Bækur

Birt þann 25. júlí, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Viðtal við Bókabeituna

RokkurhaedirÁrið 2011 stofnuðu þær Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir bókaútgáfuna Bókabeituna og hafa síðan þá verið öflugar á útgáfumarkaðnum. Bókabeitan hefur einbeitt sér að bókum fyrir börn og unglinga, en einnig teygt sig upp í young adult lesendahópinn. Þá hafa þær lagt sérstaka áherslu á ævintýrabækur og ber þar hæst Rökkurhæðabókaflokkurinn, en þær bækur skrifa Birgitta og Marta sjálfar. Bókabeitan er ungt og skemmtilegt forlag og verður gaman að fylgjast með því vaxa í framtíðinni. Bækur gefnar út undir formerkjum þess og systurmerkjum ættu að falla vel að áhugasviði lesenda Nörd Norðursins og hvetjum við ekki síst nördalega foreldra til að kíkja á bækurnar með krökkunum sínum, við lestrarhestar vitum að það er fátt betra en að sökkva sér ofan í góða bók og ekki skemmir ef hún er pínu hræðileg!

Við ræddum við þær Birgittu Elínu og Mörtu Hlín um Bókabeituna, útrás, Rökkurhæðir og framtíðaráform nýlega og hér er það sem þær höfðu að segja:

 

Hvers vegna ákváðuð þið að stofna bókaútgáfu?

Þegar hugmyndin að Rökkurhæðum kviknaði veltum við fyrir okkur hvernig væri best að koma bókunum til lesenda. Við vorum með mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig bækurnar, og bókaflokkurinn í heild, ætti að vera. Bæði með tilliti til ytri umgjarðar – letur, línubil, útlit kápu – og líka innihalds (enda eru mjög djúpar pælingar varðandi lestur, og skort á ákveðinni tegund lesefnis, á bak við Rökkurhæðabækurnar). Okkur þótti ekki spennandi tilhugsun að leggja þessa hugmynd í hendurnar á öðrum og hafa þá minna að segja um það hvernig lokaafurðin liti út. Og svo var alltaf möguleiki að við fengjum engan útgefanda. Við hættum því fljótt að velta því fyrir okkur og ákváðum að gefa bækurnar út sjálfar.

Í upphafi höfðum við samt engin áform um að gefa út fleiri bækur en okkar eigin en það breyttist fljótt.

 

Hvað finnst ykkur sjálfum skemmtilegast að lesa?

Lestrarbakgrunnur okkar er frekar ólíkur. Birgittu er úr hrollvekjum, vísinda- og furðusögum en Marta hefur meira lesið af íslenskum góðbókmenntum, fjölskyldusögum og bókum með dulrænu ívafi. Við eigum það þó sameiginlegt að hafa lesið mikið frá því við vorum börn og munum báðar eftir að hafa saknað þess að ekki væru til fleiri furðusögur og hrollvekjur þegar við vorum börn. Enda ólumst við upp þegar sænska raunsæið var í algleymingi.

 

Nýlega hlaut bók sem gefin er út undir merkjum Bókabeitunnar tilnefningu til Norrænu barnabókmenntaverðlaunanna, hvaða merkingu hefur það fyrir lítið og tiltölulega ungt forlag eins og Bókabeituna?

Þetta er alveg frábær viðurkenning og staðfestir hvað við vorum einstaklega heppnar þegar Bergrún Íris bankaði á dyrnar. Svona viðurkenning opnar dyr til erlendra forlaga og gerir það að verkum að allar samskiptaleiðir eru greiðari.

 

Hvers vegna gefið þið allar bækur ykkar einnig út rafrænt?

Vinur_minn_vindurinnSvarið við þessu er margþætt. Fyrst og fremst lítum við á það sem sjálfsagða þjónustu við neytandann/lesandann. Við höfum báðar lesið mikið á lesbrettum undanfarin ár og því miður þýðir það að maður les mest á ensku. Enn eru fáar íslenskar bækur á Amazon og þegar maður á Kindle þá verður maður að gera sér erlendar bækur að góðu. Það á sinn þátt í að við ákváðum að það yrði hægt að nálgast bækurnar okkar á öll helstu lesbrettin.

Svo má velta því upp að við séum á einhvers konar umbreytingatímum. Við erum með heila kynslóð sem elst upp með símann í annarri og tölvuna í hinni og rannsóknir sýna að lestrarvenjur þeirra eru ólíkar okkar sem eldri eru. Kannski verða þau líklegri til að velja frekar rafrænan lestur en lestur á pappír og ef við viljum halda íslenskunni á lofti þá verðum við að sjá til þess að lesefni á íslensku sé aðgengilegt hverjum sem það kýs.

Við getum reyndar ekki státað okkur af því að allt okkar lesefni sé til á rafrænu formi af því að við tókum þá ákvörðun að setja myndasögur fyrir börn ekki á það form. Einfaldlega vegna þess að okkur finnst það ekki koma nógu vel út. Líklega þyrfti það að vera nær appi en rafbók og slíkar pælingar bíða betri tíma.

 

Nú eru Rökkurhæðir að hefja útrás til Þýskalands, hvernig kom það til?

Það gerðist í kjölfar örfundar á bókamessunni í Frankfurt 2014. Þar náðum við að spjalla við kaupanda frá Arena Verlag í nokkrar mínútur á milli funda og úr því varð þessi samningur. Sem var afgreiddur á methraða, segja fróðir menn. Hún hafði verið að leita að annars vegar spennandi lesefni fyrir unglinga og hins vegar einhverju íslensku fyrir börn og unglinga og var himinlifandi að fá þetta i einum pakka.

Áætlað er að fyrsta bókin komi út í janúar 2016 og næstu tvær stuttu síðar.

Það verður skrítin tilfinning að sjá bækurnar á erlendu tungumáli en vonandi verður það tilfinning sem við eigum eftir að upplifa oftar.

 

Hvers vegna ákváðuð þið að leggja áherslu á ævintýra-, spennu-, hryllings-, drauga- og galdrabækur eins og segir á heimasíðu ykkar?

Mestmegnis af því að þetta voru bækurnar sem okkur langaði að skrifa. Eins og áður sagði þá mundum við báðar eftir að hafa viljað fleiri slíkar bækur þegar við vorum yngri. Þegar við vorum báðar að vinna meistaraverkefni um barna- og unglingabækur, þá komumst við að því að framboðið var lítið og pláss fyrir meiri fjölbreytni fyrir þennan lesendahóp, til dæmis bækur sem einblína á spennandi framvindu frekar en mikið nostur við umhverfis- og persónulýsingar.

 

Hvað er á döfinni hjá ykkur, einhverjar spennandi bækur á leiðinni?

Stulkan_med_nadargjafirnarÓjá!

Við ætlum að halda okkur við að gefa út bækur fyrir börn og unglinga en ætlum einnig að teygja okkur upp í það sem hefur verið kallað Ungmennabækur (auglýsum hér með eftir betra nafni!). Til að aðskilja þessa ólíku flokka var ákveðið að búa til tvö ný útgáfunöfn. Þannig gefur Töfraland út bækur fyrir yngstu kynslóðina, Bókabeitan sinnir lesendum á grunnskólaaldri og Björt, bókaútgáfa gefur út bækur fyrir þennan óræða ungmennaaldur. Viðmið Bjartar er að bækurnar séu við hæfi lesenda frá svona 15 ára aldri og að stærsti lesendahópurinn sé á aldrinum 15-25. En það er náttúrulega teygjanlegt í allar áttir og því ættu allir að geta gripið í þær bækur.

Björt var t.d. að gefa út bókina Stúlkan með náðargjafirnar sem er hrollvekja og alls ekki fyrir börn. Bókin er tilnefnd til Arthur C. Clarke verðlaunanna og komin í kvikmyndaframleiðslu og er í frábærri þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur.

Fram undan hjá Björt er önnur bók tilnefnd til sömu verðlauna, bók eftir nýjan íslenskan höfund og bók í anda Eleanor og Park (þó hún sé allt öðruvísi). Bókabeitan var að senda frá sér aðra bókina í flokknum um Seiðfólkið (sú fyrsta, Flóttinn, kom út fyrir jólin) og heitir hún Töframáttur og þar er ýmislegt í farvatninu fyrir haustið. Töfraland sendir fljótlega frá sér Sjáðu mig, sumar! Sem fylgir eftir bókinni Vinur minn, vindurinn en núna er íslenska sumarið í forgrunni.

 

Hvenær mega lesendur eiga von á næstu bók í Rökkurhæðaflokknum?

Næsta bók í bókaflokknum er væntanleg með haustinu. Sú nefnist Atburðurinn og er síðasta bókin af þeim sem eiga að heita að vera nokkuð stakar. Við ætlum þó að játa á okkur að baksaga Rökkurhæða er orðin sífellt fyrirferðarmeiri og æ erfiðara að halda sig við upphaflega markmiðið – að bækurnar standi algjörlega sjálfstæðar hver frá annarri. Atburðurinn fjallar um Margréti, sem kom fyrst fram í Rústunum, og fer með okkur að Atburðinum sjálfum – hvað það var sem gerðist í Rökkurhæðum og varð til þess að blokkarlengjan á hæðinni er nú rústir einar.

2016 kemur svo út fyrsta bókin í Endalokunum. Endalokin verður þríleikur þar sem öll (eða flest) mál verða leidd til lykta og punktur settur aftan við Rökkurhæðabókaflokkinn.

Myndir: Bókabeitan

 

 

Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑