Birt þann 6. nóvember, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Astro’s Playroom og DualSense – góður kokteill
Samantekt: Stuttur leikur sem allir geta haft gaman af. Leikurinn byggir á einfaldri formúlu sem DualSense gefur ferskan blæ.
4
Skemmtilegur
Tölvuleikurinn Astro’s Playroom fylgir frítt með PlayStation 5 leikjatölvunni. Í leiknum fer spilarinn með hlutverk hins ofurkrúttlega og viðfelldna vélmennis Astro og leiðbeinir honum áfram í gegnum ævintýraheima PlayStation 5 (PS5) leikjatölvunnar.
Fjölbreyttir heimar
Í Astro’s Playroom er Astro staddur inni í PS5 leikjatölvunni og flakkar á milli fjölbreyttra ævintýraheima sem tengjast vélbúnaði tölvunnar. Leikurinn byrjar í miðverki tölvunnar, CPU Plaza. Þaðan er hægt að ferðast yfir í aðra tækniheima; Cooling Springs (kælibúnaðurinn) þar sem allt er þakið ís og snjó, græna skóga GPU Jungle (skjákortið), rafmagnaðan heim Memory Meadow (minnið) og geimsvæði SSD Speedway (harði diskurinn og gagnaflutningur).
Svæðin eru skemmtilega fjölbreytt. Astro getur klæðst ýmsum búningum sem gefa honum nýja tímabundna hæfileika og í hverju svæði finnur hann nýja búninga sem bjóða upp á nýja möguleika. Til dæmis í Cooling Springs fær hann gormabúning sem leyfir honum að hoppa hærra og í GPU Jungle finnur hann apabúning sem gerir honum kleyft að klifra veggi. Í öllum borðunum er svo að finna ýmsa söfnunarhluti (collectibles) og ber þar helst að nefna hina fjölmörgu söfnunarhluti (artefacts) sem tengjast sögu PlayStation. Þar er meðal annars að finna PlayStation leikjatölvur, fjarstýringar, aukabúnað og fleira.
Möguleikar DualSense
Leikurinn er frekar stuttur og má segja að hann sé einskonar tæknidemó fyrir DualSense fjarstýringuna þar sem fídusar hennar koma mikið við sögu.
Áður en leikurinn hefst er nýja DualSense PS5 fjarstýringin kynnt til sögunnar og farið yfir möguleika hennar. Dæmi eru gefin um hvernig víbringurinn virkar, aðlögunargikkirnir (adaptive triggers), snertiflöturinn, hreyfiskynjarinn og hljóðneminn. Það sem stendur upp úr er víbringurinn og gikkirnir, sem er skemmtileg nýjung sem er mikið notuð í Astro’s Playroom við ólík tækifæri. Til dæmis þegar skotið er úr byssu verða L2 og R2 gikkirnir stífari og þarf aðeins meiri kraft til að ýta á þá auk þess sem fjarstýringin titrar. Þessir möguleikar breyta ekki leiknum en þeir bjóða upp á áhugaverða viðbót sem gerir upplifunina skemmtilegri, fjölbreyttari og eftirminnilegri.
Leikurinn er frekar stuttur og má segja að hann sé einskonar tæknidemó fyrir DualSense fjarstýringuna þar sem fídusar hennar koma mikið við sögu.
Leikur fyrir alla
Leikurinn sjálfur byggir á einfaldri formúlu en DualSense nær að gefa formúlunni ferskan blæ.
Astro’s Playroom er stuttur leikur sem allir geta haft gaman af. Fyrir PS5 eigendur myndi ég segja að algjör skylda sé að spila í gegnum leikinn til kynnast möguleikum DualSense fjarstýringarinnar. Þó svo að leikurinn sé stuttur í spilun eru söfnunarhlutir faldir víðsvegar um borðin sem eykur endingartíma leiksins. Borðin eru mjög skemmtileg og auðvelt er að flakka á milli svæða og heima í leiknum sem gerir upplifunina enn betri. Leikurinn sjálfur byggir á einfaldri formúlu en DualSense nær að gefa formúlunni ferskan blæ.