Birt þann 10. febrúar, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins
Spilarýni: Cards Against Humanity
Samantekt: Sjaldan eða aldrei hefur þetta nörd haft jafn gaman af spili eins og þessu.
5
Æðislegt!
Helgi Freyr Hafþórsson skrifar:
Spilið byrjaði sem verkefni á Kickstarter og var ekki lengi að ná markmiði sínu og safna í leiðinni stórum hópi aðdáenda. Skopskynið í leiknum er kolsvart og eru leikreglurnar fáranlega einfaldar, svo spilið er sannarlega fyrir fólk sem hefur svartan húmor og þorir að láta allt flakka. Því er spilið alls ekki fyrir fólk sem móðgast auðveldlega og ætti það því að halda sig sem lengst frá því. En fyrir okkur hin þá er þetta besta partý spil í heimi!
Cards Against Humanity er mjög einfalt í spilun, hver og einn spilari hefur tíu hvít spil á hendi og í hverri umferð er skipst á að draga eitt svart spil. Svörtu spilin hafa mismunandi spurningar, athafnir og í raun hvað sem er sem fær viðkvæmt fólk til að móðgast. Spilarar eiga síðan að velja úr þeim spilum sem þeir hafa á hendi og reyna svara því sem stendur á svarta spilinu. Sá sem dregur svarta spilið velur síðan besta svarið, án þess að vita hver á hvaða spil. Sá sem á besta svarið fær að sjálfsögðu stig fyrir vikið og gengur spilið út á að safna sem flestum stigum.
Skemmtilegt er að hafa regluna Rando Cardrissian þegar spilað er. Reglan virkar þannig að í hverri umferð er dregið hvítt spil úr bunkanum af handahófi og bætt við svörin sem spilarar hafa valið. Ef spilið hjá Rando er valið fær hann stigið og ef hann vinnur þá er augljóst að spilarar þurfa að fara í kalda sturtu og hugsa sinn gang í lífinu.
Sjaldan eða aldrei hefur þetta nörd haft jafn gaman af spili eins og þessu. Klárlega besta spilið fyrir vinahópinn og til að brjóta ísinn í vandræðanlegu samkvæmi.