Birt þann 7. september, 2024 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson
0Warhammer 40K: Space Marine 2
Samantekt: Space Marine 2 er blóðug skemmtun í gegnum heim Warhammer 40K sem er vel þessi virði.
4
Góður
Það er viss „power fantasía“ að ímynda sér sig sem 2-3 metra háan risa sem er klæddur þykkri brynju sem stoppar flest allt sem í vegi hennar verður.
Warhammer 40K heimurinn sem Games Workshop bjó til árið 1987 hefur vaxið gríðarlega síðustu árin með módelum sem hægt er að stilla upp og mála, bókum, borðspilun, tölvuleikjum, teiknimyndum og fleiru.
Að segja að það sé flókið að komast inn í Warhammer og Warhammer 40K heiminn er líklega vægt til orða tekið. Ég er sjálfur almennt ókunnugur honum, fyrir utan að hafa spilað þó nokkra tölvuleiki og lesið fáar bækur sem gerast í þessum heimi. Kosturinn samt við þennan heim er að þú þarft ekki að vita svo mikið, það er nóg að hoppa inn í hasarinn og berjast við þá óvini sem koma fram á sjónarsviðið. Fyrir þá sem vilja sökkva sér dýpra þá er til mikið af lesefni og öðru til að sökkva sér í, og ef þið viljið fara enn dýpra þá eru auðvitað fígúrunar og borðspilin einnig til staðar.
Í gegnum árin höfum við fengið ótal ólíka tölvuleiki sem sem hafa verið allt frá herkænsku eins og Dawn of War serían, VR leikurinn Battle Sister, Inquisitor – Martyr em var leikur í anda Diablo leikjanna, Regicide, sem var blóðugur skák leikur, Kill Team sem var „twin stick“ skotleikur, skotleikurinn Boltgun sem lítur eins og hann hefði geta komið út á sama tíma og gömlu DOOM leikirnir, Battlefleet Gothic: Armada geim herkænskuleikur og síðan auðvitað upprunalega Warhammer 40K: Space Marine leikurinn sem kom út árið 2011 á PlayStation 3, Xbox 360 og PC.
Warhammer 40K: Space Marine 2 er í þetta sinn hannaður af Saber Interactive, fyrirtækið sem hefur verið þekktast síðustu árin fyrir að vinna að portum af ýmsum leikjum á leikjavélar ásamt að vinna að Halo: Combat Evolved endurgerðinni fyrir Microsoft. Árið 2019 gáfu þeir út leikinn World War Z sem seldist vel, og var það tæknin á bakvið leikinn sem vakti talsverða athygli. Leikurinn keyrði á Swarm Engine, fyrirtækisins. Það var hægt að vera með allt að 1.000 óvini á skjánum í einu og var það ótrúleg sjón að sjá svona marga uppvakninga ráðast í átt að leikmönnum leiksins.
Spilunin í þriðju persónu er oft ótrúlega blóðug og hröð, það er ótrúlegt að vera þessi öflugi stríðsmaður og vaða í gegnum óvinina með byssunum eða enn betra keðjusögsverðinu sem Space Marines nota oft. Það minnti mig stundan á að spila leikinn Gears of War eða nýjustu God of War leikina, þegar ég notaði sögina til rífa Tyranid óvinin í ótal parta á vígvellinum.
Leikurinn vinnur alveg fyrir PEGI 18 aldursmerkingu sinni, sem er skiljanlegt þar sem heimur Warhammer er miskunnarlaus oft og skortir ekki átökin í honum.
Í bardögum leiksins er nauðsynlegt að vera tilbúinn að verja sig og ef þú nærð að gera það á réttum tíma opnast upp fyrir möguleiki á að valda óvininum meiri skaða eða jafnvel ganga frá smærri óvinum. Titus safnar upp Righteous Fury í mæli sem er sjáanlegur á skjánum, þegar hann er fullur þá veldur hann enn meira skaða og fær hluta af heilsunni til baka, svo það getur verið gáfulegt að nota þetta á réttum tíma. Chairon og Gadriel hafa aðra möguleika sem hjálpa til í orrustum leiksins. Það er síðan vopn, heilsubætandi hlutir og gagna spjaldtölvur að finna í heiminum sem geta hjálpað þér og fyllt upp í vissa parta sögunnar.
Swarm Engine er ein af stjörnum Warhammer 40K: Space Marine 2. Að sjá hundruði Tyranid óvini á skjánum streymandi yfir landslagið í átt að manni er oft ótrúleg sjón, og að þetta sé ekki eitthvað trix heldur raunverulegt gerir það en flottara eitthvað að mínu mati.
Hönnuðir fyrsta Space Marine leiksins voru Relic Entertainment, sem höfðu áður gefið út Warhammer 40K: Dawn of War herkænskuleikina á PC, ásamt Company of Heroes RTS leikina. Þeir voru vel kunnugir þessum heimi og vita hvað virkaði best. Leikurinn var fínasti þriðju persónu hasarleikur þar sem leikmenn stjórnuðu kapteininum Demetrian Titus (raddaður leikaranum Mark Strong), og börðust í gegnum vopnaframleiðslu plánetuna Graia sem grænu Orkarnir höfðu ráðist á. Í gegnum leikinn verður þetta blóðug barátta sem þjónar þeim tilgangi að stöðva innrásina. Í leiðinni kemur í ljóst að Chaos er með puttana á strengjunum og hefur ógnvekjandi plön. Í lok sögunnar er Titus leiddur í burtu í járnum, þar sem að Imperial Inquisitor grunar hann um að vera spilltan af Chaos, þar sem hann virðist geta staðist spillinguna frá Warp orkunnar.
Saga Space Marine 2 gerist 200 árum eftir atburði síðasta leiks, Demetrian Titus hefur verið síðustu öldina sem Blackshield í Deathwatch herdeildinna. Þetta er hluti af endurlausn hans eftir að hafa verið sakaður um að hafa valdið deild sinni skömm eftir að hafa verið sakaður um spillingu. Deild hans kemur að frumskógarplánetunni Kadaku sem eru undir innrás Tyranid, hlutirnir enda illa og að lokum er Titus nærri dauða en lífi. En með Rubicon Primaris aðgerðinni verður hann sterkari og betri. Eina leiðin til að finna endurlausn er að ganga aftur til liðs við gömlu herdeildina sína, núna sem liðsforingi og með því að berjast með tveimur öðrum Ultramarines. Þeim Chairon og Gadriel, sem eru ekkert að taka því rosalega vel að fá hann til liðs með sér.
Þessir atburðir byrja hraða atburðarrás sem varir í gegnum um 10-12 tíma sögu leiksins, ofan á það eru síðan hliðarverkefni í PvE – Operations hluta leiksins sem bæta við nokkra tíma við spilun leiksins. Sagan er týpísk fyrir þennan heim og er almennt fín, því miður er breski leikarinn Mark Strong ekki aftur að radda Titus, heldur er það leikarinn Clive Standen sem fólk ætti að kannast við sem Rollo úr Vikings þáttunum. Aðrir leikarar standa sig vel og passa við heiminn og tilfinninguna sem leikurinn er að reyna að kalla fram. Sagan batnar þegar er komið að llokahluta leiksins og verður forvitnilegt að sjá hvert Saber fer áfram með þetta ef þessum leik mun ganga vel.
Á milli verkefna leiksins ferðu aftur um borð í geimskipið Battle Barge, þar er hægt að tala við ýmsar persónur, skipta um vopn og slíkt. Þessi hluti virðist þó meira vera hugsaður til Operations og Eternal War að notast við.
Ég spilaði í gegnum leikinn á Xbox Series X og prufaði hann aðeins á Xbox Series S. Á Series X og PS5 er hægt að velja á milli að spila leikinn í Quality sem er í 30fps römmum á sek, eða Speed sem er 60fps en í lægri upplausn. Ég spilaði meirihluta leiksins í Quality og fannst það fínt, bæði kom annars vel út og fann ég ekki fyrir mikill breytingu á útliti leiksins þegar ég svissaðiá milli. Leikurinn tekur um 60 GB á drifi vélarinnar og er PC útgáfan eitthvað aðeins stærri.
Það var eitthvað um smávægilega hökta í spilun leiksins, en aldrei eitthvað stórt sem náði að skemma upplifunina.
Í PvE – Operations er hægt að spila einn eða í co-op í gegnum internetið. Eitt af því sem kom mér skemmtilega á óvart var að það er „cross-play“ spilun á milli þeirra sem eru að spila leikinn á PlayStation eða Xbox og PC. Hægt er að slökkva á því í stillingu í leiknum, en ég myndi mæla gegn því. Að spila með öðrum leikmönnum í svona leik hefur svo mikið að segja að mínu mati. Gervigreind tölvustjórnuðu leikmannana er sæmileg, en á lítið í raunverulega manneskju.
Það er hægt að velja á milli fjögurra erfiðleika stillinga þegar spilað er, Minimal, Average, Substantial eða Ruthless. Svo fólk ætti auðveldlega að geta fundið það erfiðleikastig sem hentar þeim. Það eru sex klassar í boði að spila sem;
- Assault: Hreyfanlegur og er góður í návígi, getur flogið stutt og lent á óvinum.
- Bulwark: Varnarlega sinnaður.
- Heavy: Séhæfður í þungvopnum, en er hægfara.
- Sniper: Drepur óvinina úr fjarlægð.
- Tactical: Með fjölbreytta hæfileika sem hentar flestum aðstæðum.
- Vanguard: Fínn til að fara hratt um og ráðast á óvini í návígi.
Hver þessara klassa hefur vissa hæfileika til að nota og ólík vopn. Ég spilaði oft sem tactical klassinn. Það var bara eitthvað svo flott að vera stór rumur í brynju með risahamar og berja óvinina í blóðuga klessu á vígvellinum.
Á bakvið þessa klassa er hæfileika tré sem er hægt að fylla út og sníða hann að þínum þörfum og leikstíl. Þú vinnur þér inn hæfileikapunkta, hlunnindi til að nota, ný útlit á brynjurnar og vopnin sem þú getur notað. Því meira sem þú spilar vissan klassa og notar viss vopn þá batnar geta þín með að nota þau. Það er hægt að vinna sig upp í klassastig 25 eins og er.
Klassarnir og hæfileikatréin eru eitthvað sem er bundið við PvE og PvP fjölspilunarhluta leiksins og eru ekki hluti af einmenningshluta hans. Það er hægt að fara í Trials í Battle Barge skipinu sem leyfir þér að prófa helstu vopn leiksins, hæfileika og klassa. Með að gera það er hægt að opna fyrir hluti til að kaupa nýja hæfileikapunkta og vopn.
Leikurinn inniheldur síðan PvP fjölspilunarhluta sem kallast, Eternal War. Það er 6v6 fjölspilun þar sem leikmenn keppast í Annihilation, Seize Ground og Capture & Control. Ég náði lítið að prófa þennan hluta leiksins þar sem netþjónar leiksins voru ekki virkir fyrr en 5. sept á fyrsta degi opnunar leiksins fyrir þá sem höfðu keypt Gold eða Ultimate útgáfur leiksins til að geta byrjað að spila leikinn nokkrum dögum fyrr.
Það litla sem ég prófaði var fínt og er örugglega hægt að sökkva talsverðum tíma í spilun á því fyrir þá sem hafa áhuga á. Cross-play spilun er bara á milli PS5 og Xbox Series og síðan Steam og Epic Store. Annað væri líklega ekki sanngjarnt í slíkri spilun, það er plús að geta spilað saman í gegnum ólíkar þjónustur, sama hvort að maður er á PC eða á leikjavélunum. Vopnin og brynjur sem maður opnar í Operations er aðgengileg í Eternal War hluta leiksins.
Eins og er algengt í dag þá er leikurinn með Season passa og ýmsa útlitspakka sem hægt er að kaupa. Það verða fleiri gefnir út á þessu og næsta ári. Það eru engar „micro-transactions“ í leiknum og er eina það sem er hægt að kaupa útlitstengt og breytir engu um spilun leiksins. Allt annað efnir, eins og ný verkefni í Operations, nýjar erfiðleikastillingar, vopn, borð að spila í Eternal War, óvinir og fleira verður allt frítt að sögn Saber Interactive. Þetta er mjög jákvætt að sjá og gerir auðveldara að styðja við leikinn fyrir þá sem vilja spila hann aðeins fyrr og fá ný útlit á klassann sinn.
Space Marine 2 nær að vera blóðugur hasarleikur sem er epískur í útliti, stærð og spilun og virðist vera nóg af efni til að halda fólki við efnið sem hafa gaman af. Leikurinn býður upp á góða skemmtun og það er erfitt að fá leið á að berjast við Tyranid, Chaos hermenn eða aðra óvini í leiknum.
Ég verð að viðurkenna að ég hélt lengi vel að það yrði aldrei framhald af Space Marine, hann gekk sæmilega þegar að hann kom út og síðan ekkert meira annað en annað slagið einhverjir orðrómar um framhald. Þegar var kynnt að Saber Interactive og Focus Entertainment myndu koma með framhald þá varð ég bæði glaður, en á sama tíma varkár. Það er oft skrítið þegar að annar leikjaframleiðandi býr til nýjan leik í seríu sem annar byrjaði á. En eftir að hafa spilað í gegnum Space Marine 2 þá er ég sannfærður um að serían er í góðum höndum.
Ef þið hafið ekki spilað fyrri leikinn þá mæli ég innilega með að kíkja á hann á PC (auðveldast), PS3 eða Xbox 360.
Leikurinn kemur út þann 9. september á PC, PS5 og Xbox Series X|S, hægt er að spila leikinn nokkrum dögum fyrr ef þú kaupir annað hvort Gold, Ultimate útgáfur leiksins
Lofið Keisarann!
Eintak í boði útgefanda.