Birt þann 3. nóvember, 2016 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson
Spilarýni: Patchwork – Fullkominn bútasaumur!
Samantekt: Fullt hús stiga. Láttu hugmyndaflugið ráða ferðinni í því að sauma saman þitt besta teppi!
5
Frábært!
Ég man að í grunnskóla þótti mér handavinna alltaf einstaklega óspennandi tímar, að sauma út og prjóna var ekki eitthvað sem ég hlakkaði til að gera. Ætli ég hafi ekki afrekað það að sauma út einn púða, prjóna eyrnaband og mögulega eitt par af ullarsokkum á mínu 29 ára aldurskeiði. Það hljómaði því ekkert sérlega spennandi að læra á spil sem snýst um bútasaum, eitthvað sem ég hef aldrei gert, en Patchwork er tveggja manna spil sem tekur um 30 mín. í spilun. Spilið er hannað af Uwe Rosenberg sem hefur gefið út fjölmörg fantagóð spil.
Í Patchwork keppast tveir einstaklingar um að púsla saman bútasaumsteppi á sem fallegastan og hagstæðastan hátt á spjaldi sem telur 9×9 reiti. Notaðar eru tölur/hnappar sem gjaldmiðill en telja einnig sem stig í lok leiks. Í upphafi leiks dreifa leikmenn bútunum í hring í kringum leikborðið, auk þess fara fimm 1×1 bútar á fyrirfram ákveðna staði á leikborðinu. Leikmenn setja leikpeð sín á upphafreitinn og staðsetja spóluna við minnsta bútinn í spilinu sem er 2×1 að stærð.
Leikmenn byrja með fimm tölur og í hverri umferð geta leikmenn keypt þrjá fyrstu bútana fyrir framan spóluna, bútarnir kosta mismargar tölur og taka mislangan tíma að sauma í borðið. Eftir að leikmaður hefur keypt sér bút færir hann spóluna á þann stað sem búturinn var á, leggur bútinn á spjaldið sitt og færir svo leikpeðið sitt áfram um fjölda reita sem samsvara tímaglasinu á bútnum sjálfum. En þetta er allt saman hægara sagt en gert, bútarnir er svo ótrúlega misjafnir í laginu og hvar ætlaru að byrja? Ætlaru að vinna þig út frá einu horninu eða ætlar þú að byrja í miðjunni og reyna að fylla svo útí hvert horn fyrir sig?
Það sem mér finnst einnig mjög áhugavert við Patchwork er hvenær leikmaður fær að gera því menn skiptast ekkert endilega alltaf á!
Það sem mér finnst einnig mjög áhugavert við Patchwork er hvenær leikmaður fær að gera því menn skiptast ekkert endilega alltaf á! Sem dæmi, leikmaður kaupir bút sem kostar fjórar tölur en tíminn (tímaglasið) á bútnum segir sex og færi því peðið sitt áfram um sex reiti. Því næst fær hinn leikmaðurinn að gera. Hann kaupir sér bút sem kostar sjö tölur en tíminn á bútnum er einugis einn. Hann færir því sitt peð einungis áfram um einn reit og má því gera aftur og aftur svo lengi sem hann á tölur og getur keypt búta sem valda því ekki að hann fari fram úr andstæðing sínum. Um leið og hann fer framfyrir á hinn leikmaðurinn að gera.
Ef svo vill til að menn hafi ekki efni á að kaupa sér neinn bút verða leikmenn að færa leikpeðið sitt einum reit framar en leikpeð andstæðingsins, sá leikmaður fær jafnmargar tölur og hann færir peðið sitt áfram um. Þrír reitir áfram er því þrjár tölur í sarpinn.
Það er eitthvað svo ótrúlega skemmtilegt við það að meðhöndla bútana og snúa þeim á alla mögulega vegu til þess að gera teppið sitt sem heildstæðast…
Það er eitthvað svo ótrúlega skemmtilegt við það að meðhöndla bútana og snúa þeim á alla mögulega vegu til þess að gera teppið sitt sem heildstæðast, ef upp koma lítil göt geta menn nýtt litlu 1×1 bútana til að fylla upp í götin og þannig reynt að koma í veg fyrir stigamissi.
Auk þess keppast menn að því að vera fyrstir til að fylla uppí 7×7 reiti til að vinna sér inn sjö bónusstig sem í boði eru.
Stigin er talin þegar bæði leikpeð eru komin inn að miðju leikborðsins. Þá telja menn auðu reitina sem eftir eru og margafalda með tveim. Það eru stig sem leikmenn verða að fjarlægja úr tölubunkanum sínum ef leikmaður á engar tölur eftir er möguleiki á að hann endi með mínusstig í heildina. Sá leikmaður vinnur sem á flestar tölur eftir eða hafði færri mínusstig.
Patchwork hlýtur fullt hús stiga hjá mér, 5 stjörnur af 5 mögulegum. Það er ómögulegt að spila það einn og gengur heldur ekki upp fyrir þrjá. Njóttu þess með góðum vin og láttu hugmyndaflugið ráða ferðinni í því að sauma saman flottasta teppið.
Myndir: BoardGameGeek / Shut Up & Sit Down