Fréttir

Birt þann 16. desember, 2018 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Stofnaði nýjan tölvuleikjahóp – Blöskrar umræðan í tölvuleikjanetsamfélögum á Íslandi

Brynjólfur Erlingsson stofnaði Facebook-hópinn Tölvuleikir – Spjall fyrir alla fyrir um þremur vikum síðan og telur Facebook-hópurinn um 560 meðlimi í dag. Um þessar mundir stendur hópurinn fyrir styrktarsöfnun fyrir Kvennaathvarfið. Til eru nokkrir íslenskir tölvuleikjaumræðuhópar á Facebook og spurðum við Brynjólf hvað varð eiginlega til þess að hann ákvað að stofna þennan nýja hóp?

Ég stofnaði hópinn einn en hafði fengið áskoranir frá fólki sem ég þekki í leikjaiðnaðinum. Ég ræddi við nokkra vini og ákvað að líklega væri best að bíða ekki eftir því að einhver annar gerði þetta og hella mér bara út í þetta sjálfur. Ég er svo heppinn að hafa unnið í leikjabransanum í yfir áratug hjá CCP, EA, DICE, Paradox og Mojang og hef kynnst mörgum sterkum Íslendingum í þessum bransa á þessum tíma.

Ástæðan fyrir því að hópurinn var stofnaður var að mér hafði blöskrað lengi umræðan í tölvuleikjanetsamfélögum á Íslandi. Umræðan fannst mér full af einelti, mismunum, árásum og allskonar neikvæðum hlutum sem eiga engin tengsl við tölvuleiki. Síðan kom upp mál í stærsta leikjasamfélaginu þar sem nettröll ákvað að prófa hversu langt hann kæmist í að ráðast á minnihlutahópa (að þessu sinni konur) og ég skoraði á þá sem voru yfir hópnum að gera eitthvað í þessu. Kallaði eftir skýrri stefnu um að þetta samfélag væri um tölvuleiki og fordæmdi því árásir og einelti. Það varð nokkuð fljótt augljóst að það var engin áhugi fyrir slíku sem mér fannst leitt. Þá bara ákvað ég að drífa mig út í þetta eftir nokkrar áskoranir. (Takk Beta, Helga o.fl)“

„Ástæðan fyrir því að hópurinn var stofnaður var að mér hafði blöskrað lengi umræðan í tölvuleikjanetsamfélögum á Íslandi. Umræðan fannst mér full af einelti, mismunum, árásum og allskonar neikvæðum hlutum sem eiga engin tengsl við tölvuleiki.

Málið sem Brynjólfur talar hér um er þegar Eyjólfur Vestmann Ingólfsson, einn stofnendum Karlalistans, birti umdeilda mynd inná Facebook-hópnum Tölvuleikjasamfélagið. Kommentakerfið logaði í kjölfarið og má segja að meðlimir hópsins hafi skipst í tvær fylkingar; annars vegar voru það þeir sem litu á myndina sem dæmi um karlrembu og kvenfyrirlitningu og hins vegar voru það þeir sem vildu meina að ekkert sé heilagt og það megi gera grín að öllu og að ritstýring sé yfir höfuð af hinu slæma. DV fjallaði hér um málið á sínum tíma.

„Ég skoðaði önnur leikjasamfélög sem höfðu verið stofnuð á Íslandi og ég sá strax að í öllum þeirra þá voru konur og minnihlutahópar ekki að pósta. Það var kannski ekki hópunum sjálfum að kenna en hvergi var markmiðið það að virkilega virkja alla og admin grúppurnar voru litlar og þá bara með strákum. Því fannst mér mikilvægt strax í byrjun að búa til stóra og sterka admin grúppu og fékk tips um gott fólk. Ég vildi hafa jafna aldurs- og kyndreifingu sem mér fannst lykilatriðið sem vantaði til að virkja yngri krakka og stelpur til að vera með. Úr varð þessi hópur sem yfirlýst vill hafa alla með án árása og eineltis þar sem fókusinn yrði bara tölvuleikirnir.


Tengt efni: Tölvuleikjaspilarar safna fyrir Kvennaathvarfið


Það er mikilvægt að hafa samfélag þar sem stelpur og minnihlutahópar sleppa við árásir, níð og hatur og einnig fyrir stráka að sleppa við að finnast þeir þurfa að vera hluti af eitraðri karlmennsku til að vera með.“

Þetta hefur í raun farið fram úr vonum og ég hef fengið mörg skilaboð frá stelpum sérstaklega hvað þær eru ánægðar að þær geti tjáð sig um áhugamálið sitt þarna lausar við allan hávaðann. Einnig hef ég séð yngri krakka virkjast þarna. Það er mikilvægt að hafa samfélag þar sem stelpur og minnihlutahópar sleppa við árásir, níð og hatur og einnig fyrir stráka að sleppa við að finnast þeir þurfa að vera hluti af eitraðri karlmennsku til að vera með. Ég vona að í framtíðinni þá muni þessir hópar finna fyrir því að þau eigi þetta samfélag.

Myndir: Wikimedia (Facebook) og Minecraft-útgáfa af Brynjólfi (úr einkasafni)

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑