Birt þann 27. janúar, 2018 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Íslenskur tölvuleikur með Fjallinu í aðalhlutverki
Símaleikurinn Thor’s Power: The Game var gefinn út fyrir Android og iOS snjalltæki í seinasta mánuði. Það er 9155 Studios sem stendur á bak við gerð leiksins. Í leiknum stjórnar spilarinn kraftajötninum Hafþóri Júlíusi, betur þekktum sem „Fjallið“ (The Mountain), eða „Thor“ eins og hann er kallaður í leiknum. Leikurinn inniheldur þrjá mismunandi smáleiki sem eru allir í retró stíl, með kubbatónlist og pixlaðri grafík.
Fyrsti leikurinn er Thor’s Quest sem er hefðbundinn platformer þar sem Thor notar vopn til að berjast við óvini og endakalla í Miðgarði. Annar leikurinn er Realm Defender sem er láréttur Arkanoid leikur þar sem Thor notar skjöld til að endurkasta kúlum sem kálar óvinum og rústar virkjum þeirra. Þriðji leikurinn er hlaupaleikurinn Running Thor þar sem Thor er að verða of seinn í grillveislu og hleypur eins og fætur toga en þarf að forðast hindranir sem á vegi hans verða til að komast á leiðarenda.
Thor’s Power: The Game er ókeypis en til að safna hraðar gulli og aukahlutum er í boði að horfa á stuttar myndbandsauglýsingar í leiknum. Hægt er að kaupa ný föt, búninga og hluti fyrir Thor með gjaldmiðlum leiksins.
Ólafur í GameTíví spjallaði við Anton og Eirík hjá 9155 Studios á dögunum þar sem þeir sögðu frá leiknum. Hægt er að skoða innslagið hér fyrir neðan og nálgast nánari upplýsingar um leikinn á heimasíðu hans: www.thorspowerthegame.com.