Birt þann 26. október, 2022 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson
Í skugga leðurblökunnar
Samantekt: Miðlungs leikur sem nær ekki að rísa upp til hæða Rocksteady leikjanna
3
Skortir metnað
Hvað verður um Gotham ef Batman er ekki til að vernda hana? Það er spurningin sem leikurinn Gotham Knights reynir að svara.
Hetjurnar Nightwing, Batgirl, Robin og Red Hood þurfa að stíga upp að reyna að bjarga Gotham borg frá glötun eftir fráfall Batmans. Glæpamenn leika lausum hala og helstu skúrkar DC Comics bókanna, eins og Clayface, Harley Quinn, Mr Freeze herja á fólk borgarinnar. En aðalógnin við borgina er undir yfirborðinu og hið dularfulla leynisamfélag Court of Owls sem hefur togað í spottana öldum saman á bakvið tjöldin.
Batman þjálfaði persónur leiksins og var hluti af lífi þeirra allra frá ungum aldri, svo þegar að hann deyr, skilur það eftir risa skarð í líf þeirra og spurningar um getu þeirra að eiga við það stóra verkefni sem bíður þeirra.
Þú velur á milli að spila sem Batgirl, Nightwing, Red Hood eða Robin. Þau hafa öll ákveðinn bardaga grunn sem Batman kenndi þeim, að auki við ýmsa sérhæfileika. Batgirl getur hakkað ýmsa hluti, Nightwing er fjölhæfur í bardögum og vopnum, Red Hood notast við byssur með gúmmíkúlum og líkamsstyrk og Robin nýtur sér stafinn sinn og að laumast um. Borð leiksins leyfa alla stíla þeirra, en klassíkin að laumast um að fækka óvinum virkar alltaf best.
Hægt er spila leikinn einn eða í co-op með öðrum leikmanni í gegnum netið. Eins og er bara hægt að spila tveir, en framleiðendur leiksins hafa lofað að bæta við fjögurra manna spilun síðar við leikinn með frírri uppfærslu. Það hjálpar að spila með öðrum leikmanni að gera heim leiksins ekki alveg jafn tómann og hann virkar oft. Miðað við að Gotham borg á að vera stórborg í Bandaríkjunum þá virkar hún ótrúlega tóm oft þegar þú ferðast um hana. Ef miðað er við leik Rocksteady Studios, Batman: Arkham Knight frá árinu 2015, þar sem borgin virkaði stór og lifandi, þá er borg Gotham Knights frekar litlaus oft til samanburðar.
Bækistöð leiksins er klukkuturninn Belfry, sem er gömul leynstöð sem Bruce Wayne byggði í hjarta borgarinnar. Þar koma leikmenn aftur reglulega til að skoða skilaboð, sjá hvar rannsókn þeirra á hinum ýmsu glæpum gengur, uppfæra útbúnaðinn sinn eða skipta um búninga og tala við hinar persónur leiksins.
Í hvert sinn sem þú kemur til Belfry er það eins og nóttin sé á enda og þú færð smá tölfræði um hvað þú hefur gert í borginni. Það er pínu óþjált að þurfa að fara til baka þangað til að skipta um persónu að spila ef þér langar að prufa annan leikstíl eða sjá söguna frá aðeins öðruvísi sjónarhorni. Það hjálpar þó að SSD diskar Xbox Series og PlayStation 5 eru það hraðir að það tekur ekki of langan tíma að hoppa á milli.
Ferðalög á milli fimm hverfa borgarinnar í byrjun eru pínu leiðinlegt eftir smá tíma. Persónurnar allar hafa möguleika að kasta fram línu á milli staða til að draga sig áfram, þetta er stundum pínu klunnalegt og minnti mig stundum á að spila Assassin’s Creed gömlu leikina og hoppa í aðra átt en maður ætlaði. Þú hefur aðgang að móturhjóli til að ferðast um götur borgarinnar, en ég notaði það örsjaldan. Það opnast fyrir hraðari ferðamáta eftir nokkra tíma sem gerir að verkum að maður notaði það eingöngu til að hoppa á milli svæða. Ef að borgin væri skemmtilegri að kanna þá væri kannski meiri tilgangur að fara hægar um hana að mínu mati.
Saga leiksins er frekar miðlungs oft, og fyrirsjáanleg og er skipt niður í átta kafla. Hún er ekki alslæm og koma nokkrir góðir partar þarna. Persónur leiksins tala öðruvísi við þig eftir hvern þú ert að spila. Þetta er þó allt frekar lítið, en samt gaman að sjá. Það er síðan að auki ótal lítil hliðarverkefni og síðan glæpasögur sem þekktir skúrkar úr Batman heiminum koma við sögu. Sá partur var líklega það sem ég hafði mest gaman af að spila, það var gaman að eiga við suma óþokka DC Comics þarna.
Maður fékk það pínu á tilfinningunni að rúlla í gegnum leikinn hvort að „Live Service“ peninga plokks klúðrið með The Avengers leikinn hjá Square Enix hafi haft áhrif á þennan leik í framleiðslu? Þetta er auðvitað bara pæling hjá mér, en leikurinn er með ótal búnað til að búa til, hluti að finna, uppfærslu hluti fyrir búninga og vopn ofl. Það er síðan hæfileika tré til að velja úr hvaða stíl þú vilt spila og síðan Knighthood hæfileikatréið til að fylla upp eftir að þú hefur lokið við ýmis verkefni.
Fyrir tortryggna manneskju er auðvelt að hugsa hvar hefði verið hægt að lauma inn „micro transactions“ þarna til að flýta fyrir spilun eða gera fólki kleyft að vera öflugra en fyrr ef það bara opnaði veskið sitt aðeins. Heppilega, sama hvað er rétt í þessum pælingum mínu eða ekki, þá er ekkert peningaplokk til staðar í leiknum. Það er ekkert mál að vinna sér inn allt það sem er í boði, það er líka hægt að breyta útliti búninganna þannig að þú getur fengið alla þá bónusa sem einn búningur er með, og útlit annars sem þér líkar betur við. Allar persónurnar uppfærast í reynslustigum, þó að þú spilar ekki sem þau. Þetta hjálpar til að gera þau ekki of veik ef þér langar skyndilega að breyta til og vera t.d Batgirl í stað Robin.
Það tók mig um 19 tíma að klára sögu leiksins og ég spilaði síðan nokkra tíma eftir það að prófa co-op leiksins og spila hin ýmsu hliðarverkefni leiksins. Það er alveg 20-40+ tímar af efni til að rúlla í gegnum fyrir þá sem vilja gera allt sem er í boði. Ég notaðist einna mest við Batgirl, hún minnti mig mest á að spila sem Batman. Ég vildi að það hefði verið meira af því að rannsaka glæpavettvanga og vera rannsóknar týpan sem Batman er oft.
Þeir sem pæla í trophies og achievements þurfa ekki að stressa sig, það er hægt að spila eftir að sagan klárast og ekkert til að missa af, sem er ekki hægt að spila eftir að sagan endar. Það er síðan í boði New Game+ fyrir þá sem vilja spila með allt það sem þeir hafa ná að safna upp og ná síðan hæsta lvl sem er 40 og er bara hægt með að spila leikinn aftur.
Ég spilaði í gegnum leikinn á Xbox Series S og Series X og leit leikurinn mjög vel út, hann á við ýmsa hnökra þegar er í opna heim borgarinnar, en spilast betur þegar maður er inn í byggingum. Hann er læstur á 30 ramma á sek á leikjavélum Microsoft og Sony og hefði verið gaman að sjá möguleika að spila hann í 60 fps. Það hefði gefið honum smá aukið flæði í spilun. En þetta er þó ekkert sem hindrar spilun eða ánægju á leiknum, verst er að hann er ekki að ná að halda 30 römmunum nógu vel, og maður er glaður að þeir ákváðu að hætta við Xbox One og PS4 útgáfur leiksins, það hefði mögulega látið Cyberpunk 2077 útgáfuna líta vel út til samanburðar.
Búningar og mikið af umhverfum leiksins líta vel út og er auðvelt að taka flottar myndir með photo mode í leiknum. Verst er að útlit persóna leiksins er ekki alveg jafn nákvæmlega sköpuð og búningarnir. Raddir leiksins og leikur er frekar miðlungs oft, það vantar betra handrit í leiknum fyrir leikarana að vinna úr. Hvort að co-op spilun leiksins hafi haft áhrif á þetta. Bardagakerfið í leiknum er ekki jafn gott og í hinum Batman leikjunum. Það vantar visst flæði sem maður átti að venjast í leikjunum frá Rocksteady. Ég skildi ekki líka af hverju það er lokað fyrir að svífa um Gotham borg eins og Batman gerir þangað til seint í leiknum og þurfa að klára hæfileika tré til þess.
Helsti vandi Gotham Knights er að hann er ekki slæmur leikur, en hann er ekki heldur frábær leikur. Hann er óttalega mikið í miðjunni eitthvað og það eru glefsur af betri leik þarna, og líklega einnig vandræðum í framleiðslu hans í gegnum árin. WB Montreal gerðu Batman: Arkham Origins leikinn árið 2013 ásamt að vinna að niðurhals efni fyrir Arkham Knight. Svo þeir þekkja til efnisins klárlega, en gæði leiksins og metnaður er eitthvað sem er ekki alveg að ná að standa undir nafni Batman vörumerkisins og sumar persónur leiksins eru vannýttar.
Fyrir þá sem eru að bíða eftir Suicide Squad: Kill the Justice League leiknum frá Rocksteady Studios þá er margt í Gotham Knights til að gera biðina auðveldari, en meira ef þið eigið vini til að spila leikinn með í co-op. Annars er bara að bíða eftir að þessi lækkar aðeins í verði.
Eintak var í boði útgefanda