Bíó og TV

Birt þann 29. október, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Dead-serían: #2 Dawn of the Dead (1978)

eftir Bjarka Þór Jónsson

VARÚÐ – GREININ INNIHELDUR SPILLA (SPOILERS)! Á næstu vikum mun ég taka fyrir Dead-seríu Romeros þar sem ég fer yfir sögu þeirra og greini þær. Í fyrstu greininni fór ég yfir Night of the Living Dead (1968) og í þessari grein mun ég fara yfir aðra Dead-myndina, Dawn of the Dead, eftir George A. Romero. Að sögu lokinni dembum við okkur í greiningu á myndinni.

 

SAGAN

Sagan byrjar í útsendingarherbergi sjónvarpsstöðvar þar sem mikil skelfing ríkir vegna árása uppvakninga. Verið er að taka viðtal í sjónvarpssalnum og þar kemur fram að um sömu ógn er að ræða og áður; þeir dauðu rísa og drepa aðra sem breytast svo í uppvakninga. Á meðan skipuleggur parið Stephen (David Emge) og Francine (Gaylen Ross) flótta á þyrlu frá þessari ringulreið. Á sama tíma eru sérsveitarmenn kallaðir í íbúðarblokk þar sem uppvakningar ráðast á íbúa hennar. Sérsveitamennirnir Peter (Ken Foree) og Roger (Scott H. Reiniger) ákveða að flýja með þyrlu eftir að hafa drepið nokkra uppvakninga í blokkinni. Stephen og Francine slást í för með þeim og er stefnan sett á Kanada.

George A. Romero (t.v.) í hlutverki útsendingastjóra. Romero stjórnar hvernig útsendingin fer
fram og hvernig og hvenær myndin er klippt, þetta gildir hvorutveggja um hlutverk hans í og utan
myndarinnar.  Í atriðinu vísar Romero því í sjálfan sig og stöðu sína sem kvikmyndagerðarmaður.

 

Í þyrlunni verða þau vör við fjölmennan hóp á jörðu niðri af þjóðvarnarliðum og sveitalýð. Þeir drekka bjór, eru með skotvopn í höndum, skemmta sér vel og skjóta alla uppvakninga sem nálægt þeim koma. Fljótlega þarf að lenda þyrlunni til að fylla hana af bensíni og komast Peter og Stephen í átök við uppvakninga sem þeir bjarga sér naumlega úr. Hópurinn fer aftur í þyrluna og leitar sér staðar til hvíldar og verður verslunarmiðstöð (e. mall) fyrir valinu.

Hópur sveitalýðs (e. rednecks) sem hafa safnast saman í þeim tilgangi að skemmta sér,
fá sér bjór og slátra uppvakningum. Drápin minna oft á hrottalegar aftökur og hlakkar í hópnum
að drepa fleiri uppvakninga.

 

Þegar þau koma inn fyrir kemur í ljós að Francine er ólétt. Peter og Roger skoða sig um og finna teikningar af byggingunni og koma rafmagninu á. Peter og Roger koma við í búð til að ná í ýmsar nauðsynjavörur fyrir hópinn. Eftir væran blund fer Stephen að leita að Peter og Roger. Francine er skilin ein eftir og nálgast uppvakningar hana fljótlega en mennirnir ná að bjarga henni. Karlmennirnir taka til verka og gera bygginguna að verndarsvæði sínu.

Séð út frá byssukíki. Eina leiðin til þess að drepa uppvakninga er að veita þeim þungt högg á höfuðið eða skjóta þá í höfuðið.

 

Eftir að hópurinn hefur tryggt öryggi sitt stunda þau búðarráp; klæða sig í ný föt, konan puntar sig, þau spila tölvuleiki, stela peningum og borða fínan mat svo eitthvað sé nefnt. Búðarrápið veitir hópnum stutta hamingju þar sem uppvakningar ráfa enn um fyrir utan verslunarmiðstöðina. Roger breytist í uppvakning eftir að hafa verið bitinn og neyðist Peter til að drepa hann.

Foringi mótorhjólagengisins étinn af uppvakningum. Ýktir litir myndarinnar koma einnig fram í blóðinu sem er gervilega
rautt og ekki líkt raunverulegu blóði.

 

Mótorhjólaklíka brýst inn í verslunarmiðstöðina og hún fyllist af uppvakningum sem áður komust ekki inn. Hópurinn rænir stórum sem smáum hlutum, eyðileggja allt sem á vegi þeirra verður og leika sér við að „stríða“ uppvakningunum (m.a. með því að henda rjómakökum í andlitið á þeim) og drepa þá síðan. Skotbardagi hefst milli klíkunnar og Stephen og Peters. Mótorhjólaklíkan flýr og er foringi þeirra étinn af uppvakningum. Stephen breytist svo í uppvakning eftir að hafa verið bitinn af einum slíkum. Peter sendir Francine upp á þak svo hún geti komið sér í þyrluna og flúið, en Peter verður eftir og ætlar að stytta sér aldur. Á síðustu stundu hættir hann við, berst við uppvakninga og nær á endanum að koma sér í þyrluna með Francine. Sagan endar með því að þyrlan flýgur frá verslunarmiðstöðinni sem er full af uppvakningum.

Uppvakningafaraldur. Uppvakningarnir fara ekki langt frá verslunarmiðstöðinni eftir að Peter og félagar hafa rekið þá út.
Á myndinni sést einungis bílastæðaplan verslunarmiðstöðvarinnar, sem gefur þó góða hugmynd um hversu útbreiddur
faraldurinn er.


 

GREINING

Dawn of the Dead er fyrsta litmyndin í seríunni og því að mörgu leyti útlitslega frábrugðin Night, þar sem litadýrðin er mikil og myndræn framsetning hennar því algjör andstæða fyrri myndarinnar. Uppvakningarnir í Dawn eru með bláan húðlit sem gerir það að verkum að þeir skera sig enn frekar úr hópnum og eiga menn auðveldara með að aðgreina uppvakninga frá mannfólkinu Fleiri breytingar má sjá á uppvakningunum í Dawn og ber þar helst að nefna undirvitund þeirra, minna vit og meiri húmor.

Uppvakningur í Dawn of the Dead. Andlitið er blátt og notar Romero mikið af sterkum litum í myndinni,
sem sést t.d. á fötum og glingri uppvakninganna á myndinni.

 

Verslunarmiðstöðin er full af uppvakningum þegar Stephen, Peter, Roger og Francine brjótast þar inn. Uppvakningarnir gera lítið annað en að ráfa þar um og nær hópurinn að koma þeim út fyrir og læsa öllum hurðum. Út frá takmörkuðum gáfum uppvakninganna væru þeir líklegir til þess að ráfa út í óvissuna en þeir gera það ekki. Í staðinn safnast þeir saman við inngang verslunarmiðstöðarinnar og reyna hvað þeir geta til að komast aftur inn, þrátt fyrir að engin bráð sé í nánd. Síðar í myndinni komast uppvakningarnir aftur inn fyrir dyrnar og kemur þá ákveðin ró yfir þá. Þessi hegðun uppvakninganna sýnir að undirvitund þeirra man eftir stanslausum verslunarferðunum og sækja þeir þar af leiðandi í sitt fyrra lífsmunstur, eins og fram kemur í samræðum fjórmenninganna þegar þeir heyra í uppvakningum í verslunarmiðstöðinni.

Francine: They‘re still here.

Stephen: They‘re after us. They know we are still in here.

Peter: They‘re after the place. They don‘t know what they, just remember, remember that they want to be in here.

Francine: What the hell are they?

Peter: They‘re us that‘s all. There‘s no more room in hell.


Peter er hér nýbúinn að missa sig í efnislegum gerviþörfum í verslunarmiðstöðinni. Á myndinni klæðist hann pelsi og er
með riffil sem hann „rændi“ úr verslunarmiðstöðinni. Byssan þjónar þeim tilgangi að verjast uppvakningum en pelsinn
þjónar litlum tilgangi inni í verslunarmiðstöð.

 

Tilvísanir í efnishyggju samtímans eru sterkar í Dawn þar sem uppvakningarnir og hópurinn sækjast í verslunarmiðstöðina. Stephen og Peter ræna meira að segja banka en það er óhætt að segja að seðlarnir séu verðlitlir á tímum sem þessum.

Í Dawn eru uppvakningarnir talsvert vitlausari en í Night. Í verslunarmiðstöðinni eiga þeir það til að hrasa um ýmsa hluti og tæki (t.d. rúllustiga) sem þar eru. Atriðin eru að mörgu leyti skondin og fá áhorfandann til að hlæja að helstu ógn myndarinnar. Þessi tegund af fyndni er kölluð splatstick, þar sem blandað er saman gríni og blóði. Saklaus og skopleg bakgrunnstónlist er notuð í mörgum þessara atriða sem eykur gríngildi þeirra enn frekar og breytir uppvakningunum í skemmtiefni frekar en skelfilega ógn. (Linda Badley, „Zombie Splatter Comedy from Dawn to Shaun: Cannibal Carnivalesque“, Zombie Culture, bls. 37–38.)

Umhverfi myndanna er þó gjörólíkt og erfitt er að bera saman hegðun uppvakninga úti í sveitasælunni í Night og inni í verslunarmiðstöð, en út frá því sem kemur fram í myndinni hafa gáfur þeirra dvínað. Einn af uppvakningunum í Dawn er áberandi heimskur. Þegar Roger miðar byssu sinni að uppvakningunum nær einn þeirra tökum á henni. Í myndinni kemur umtalaður  uppvakningur nokkrum sinnum fyrir sjónir og í öll skiptin heldur hann enn á byssunni í sömu stellingu og þegar hann náði henni fyrst úr höndum Rogers; með enda byssuhlaupsins að sínu eigin höfði.

Dæmi um splatstick-grín. Uppvakningarnir eru klaufalegir í rúllustiga verslunarmiðstöðvarinnar
og skilja ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Útkoman er hlægileg.


 

 

 

 

Mikið er gert úr karlmennsku söguhetjanna sem sést best hjá Peter og Roger. Báðir eru sérsveitarmenn og taka óumbeðnir ákvarðanir fyrir hópinn í verslunarmiðstöðinni. Vissulega er nauðsynlegt að bregðast snöggt og rétt við þegar uppvakningar eru nærri, en karlmennirnir í hópnum skipuleggja flest allt sjálfir og spyrja sjaldnast hvaða skoðanir Francine hefur á málunum. Hámark karlrembunar næst í atriði þar sem Stephen og Peter ræða hvort best sé að Francine fari í fóstureyðingu eða ekki, og er allt ákveðið án hennar samráðs eða nærveru. (Gregory A. Waller, The Living and the Undead, bls. 308.) Karlmennskan skín í gegn í þeim atriðum þar sem karlmennirnir fara um verslunarmiðstöðina og slátra uppvakningum, glottandi. Uppvakningadráp þeirra breytist úr því að vera sjálfsvörn og yfir í skemmtun. (Barry Keith Grant, „Taking Back the Night of the Living Dead“, The Dread of Difference, bls. 207.)

 

Séð út frá augum uppvakningsins. Roger er nýbúinn að sleppa úr klóm uppvakninga og miðar byssu sinni á höfuð
eins þeirra. Hann glottir rétt áður en hann skýtur uppvakninginn, líkt og honum þyki skemmtilegt að slátra
þeim.

 

 

Margir uppvakningarnir í Dawn lenda í slæmri og niðurlægjandi framkomu. Stephen, Peter og Roger skjóta þá sér til skemmtunar, mótorhjólagengið gerir það sama og kasta auk þess rjómatertum í andlit þeirra sem minnir helst á gamanatriði frá þögla tímabilinu (sbr. Charles Chaplin og Buster Keaton og slapstick-húmor). Romero setur atriðin upp á frekar gamansaman hátt og undirstrikar með því splatstick-húmor myndarinnar.

Miðill í miðli. Hér sýnir Romero sjónvarpsútsendingu þar sem fjallað er um uppvakningana. Fjölmiðlar koma mikið fyrir
í Dead-myndunum þar sem Romero leggur áherslu á (ó)gagn þeirra.

 

 

Endir myndarinnar býður upp á von og vonleysi líkt og í Night. Vonleysið lýsir sér þannig að aðeins tvær söguhetjanna lifa af og virðist mannfólkið ekki ráða við þennan mikla fjölda uppvakninga. Aftur á móti kviknar vonarneisti við að sjá Peter og Francine fljúga á brott í þyrlu frá verslunarmiðstöðinni og uppvakningunum. Þar með geta þau tvö fetað í fótspor Adams og Evu með því að komast á öruggan stað til að búa á (þeirra Eden), fjölgað mannkyninu og jafnvel byggt nýtt samfélag. Í þetta skiptið er Eva ólétt og Adam svertingi. (Kim Paffenroth, Gospel of the Living Dead, bls. 65.)


 

 

Heimildir:

Brot úr BA ritgerðinni ÞEIR DAUÐU GANGA! eftir Bjarka Þór Jónsson

Barry Keith Grant, „Taking Back the Night of the Living Dead“, The Dread of Difference.
Gregory A. Waller, The Living and the Undead.
Kim Paffenroth, Gospel of the Living Dead.
Linda Badley, „Zombie Splatter Comedy from Dawn to Shaun: Cannibal Carnivalesque“, Zombie Culture.


Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑