Birt þann 19. apríl, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Teiknaði Íslandskort í Super Mario World stílnum
Hinn hollenski Daniel le Pair bjó til Super Mario World kort af Íslandi og deildi því með íslenskum reddit notendum nú í kvöld. Færslan á reddit hefur fengið mikla athygli enda Íslandskortið skemmtilega vel gert og nær að fanga stemninguna úr Super Mario World.
Fyrsta Super Mario World landakortið sem Daniel gerði var af heimalandi sínu, Hollandi. Hann segist hafa ákveðið að gera kort af Íslandi næst þar sem hann heimsótti landið og varð yfir sig hrifinn af íslenskri náttúru og landslagi. Það tók Daniel um tíu klukkutíma að búa til Íslandskortið í forritinu Aseprite, sem er vinsælt forrit til að búa til tvívíða grafík.
Við fengum leyfi hjá Daniel le Pair til að birta kortið í lægri upplausn hér á síðunni en hægt er að nálgast kortið í enn betri upplausn á upprunlega reddit þræðinum.