Birt þann 24. júlí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Topp 5 íslensk illmenni
Það þykir mörgum leikaranum eftirsóknarvert að setja sig í hlutverk illmennis. Kemur eflaust ekki á óvart því oft á tíðum eru illmenni flóknir persónuleikar og því úr miklu að moða þegar kemur að túlkun slíkra persóna. Nú eru tökur hafnar á framhaldi kvikmyndarinnar Borgríki og því þótti undirrituðum við hæfi að renna yfir bestu illmenninn í íslenskum kvikmyndum. Ingvar E. Sigurðsson lék einmitt snilldarlega ruddann og illa innrætta glæpamanninn Gunnar í Borgríki.
5. Reykjavík Whale Watching Massacre (2009) í leikstjórn Júlíusar Kemp
Guðrún Gísladóttir brillerar í hlutverki mömmunnar. Þó svo að Helgi Björns og Stefán Jónsson sýni líka á sér dökku hliðarnar með glæsibrag þá verður að segjast eins og er að Guðrún stelur algjörlega senunni.
4. Mýrin (2006) í leikstjórn Baltasars Kormáks
Þó svo að Theódór Júlíusson fái ekki mikinn tíma í myndinni þá er hann algjörlega innblásinn af mannvonsku í þeim atriðum þar sem hann kemur fyrir í. Theódór nær að túlka margbrotinn persónuleika Elliða af sannfæringu. Það sést í augunum á honum hvernig persónan er þjökuð af fortíðinni en jafnframt uppfull af heift.
3. Borgríki (2011) í leikstjórn Ólafs Jóhannessonar
Loksins kom fram í íslenskri kvikmynd raunsæ birtingarmynd glæpaforingja. Ingvar E. Sigurðsson hefur útlitið á hreinu. Skeggið og klæðnaðurinn passa fullkomlega og illmennið Gunnar lifnar við í höndum Ingvars.
2. Sódóma Reykjavík (1992) í leikstjórn Óskars Jónassonar
Eggert Þorleifsson leikur Agga Pó af mikilli snilld. Hann er kannski ekki flókinn persóna. Búinn að horfa of mikið á amerískar glæpamyndir og langar til þess að vera vondi kallinn en þó svo að löngunin sé til staðar þá floppar allt sem hann gerir.
1. Svartur á leik (2012) í leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar
Besta illmenni íslenskrar kvikmyndasögu hingað til. Damon Younger túlkar hreinræktaða illsku í siðblinda glæpaforingjanum Bruno og gerir það af þvílíkum krafti að áhorfendur áttu bágt með að horfa á sum atriðin. Það hefur án efa tekið sinn tíma að hrista af sér hlutverkið. Damon fékk Edduverðlaunin fyrir túlkun sína og átti það svo sannarlega skilið.
Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.