Myndasögur

Birt þann 18. júní, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Andrés Önd áttræður

Andrés Önd er flestum kunnugur, en á löngum ferli sínum hefur hann komið víða við í teiknimyndum og myndasögum Walt Disney samsteypunnar. Nýverið fagnaði hann hvorki meira né minna en 80 ára afmæli sínu og virðist hvergi hættur þrátt fyrir háan aldur. Þessa óargaönd þekkja flestir á matrósafötunum, enda þó hann hafi ekki sinnt skyldum sjóhersins í áratugi hefur hann aldrei sagt skilið við búninginn. Andrés Önd er í raun þrælklár og fjölhæfur, en sjaldan hefur hann heppnina með sér. Flest hans áform enda með ósköpum og skapofsi hans er alltaf líklegur til að koma honum í vandræði.

Andres_Ond_01

Andrés, sem á ensku heitir fullu nafni Donald Fauntelroy Duck, var kynntur til sögunnar árið 1934; en Walt Disney sjálfur blés lífi í þessa víðfrægu, skapstóru og buxnalausu önd. Það var Clarence Nash sem upprunalega ljáði Andrési sína skræku og auðþekkjanlegu rödd, og gegndi því hlutverki í heil 50 ár. Tony Anselmo tók við af Nash árið 1985 og sinnir þeim skyldum enn þann dag í dag. Fyrsta hlutverk Andrésar var í teiknimyndinni The Wise Little Hen (1934), en síðan þá hefur hann gegnt mörgum lykilhlutverkum og komið fram í fleiri teiknimyndum en nokkur önnur Disney persóna.

Árið 1943 færði öndin Walt Disney fyrirtækinu óskarsverðlaun fyrir stuttmyndina Der Fuhrer‘s Face, þar sem Andrés upplifir skelfilegar raunir í Þýskalandi á tímum nasista. Þessi litla áróðursmynd var notuð til að hvetja Bandaríkjamenn áfram í seinni heimsstyrjöldinni – og ekki eina skiptið sem Andrés var fenginn til að stappa stálinu í hermenn.

Teiknimyndirnar um Andrés Önd hafa notið gríðarlegra vinsælda, en það er þó í formi myndasagna sem hann hefur helst slegið í gegn í Evrópu. Íslendingar þekkja mætavel myndasögublöðin sem gefin eru út hér á landi, enda hafa margir verið áskrifendur að öndinni áratugum saman. Það er höfundurinn og teiknarinn Carl Barks sem helst á heiðurinn af löngum og farsælum ferli Andrésar. Barks lagði grunninn að söguheimi Andabæjar og flestum persónum innan hans. Barks var sérstaklega annt um Jóakim Aðalönd, auðugan og nískan frænda Andrésar, sem átti síðar eftir að hreppa af honum aðalhlutverkið í fjölmörgum myndasögum. Þá hefur Barks oft verið nefndur „Andamaðurinn“ eða „The Duck Man“ fyrir framlag sitt; myndasögufrömuðurinn Will Eisner kallaði Barks jafnvel H.C. Andersen myndasagnanna.

Barks_Rosa

Don Rosa til vinstri og Carl Barks til hægri.

Don Rosa er þó einn þekktasti höfundur ævintýranna um Andrés Önd og félaga, en á níunda áratug síðustu aldar skrifaði hann sína fyrstu sögu um ævi og störf Jóakims Aðalandar. Sögum hans hefur verið safnað saman og þær gefnar út í íslenskri þýðingu dyggum lesendum til mikillar lukku. Árið 1994 fagnaði Andrés sextugsafmæli, en þá heiðraði Don Rosa öndina í myndasögu sem sýnir hversu eymdarlegt ástand Andabæjar og íbúa væri ef Andrés Önd hefði aldrei komið til sögunnar. Á sjötugsafmælinu, árið 2004, fékk öndin okkar stjörnu á Hollywood Walk of Fame.

Andres_Ond_02

Fyrir stuttu fagnaði Andrés Önd 80 ára afmæli sínu og það er aldrei of seint að slá til veislu. Nú þegar nánast hálf öld er liðin frá því að Walt Disney lét lífið, er þó tæplega hægt að segja að Disney hafi gefið upp öndina; enda Andrés enn í fullu fjöri og mun gefa lífinu lit með sínum einkennandi skapofsa og afdrifaríkum ævintýrum um ókomna tíð.

Myndir: Walt Disney

 

Höfundur er Smári Pálmarsson,
grafískur hönnuður og sögusmiður.

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑