Birt þann 15. desember, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
Spilarýni: Íslandssöguspilið
Samantekt: Íslandssöguspilið er velkomin viðbót í íslensku spilaflóruna og flott að grípa í um jólin.
4
Skemmtilegt
Védís Ragnheiðardóttir skrifar:
Aldur 8+ | Leikmenn 2-6 | Spilatími 30 mínútur+
„Grillar þú síðasta geirfuglinn? Hélstu með Trampe greifa á Þjóðfundinum? Mótmælirðu litasjónvarpinu eða sendir þú mótspilarann í gapastokk fyrir leti? Keppendur þurfa að beita slægð og tefla djarft til að komast fyrstir í mark.“
Íslandssöguspilið er glænýtt íslenskt spil sem félagarnir Stefán Pálsson og Ragnar Kristinsson settu saman og nýttu sér við smíðina sagnfræðiáhuga sinn.Lára Garðarsdóttir myndskreytti spilið.
Gangur spilsins
Spilið er ekki spurningaspil eins og margir kynnu að halda, enda Stefán Pálsson þekktur spurningasmiður sem semur m.a. spurningar fyrir Útsvar, heldur tengingaspil sem byggir á atburðum úr Íslandssögunni, lítt jafnt sem vel þekktum. Kast tenings ræður hversu marga reiti keppandi fer fram á spilaborðinu en auk þess eru nokkrir reitir þar sem keppandi getur færst afturábak eða áfram um nokkra reiti, svipað og í snákaspili. Stærsta hlutverkinu gegna þó reitir spilaborðsins; áhættureitir, tíðindareitir og launsátursreitir.
Lendi keppandi á tíðindareit dregur hann tíðindaspjald, les og fer eftir leiðbeiningum þess:
Þú missir af Dallas í sjónvarpinu og ert því ekki viðræðufær í heila viku. -3
Dragir þú þetta spjald þarftu að fara aftur um þrjá reiti og næsti keppandi kastar. Tíðindaspjaldið sem þú dregur getur einnig haft áhrif á mótspilara þína:
Þú opnar sölubúð á Alþingishátíðinni árið 1930. Allir vilja kaupa límonaði og einn mótherja þinna er sérstaklega þyrstur. +2 +1
Hér fer sá sem dró spjaldið áfram um tvo reiti en velur einnig einn mótspilara sinn til að fara fram um einn reit.
Hvítu reitirnir á spilaborðinu eru launsátursreitir. Hver þátttakandi hefur leikinn með þrjú launsátursspjöld og má hann nota þau gegn mótspilurum sínum og stundum sér sjálfum til framdráttar. Launsátursreitirnir og launsátursspjöldin skiptast í sex flokka og má aðeins nota launsátursspjald á viðkomandi reit, það má til dæmis ekki nota stjórnmálalaunsátur á menningarlaunsátursreit. Hér gildir að nota spjaldið á réttu augnabliki og ekki geyma það of lengi því annars gætirðu misst af tækifærinu!
Þú ert með bráðsmitandi afbrigði af Svartadauða og getur smitað einn meðspilara hvenær sem er. Sá hinn sami missir úr eitt kast á meðan hann jafnar sig.
Rauðu reitirnir eru áhættureitir, lendir þú þar dregurðu áhættuspjald og velur hvort þú kýst að taka áhættu eða ekki, hér ræður teningurinn örlögum þínum og er hægt að tapa stórt ef lukkan er ekki með manni, en að sama skapi vinna stórt sé gæfan þér fylgjandi.
Einnig fær hver spilari svokallað persónuspjald sem getur reynst munurinn milli taps og sigurs, spjaldið getur spilari notað til að snúa á mótspilara sinn eða gefa sér forskot, allt eftir því hvort hann er Þórunn á Grund eða Axlar-Björn!
Sá sigrar sem fyrstur kemst til ársins 2007 (og viðeigandi keyrir jeppanum sínum út í sjó samkvæmt myndskreytingum).
Niðurstaða
Íslandssöguspilið er hressandi fjölskylduspil og fullkomin möndlugjöf. Þetta er spil fyrir alla fjölskylduna þar sem lukkan ræður miklu en kænska spilar einnig inn í. Spilið hentar fyrir nokkuð unga krakka, þau þurfa þó að kunna að lesa til að geta notað launsáturs- og persónuspjöldin, nema þau séu í liði með einhverjum eldri. Íslandssöguspilið er ekki flókið og allir í fjölskyldunni ættu að geta haft gaman af því, en spilið gerir vissulega meira út á yngri kynslóðirnar. Þetta er ekki endilega spil sem mamma og pabbi spila tvö saman á kvöldin en þeim ætti ekki að leiðast að spila þetta með krökkunum sínum! Spilið er einnig fræðandi, á meðan þú spilar smjúga ómeðvitað inn litlir þekkingarbitar um Íslandssöguna, hver sagði að það þyrfti að vera leiðinlegt að læra? Fyrir þá sem vilja vita enn meira má finna á hverju spjaldi nánari upplýsingar um atburðina sem vísað er til og í leiðbeiningabæklingnum er einnig stuttur söguannáll sem útskýrir söguna bakvið hvern reit á leikborðinu.
Fáir ágallar eru á spilinu, það er fallegt, eigulegt og vel prófarkalesið – eitthvað sem er alltof sjaldan reyndin með íslensk spil. Það hefðu mátt vera fleiri persónuspil, þau eru aðeins sex svo sá sem spilar oft mun reglulega fá sama persónuspjald. Einnig hefði verið gott að hafa betur útskýrt hvenær á að nota launsátursspjöldin. Það má nota spjöldin gegn manni þegar maður er á viðkomandi reit og þá má maður einnig sjálfur nota sín spjöld gegn mótspilurum sínum en má það gerast á hvaða tímapunkti sem er eða eingöngu um leið og maður lendir þar eða eiga spilafélagar manns kannski að bíða með að setja út sín launsátursspil gegn manni þar til þeir eiga sjálfir leikinn? Kannski hefði verið hægt að hafa rýmri reglur um hvenær má spila þessum spjöldum út og ekki binda það eingöngu við vissa reiti. Ég hefði einnig viljað sjá fleiri launsátursspjöld, að maður mætti alltaf eiga þrjú spjöld, um leið og einu væri spilað út væri annað dregið, eitthvað í líkingu við það sem finna má í Munchkin (sjá rýni hér). Það er þó spurning hvort það hefði hentað yngsta spilahópnum. Það má einnig nefna að þótt talað sé um að spilið henti tveimur spilurum, og vissulega sé hægt að spila það með tveimur, gerir það hluta af leiknum ógildan og minnkar spennuna. Í stað þess að geta valið um að hygla eða refsa ákveðnum leikmönnum með launsátursspjöldum, persónuspjöldum og tíðindaspjöldum er það alltaf sama manneskja sem nýtur góðs eða ills af spjöldunum.
Að mínu mati hefur þetta spil flesta kosti fjölskylduspils, ég sé fyrir mér að krakkar hefðu gaman af því og persónulega fannst mér það hin fínasta skemmtun. Íslandssöguspilið er velkomin viðbót í íslensku spilaflóruna og flott að grípa í um jólin.