Birt þann 15. maí, 2017 | Höfundur: Steinar Logi
Leikjarýni: Nier: Automata – „tæknilega fullkominn“
Samantekt: Öðruvísi og ferskur JRPG
4.5
Japönsk snilld
Nier Automata kom út í mars síðastliðnum og þrátt fyrir að hafa komið út á undan Persona 5 virðist hann hafa fallið í skuggann af honum. Margir vita samt af honum og hann hefur fengið mjög góðar einkunnir en hann var ekki eins áberandi og Persona 5 hvað varðar markaðsetningu. Báðir leikirnir eru „alternative“ japanskir hlutverkaleikir sem fylgja ekki öllum reglum klassískra japanskra hlutverkaleikja og blanda saman öðrum leikjagerðum. Persona 5 er bæði týpískur bardagaleikur í anda Final Fantasy en er líka með áherslu á félagslíf og skólagöngu aðalsöguhetjunnar. Nier: Automata fer reyndar enn lengra frá formúlunni og bardagakerfið minnir meira á Devil May Cry og skotleikjahlutinn minnir á Galaga og afsprengi hans eins og 1942, Geometry Wars o.s.frv.
bardagakerfið minnir á Devil May Cry og skotleikjahlutinn á Galaga
En það sem virkilega sker Nier: Automata frá öllum öðrum leikjum (fyrir utan tónlistina sem er alger unun) er að maður þarf að klára hann þrisvar sinnum til að upplifa leikinn sem eina heild; bæði til að fá tvö ólík sjónarhorn og til að halda áfram með söguna. Það er því til góða að hvert skipti tekur ekki það langan tíma (10-15 tíma) en leikurinn allur er því þrisvar sinnum það. Leikurinn slakar svo sannarlega ekki á þegar líður á hann, þvert á móti því að í þriðja sinn sem þú spilar leikinn þá erum við að tala um algeran rússibana. Það er meiri saga hérna en í mörgum sambærilegum leikjum (sem fylla oft upp í með tilgangslausum aukaverkefnum) því ætti þetta að höfða til allra sem hafa gaman af frumlegri sögu í tölvuleik.
Það er meiri saga hérna en í mörgum sambærilegum leikjum
Nier: Automata er það sem ég myndi kalla tæknilega fullkominn leik fyrir utan eitt eða tvö atriði en jafnvel það er deilanlegt. Hann er stílhreinn, tónlistin er frábær, bardagakerfið er skemmtilegt, sagan er margslungin og vel úthugsuð og persónurnar eru athyglisverðar en kannski smá óspennandi í byrjun. Atriðin sem mæla á móti honum eru að það er aðeins of mikið af ósýnilegum veggjum sem líta oft fyrir að vera leiðir sem maður getur farið. Einnig getur verið ruglandi hvert maður á að fara næst þrátt fyrir leiðarvísarkerfi. Grafíkin er smekkleg en ekki stórkostleg en á móti kemur að listræn stjórnun er til fyrirmyndar.
Hann er stílhreinn, tónlistin er frábær, bardagakerfið er skemmtileg, sagan er margslungin og vel úthugsuð
Leikurinn er gerður til að vera sem aðgengilegastur; erfiðleikastigið er mjög stillanlegt og það er bara hægt að njóta sögunnar eða hafa hann erfiðara (athugið að það er talsvert stökk frá „normal“ yfir í „hard“ stillingu). Byrjunin er samt undantekning því að þú getur ekki vistað leikinn í þó nokkurn tíma en vistun í leiknum er algerlega handvirk.
Nier: Automata er sem ferskur andblær á markaðinn því að mikið af því sem maður spilar er endurhituð pizza með einstaka nýjum bragðtegundum. Að mati undirritaðs er hann nálægt því að vera meistarastykki ef ekki væri fyrir einstaka pirring. Sumir telja leikinn algerlega gallalausan eins og þessi grein sem ýtti mér endanlega út í að kaupa leikinn. Þeirri ákvörðun sé ég ekki eftir.