Kvikmyndarýni

Birt þann 10. nóvember, 2017 | Höfundur: Steinar Logi

Kvikmyndarýni – Thor: Ragnarok

Kvikmyndarýni – Thor: Ragnarok Steinar Logi

Samantekt: Fyndin og vel leikin ofurhetjumynd

4.5

Breyttur Þór


Einkunn lesenda: 4.5 (1 atkvæði)

“Tíminn líður hratt á gervihnattaöld” sagði skáldið og það á svo sannarlega við í dag þar sem mynd eins og Thor: Ragnarok er strax orðin gömul eftir tvær vikur. Fólk er farið að hugsa um Justice League, næstu Star Wars myndina eða spáir í seríu 3 af Stranger Things. En mig langar samt til að skrifa nokkur orð um hana því að hún var miklu skemmtilegri en flestir bjuggust við.

Það eru nokkrar ástæður fyrir því en tvær helstu eru annars vegar að Chris Hemsworth er búinn að finna sig sem grínleikara (hver man ekki eftir Thor og Darryl samleigjanda hans) en húmorinn er einmitt stór hluti af þessari mynd og þetta virðist vera það sem koma skal eftir að Guardians of the Galaxy sló í gegn, það á að spila meira á húmorinn og það gengur mjög vel upp hér. Hin ástæðan er leikstjórinn Taika Waititi frá Nýja Sjálandi sem byrjaði feril sinn á að skrifa fyrir hina frábæru þætti “Flight of the Condors” og ef þið hafið ekki séð myndina hans “What we do in the Shadows” þá…hafið þið ekki séð hana. Hann sannar að hann er ekki bara góður grínmyndaleikstjóri því að þetta er mjög góð mynd að öllu öðru leyti líka.

Húmorinn er stór hluti af þessari mynd

Það er ekki veikur hlekkur í leikarahópnum og þeir standa sig allir vel; Hemsworth, Blanchett sem er alveg yndislega “goth” og grimm, Ruffalo, Goldblum, Elba, Karl Urban, Tessa Thompson o.s.frv. Tom Hiddleston stendur sig vel sem áður í hlutverki Loka en það er eini veiki punkturinn, ef veikan punkt skal kalla, að manni finnst Loki einhvern veginn ekki passa í þennan söguþráð. Hann er varmenni en því að hann er svo vinsæll þá er hann kominn í skrýtið “nú er ég vondur, nú er ég góður, nei, aftur vondur..” hlutverk.

Það er ekki veikur hlekkur í leikarahópnum

Þrátt fyrir þennan fókus á grín og glens þá lítur myndin fantavel út og bardagasenurnar eru frábærar. Undirritaður fór á hana í 3D og það virkaði mjög vel án þess að vera of uppáþrengjandi. Hulk hefur sjaldan litið eins raunverulega út og myndin nær að gera hann að alvöru persónu með karakter.

Thor serían tekur nokkrar áhættur hér sem margborga sig. Þór sjálfur gengur í gegnum ýmsar breytingar sem ég ætla ekki að spilla. Hann byrjar sem ofurhetja en kemst svo í aðstæður þar sem hann er veiki aðilinn í þó nokkurn tíma og “endurfæðist” sem nýr Þór.

Þór sjálfur gengur í gegnum ýmsar breytingar

Skellið ykkar á þriðjudagstilboð á þessa, þið verðið ekki svikin. Það er eitthvað meira mannlegt við þessa mynd í samanburði við margar ofurhetjumyndir og þetta er góð grínmynd fyrir þá sem kunna að meta “gera-grín-af-sjálfum-sér” húmor og myndir sem taka sig ekki of alvarlega (lesist: Zach Snyder).

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑