Bækur og blöð

Birt þann 30. október, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Frír hryllingur á netinu!

Það er leiðinlegt að eiga lítið fé á jafn skemmtilegri helgi og hrekkjavökunni. Örvæntið þó ekki, því ég hef tekið til lista yfir ýmist uggvænlegt efni sem hægt er að sökkva tönnunum í ókeypis. Aðallega er efnið ógnvekjandi (creepy) sem situr frekar eftir í þér eftir að hafa upplifað það, heldur en að fá bregðusenum skellt í smettið á þér eins og Hollywood auðmennin eru svo hrifin af í dag. Búist við martraðaeldsneyti sem á eftir að sitja í sumum ykkar lengi. Munið þó að hryllingur takmarkast af smekk milli manna og ákveðnum grunnhugmyndum sem sitja lengur í mismunandi fólki- ég get ekki bókað að eitt verði meira ógnvekjandi en annað. Lykillinn hér er lúmskleiki, ekki styrkleiki. Gleðilega Hrekkjavöku!

 

Marble Hornets


Slóð: www.youtube.com/marblehornets

Veistu hvað Slender Man er? Ef ekki, þá ættir þú að kynna þér hvað það kvikindi er og skemmtu þér við andvökuna. Ef þú villt fara ennþá lengra er Marble Hornets málið; stutt vefsería sem þú getur fundið á YouTube sem tengir sína eigin útgáfu af Slender Man inn í ógnvekjandi atburðarás. Serían skiptist í stutt YouTube myndbönd um Jay sem vann að sjálfstæðri nemandamynd ásamt leikstjóra myndarinnar Alex, en út af einhverri ástæðu hætti Alex við myndina í miðri framleiðslu og hefur Jay fengið þá flugu í hausinn að fara yfir myndbönd Alex eftir að hann fær allt myndefnið í hendurnar, Marble Hornets. Það er þó ýmislegt annað sem Alex tók upp við gerð myndarinnar og gefur þér góða mynd um af hverju hann var orðin ofsóknarlegur við lok framleiðslu. Jay kemur sér þó í krappann þegar hann fer að rannsaka myndböndin frekar og fer þunn lína raunveruleika og hrollvekjandi fantasíu að falla saman.

Serían er meistaralegt dæmi um að minna virkar betur en meira ef þú ætlar að vekja ugg. Sagan skríður upp á mann eins og óvæntur skuggi og festir klær óttans í hugarhvelinu- hún sýnir þér lítið og segir þér minna. Ég þoli ekki þegar einhverju er líkt við The Blair Witch Project en hér finnst mér samanburðurinn heimilaður því bæði verkin nýta ímyndunarafl áhorfandans til að fylla inn í ógnvænlegustu spurningarnar ásamt því hversu lítið serían kostaði í framleiðslu og virðist raunverulegri fyrir vikið. Marble Hornets beitir áhrifaríkum hrollvekju einkennum eins vel og maður gæti búist við. Serían byrjar hægt en brátt ferðu að óttast hvern skugga á skjánum eða næstu óvæntu hreyfingu myndavélarinnar.

 

Nosferatu/Vampyr


Slóð (Nosferatu): http://youtu.be/F73hCPoEn44
Slóð (Vampyr): http://youtu.be/aUZihZPiyGU

Sígildar gotneskar hrollvekjur sem hafa ennþá ansi ógnvekjandi blæ og tekst að nýta skugga, þoku og sérkennilegar persónur og arkitektúr til að mynda magnþrungið andrúmsloft. Báðar myndirnar samanlagðar eru svipað langar og sú sem þú myndir taka þér út á leigu (eða hlaða niður) og er því tími ekki vandamál ef þú ætlar að horfa á aðra þeirra eða báðar. Nosferatu er ein þekktasta hrollvekja allra tíma og er ein sú merkilegasta sem hægt er að sjá ef þú ert að stúdera kvikmyndir. Vampyr hins vegar er í dag kúlt-klassík þrátt fyrir að hafa ekki hlotið verðskuldað lof á sínum tíma. Vampyr hefur elst virkilega vel og er ógleymanleg súrealísk upplifun að horfa á hana. Mikil duld liggur yfir myndunum og eru þær gimsteinar síns flokks.

 

Grettir


Slóð: http://www.garfield.com/comics/vault.html?yr=1989&addr=891023

Grettir er þekktur fyrir húmor (eða húmorsleysi réttara sagt), eftirminnilegar fígúrur og óbreytilegan stíl. En Grettir tók á sig nýja mynd um október 1989 þegar hann vaknaði einn í húsinu sínu sem var nú yfirgefið og endist út sex strípur. Það er nóg til að vekja upp spurningar um efnið, en stíllin er allt í einu vandaðri, eftirminnilegri og nýtir skugga og andrúmsloft til þess að vekja ugg lesenda. Það gerir þessa stuttu sögu jafnvel meira óhugnandi er að hún gerist í heimi þar sem allt var saklaust og skrípalegt, en nú erum við allt í einu komin yfir í skuggalega martraðar-útgáfu af þeim heimi og laus við allt nema Gretti sjálfan. Efniviður sögunnar er í raun það sem allir hræðast mest: hjálparleysi, afskekkt svæði og einmanaleiki. Útkoman er meinlaus, en fær mann þó aldrei til að berja strípur feita kattarins sömu augum án þess að minnast sérkennilega útskotsins.

 

the white chamber


Slóð: http://www.studiotrophis.com/site/projects/thewhitechamber

Smelluleikur þar sem þú vaknar um borð í yfirgefnu geimskipi og þarft að leysa margar þrautir til að komast til botns í málinu og sleppa undan þessari ógnvænlegu prísund. Leikurinn er stuttur en góð afþreying ef þig langar að drepa tíma. Persónuhönnunin er lík ýktari anime-persónu og er umhverfið sérkennileg blanda súrealískra sjónarhorna og draugahúsi. Ég vil ekki spilla sögunni þar sem hún er í raun meira fullnægjandi en maður myndi halda og þú þarft að vinna almennilega fyrir bestu útkomu sögunnar, en það eru sex endar í boði: þeir slæmu eru  venomous, space, electrocution, decaying, þeir ógnvænlegustu eru tormented og damned og bestu og mest fullnægjandi sögulokin eru redemption. Það eru einnig bónus sögulok, comedy, þar sem útkoman er meinlaust grín (virkilega skrípalegur endir).

The white chamber skilur ekki mikið eftir sig, en er þó skemmtileg, ókeypis, upplifun þar sem þú færð klárlega þinn skerf ef þú ert hrifinn af smellu- eða ráðgátuleikjum.

 

Ben Drowned


Slóð: http://z15.invisionfree.com/Within_Hubris/index.php?showtopic=494

Hvað ef þú myndir kaupa eintak af tölvuleik sem væri hugsanlega andsetið? Hljómar fáránlega ekki satt, sérstaklega þegar sagan er sögð með texta. En hér er þó örlítill munur: textanum fylgja myndbönd úr leiknum sem gera söguna aðeins raunverulegri og óraunverulegri á sinn hátt. Ben Drowned er látið líta út fyrir að vera spjallborð þar sem einn meðlimur þess segir frá atburðarrás sem hófst eftir að hann keypti tölvuleikinn Majora‘s Mask. Þegar hann byrjar að spila leikinn fara hlutirnir að taka á sig óþægilega mynd- leikurinn vitnar sífellt í einhvern Ben. Fyrst fara sérkennilegar gloppur leiksins að gefa í skyn að hér sé um draug Ben‘s að ræða en brátt fer leikurinn að taka sinn toll á leikmanninum og Ben gæti í raun verið eitthvað allt annað.

Persónulega virkaði þessi ‚creepypasta‘ saga ekki fyrir mig – enda hef ég ekki spilað leikinn – en þetta er með vandaðri verkum á netinu, sérstaklega vegna þess að hér þurfti höfundurinn einnig að fikta með leikinn til þess að geta fengið myndefnið sem hann þurfti í söguna. Þetta er að minnsta kosti áhugavert verkefni, og kannski áhrifaríkt ef þú hefur ekki lesið svipað efni áður.

 

Holders serían


Slóð: http://www.theholders.org

Safn smásagna um 538 hluti, falda um allan heim, sem gætu hafið endalok okkar allra ef þeir koma allir saman. Upprunalega voru 2538 hlutir en 2000 þeirra glötuðust. Til að fá einn þannig hlut í hendurnar þarf viðkomandi að koma við á ákveðnum stað (oftast geðveikrahæli) þar sem hann/hún þarf að leysa verkefni og fær þannig hlutinn. Ef viðkomandi mistekst hins vegar, sama hversu smávægileg mistökin eru, mun hann/hún hljóta óhugsanlega slæm örlög þar sem dauði væri betri undankomuleið.

Hugmyndin minnir dálítið á fyrstu Hellraiser myndina nema hvað að hér eru möguleikarnir mun fleiri og aðstæðurnar breytilegri. Lokaútkoman er oft drungaleg og stundum mjög óhugnandi en hér er jafnvel húmor að finna eins og í sögunni af ‚Holder of cliches‘. Þetta er mjög skemmtilegur lestur og er fersk hugmynd í hinn margbrotna ‚cosmic horror‘ flokk. Alveg virkilega góð leið til að drepa tíma .

 

Rafbækur Rúnatýs


Slóð: http://runatyrutg.wordpress.com/rafbaekur

Rúnatýr er íslenskt útgáfufyrirtæki sem sérhæfir sig í svokölluðum ‚genre‘ bókmenntum sem hafa ekki sést mikið undanfarið hér á klakanum. Nýlega gáfu þeir út smásagnasafnið Myrkfælni eftir Þorstein Mar sem fékk hlýjar viðtökur. Á síðunni þeirra er boðið uppá skemmtilegar greinar sem tengjast bókmenntunum sem þeir styðja og ítarlegar greinar um höfunda, flokka og annað sem tengist áhugasviði þeirra sem hefðu áhuga á efni þeirra. Einnig er þar hægt að finna rafbækur (e-books) sem þú getur sótt á síðu þeirra. Meðal verka er smásagan Mýsnar úr Kjallaranum úr bókinni Myrkfælni og tvær aðrar sögur eftir Þorstein Mar; Ferming og Margt er líkt með hjónum.

Ekki má gleyma að þar er einnig hægt að sækja þrjár sögur eftir hrollvekjumeistarann H. P. Lovecraft á íslensku! Þetta er í fyrsta sinn sem þessi verk hans eru í boði á þjóðartungu okkar og ég lofa því að þetta er verulega góð þýðing sem er gerir lesturinn skiljanlegri (þú þarft ekki að vera með orðabók í hönd eins og flestir sem vilja fá fulla merkingu á sögum meistarans). Verkin eftir Lovecraft sem þú getur sótt eru Kall Cthuhlu, Kettirnir frá Ulthar og Hinir Guðirnir – Þorsteinn Mar er einnig þýðandi verkanna og á hann svo sannarlega hrós skilið. Allt þetta er á iPad eða Kindle formi en hægt er að breyta bókaskránum í aðrar tegundir eins og Word-skjöl. Sjálfur er ég með verkin á Kindlinum mínum og hef fengið mikið út úr þessum ókeypis lestri.

Axel Birgir Gústavsson

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑