lagfærð í endurbættu útgáfu leiksins. Þau hjá Myrkur Games brugðust hratt við athugasemdum spilara og lagfærðu kerfið til hins betra með uppfærslu. Svipaða sögu má segja um stjórnun Ryn innan leiksins. Það er enn að finna einhverjar minniháttar leifar af þessum atriðum en þessi vandamál hafa verið lagfærð að mestu.

Ekki var aðeins bardagahluti leiksins uppfærður með tilkomu Enhanced Edition. Með því að gefa leiknum þetta viðbótarnafn vildi Myrkur Games undirstrika þá stóru uppfærslu sem leikurinn hefur fengið frá útgáfu. Nýja útgáfan inniheldur meðal annars nýtt erfiðleikastig, nýjan klæðnað á Ryn, breytingar á hreyfingum og stjórnun auk þess sem grafíkin í leiknum og hæfileikjatré hafa fengið uppfærslu. Þess ber að geta að þá fylgir Echoes of the End: Enhanced Edition sjálfkrafa frítt með eldri útgáfu leiksins.

Menningarverðmæti

Þessi leikur er stærri og merkilegri en margir hér á landi átta sig á. Hann býður upp á í kringum 15 klukkutíma af fjölbreyttri spilun en auk þess er þetta einstakur leikur í tölvuleikjasögu Íslands. Þetta er trúlega stærsti og umfangsmesti sögudrifni einspilunarleikurinn sem hefur verið framleiddur af íslensku leikjafyrirtæki. Tengsl leiksins við íslenska náttúru og menningu eru áberandi og órjúfanleg. Leikurinn inniheldur hluta af náttúruperlum Íslands, er með íslenska leikara í aðalhlutverki, með frumsamda íslenska tónlist og með epíska óvini sem sumir hverjir tengjast íslenskum þjóðsögum með beinum eða óbeinum hætti – þar á meðal tröll. Spilarar geta valið íslenskt notendaviðmót og íslenska textaþýðingu í leiknum og af og til heyrast óvinir kasta fram setningum á íslensku. Öllu þessu er svo hnoðað vel saman og útkoman er uppskrift af góðu ævintýri sem býður upp á fjölbreytta skemmtun.

Frábær frumraun Myrkur Games

Miðað við stærðargráðu leiksins er eiginlega ótrúlega að um sé að ræða fyrsta leikinn frá Myrkur Games. Styrkur leiksins felst í fjölbreytilegri nálgun hans, þú færð að dást af gullfallegum ævintýraheimi, berjast við óvini og fjölbreytta endakalla, leysa þrautir og upplifa sögu Ryn, fortíð hennar og framtíð.

Echoes of the End er frábær frumraun Myrkur Games og verður spennandi að sjá hvaða verkefni þeir koma með næst.

Echoes of the End: Enhanced Edition

8 Góður

Frábær frumraun Myrkur Games. Styrkur leiksins felst í fjölbreytilegri nálgun hans. Þú færð að dást af gullfallegum ævintýraheimi, berjast við óvini og fjölbreytta endakalla, leysa þrautir og kynnast sögu Ryn.

Það góða
  1. Fjölbreytilegur í spilun
  2. Fallegur ævintýraheimur
  3. Ýmiskonar þrautir
  4. Áhugaverð saga
  5. Flottir endakallar
Það slæma
  1. Endurtekning í spilun
  2. Erfiðleikar í stjórnun
  • Einkunn lesenda (0 atkvæði) 0
Deila.