Birt þann 14. júní, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
PlayStation 4 Pro stórlækkar í verði með komu Costco
Það sem vakti sérstaka athygli okkar eftir nýlega Costco heimsókn var verðið á PlayStation 4 Pro leikjatölvunni, en það virtist vera töluvert lægra en aðrar verslanir á Íslandi hafa verið að auglýsa hingað til. Við ákváðum í framhaldinu að rannsaka málið betur og bera saman verð á umræddri leikjatölvu nokkra mánuði aftur í tímann. Þess má geta þá hefur verðið erlendis lítið breyst frá því að PlayStation 4 Pro kom á markaðinn í nóvember 2016. Almennt verð var 349 bresk pund (u.þ.b. 44.400 kr. á núverandi gengi) og hefur það verð haldist nokkuð stöðugt. Í dag kostar tölvan 338 pund (u.þ.b. 43.000 kr.) á bresku Amazon vefversluninni.
Eftir nánari athugun kemur í ljós að PlayStation 4 Pro hefur almennt lækkað u.þ.b. 10 til 12.000 kr. í verði á Íslandi með tilkomu Costco!
Við flettum í gegnum eldri tilboð Tölvuteks og Elko til að skoða verðið á sömu vöru frá desember 2016 til og með júní 2017. Tölvan kostaði upphalega í kringum 67.000 kr. á Íslandi í desember 2016 en lækkaði svo niður í u.þ.b. 60.000 kr. um áramótin vegna tolllækkana. Eins og sést á línuritinu hér fyrir neðan þá hefur almennt verð á PlayStation 4 Pro haldist stöðugt alveg þar til Costco byrjaði að selja gripinn á áðurnefndu verði í byrjun júní. Í kjölfarið hafa íslenskar verslanir lækkað verðið á tölvunni í samræmi við það.
Eftir nánari athugun kemur í ljós að PlayStation 4 Pro hefur almennt lækkað u.þ.b. 10 til 13.000 kr. í verði á Íslandi með tilkomu Costco! Verðið á tölvunni er nú sambærilegt við það sem tíðkast víða í Evrópu.
Frá áramótum hefur verðið á Íslandi haldist mjög stöðugt í verði og kostaði tölvan frá janúar til maí u.þ.b. 59.990 kr. Eftir að Costco kom til Íslands og bauð upp á sömu vöru á 46.999 kr. hafa aðrar íslenskar verslanir fylgt eftir og lækkað verðið hjá sér. Elko seldi sömu leikjatölvu almennt á 59.995 kr. fyrir komu Costco en hefur nú lækkað verðið í 46.995 kr, eða um 13.000 kr. Tölvutek seldi tölvuna almennt á 57.990 kr. fyrir komu Costco en hefur lækkað verðið í 45.990 kr. (merkt sem tilboðsverð), eða um 12.000 kr.
Fleiri verslanir hafa lækkað verðið á PlayStation 4 Pro í kjölfarið. Gamestöðin selur tölvuna nú á 49.999 kr. og Heimkaup selur hana á 49.990 kr.
Koma Costco hefur augljóslega haft áhrif á samkeppnina hér og nú er bara að bíða, vona og sjá hvort fleiri leikjatölvur komi á hillurnar. Við höfum áður séð hve mikil álagning er á leikjatölvum og öðrum vörum fyrir leikjatölvur þegar við skoðuðum verðin árið 2013 fyrir útgáfu PlayStation 4 og Xbox One og svo aftur á seinasta ári fyrir útgáfu PlayStation VR. Það væri áhugavert að sjá hvernig verðið myndi þróast ef Costco myndi taka þá ákvörðun að bjóða upp á fleiri leikjatölvur, til dæmis Nintendo Switch eða Xbox One X.
Við ræddum við starfsmann Costco mánudaginn 12. júní en þá var tölvan nýlega uppseld hjá þeim en er þó trúlega væntanleg aftur innan tíðar, en það hefur ekki verið staðfest þegar þessi frétt er birt.
Uppfært kl. 18:18 14. júní 2017: Gengi íslensku krónunnar gagnvart breska pundinu var ranglega reiknað í upphaflegri færslu. Gengið hefur nú verið uppfært.
COSTCO (7. JÚNÍ)
TÖLVUTEK (14. JÚNÍ)
ELKO (14. JÚNÍ)
GAMESTÖÐIN (14. JÚNÍ)
HEIMKAUP (14. JÚNÍ)
Heimildir um vöruverð:
Tölvutek auglýsing: verð 66.990 kr. í Fréttablaðinu, 10. desember 2016
Tölvutek auglýsing: verð 59.990 kr. í Fréttablaðinu, 5. janúar 2017
Tölvutek auglýsing: verð 59.990 kr. í Fréttablaðinu, 19. janúar 2017
Tölvutek auglýsing: verð 59.990 kr. í Fréttablaðinu, 2. febrúar 2017
Elkoblaðið (fermingarblað): verð 59.995 kr. í Elkoblaðinu Fermingar 2017 þann 27. mars 2017
Tölvutek auglýsing: verð 57.990 kr. í Fréttablaðinu, 15. apríl 2017
Elkoblaðið: verð 59.995 kr. í Elkoblaðinu 1.-7. maí 2017
Nýlegar verðmerkingar eru merktar á myndinum ofar í færslunni.