Birt þann 23. júlí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Bókarýni: Vargsöld: Roðasteinninn I eftir Þorstein Mar
Vargsöld er ný bók gefin út af útgáfufyrirtækinu Rúnatý, nýju íslensku útgáfufyrirtæki sem sérhæfir sig í útgáfu bóka sem hafa hingað til hlotið lítinn hljómgrunn hjá stærri forlögum Íslands. Þetta eru til að mynda fantasíur, vísindaskáldsögur og hrollvekjur. Vargsöld er eftir Þorstein Mar sem áður hefur sent frá sér smásagnasafnið Myrkfælni og skáldsöguna Þoku.
Vargsöld fjallar um Ráðgríð, unga konu sem býr í þorpinu Vegamótum í fantasíulandinu Norðurmæri þar sem ýmsar furðuverur, vættir og ólíkir þjóðflokkar búa. Sagan gerist á nokkurs konar miðöldum, fyrir tíma tækninýjunga, í heimi sem mætti kannski líkja við Westeros í Game of Thrones og Middle-Earth í Lord of the Rings. Ráðgríð býr í vernduðu umhverfi en skjótt skipast veður í lofti og hættur taka að sækja að úr öllum áttum. Ráðgríð og vinir hennar þurfa saman að takast á við þessar hættur, hættur sem þau skilja ekki og eru ekki alltaf tilbúin að takast á við. Þau heyja því innri baráttu til jafns við þá ytri. Sagan er sú fyrsta í bókaflokki og fær lesandi enga lausn, í raun mætti segja að þessi fyrsta bók sé bara inngangur að ævintýrum Ráðgríðar og vina hennar. Það kemur þó ekki að sök því sagan er spennandi og kemur manni á bragðið, ég hlakka til að sjá hvað Ráðgríð og félagar þurfa að kljást við næst.
Kvenhetjur
Í blaðaviðtali sem birtist í Morgunblaðinu segir höfundur að með sögunni um Ráðgríð hafi hann viljað varpa ljósi á kvenhetjur í ævintýrum, hann hafi átt erfitt með að finna sögur þar sem konur séu aðalpersónur sem hafi „leiðandi hlutverk, leiddu hópinn og tækju jafnan þátt í bardögum“. Þegar ég hóf lesturinn á Vargsöld vissi ég af þessu markmiði Þorsteins og var nokkuð spennt, enda sammála honum að kvenpersónur séu alltof fáar í fantasíubókmenntum og séu þær til staðar virðast þær oft lenda í nokkuð hefðbundnum hlutverkum hjálpara, (kynferðislegra) viðfangsefna karlmanna eða illra andstæðinga. Séu þær aðalpersónur er oft gert út á kynferði þeirra og kynlíf. Ég varð því fyrir nokkrum vonbrigðum með Ráðgríð og fannst mér stundum vafasamt að kalla hana aðalpersónu sögunnar, ég myndi að minnsta kosti segja að því hlutverki deilir hún nokkuð jafnt með besta vini sínum, Hræreki. Þetta þarf vissulega ekki að vera slæmt – tvær aðalpersónur gera sögu ekki slæma en mér fannst oft eins og Ráðgríð væri við það að falla í skuggann af Hræreki, sjónarhornið var hjá Ráðgríð en viðfangsefnið var að miklu leyti Hrærekur. Ráðgríð tók virkan þátt í bardögum og bjargaði sjálfri sér og öðrum úr erfiðum aðstæðum, meðal annars Hræreki ítrekað, en þegar hann var nálægt var hann í hlutverki foringja, hún elti hann um allt og fylgdi hans fordæmi. Þetta truflaði mig nokkuð mikið og oft hugsaði ég hvort þetta væri í raun saga Ráðgríðar eða saga Hræreks. Lesi ég rétt í framvindu bókaflokksins út frá þeim upplýsingum sem koma fram í Vargsöld mun hlutverk Hræreks hvað síst minnka í bókunum – en það eru vissulega bara getgátur mínar og brugðið getur til beggja vona. Í það minnsta vona ég að þetta sé aðeins forsmekkurinn og að Ráðgríð muni þroskast í næstu bókum, taka sífellt virkari þátt í ákvarðanatökum og hætta að leika hjálpardekk Hræreks.
Innblástur og efniviður
Augljóst er að Þorsteinn er víðlesinn í fantasíubókmenntum og dregur hann sér innblástur úr mörgum áttum, ég greindi áhrif frá Hringadróttinssögu, Krúnuleikum og ekki hvað síst úr norrænni goðafræði. Á stundum þótti mér sem tengingarnar væru full augljósar og beinteknar án nógu mikillar mótunar höfundar, það er allt gott og blessað við það að nýta sér innblástur þekktra og vinsælla bókmennta en það er ákveðinn línudans. Vissulega er ekki ótakmarkaður efniviður í eternum en góður höfundur þarf að færa lesanda eitthvað nýtt og spennandi, eitthvað „tvist“ sem kemur á óvart, eitthvað sem heillar. Sérstaklega þegar um er að ræða fantasíubókmenntir sem eiga sér hliðhollan lesendahóp sem allur hefur lesið sinn skerf af fantasíum. Ef fyrsta bók bókaflokks færir þessum lesendum ekki eitthvað nýtt, eitthvað sem „húkkar“ þá muna þeir líklega leita á nýjar slóðir.
Ritstýring og yfirlestur
Í nýlegri rýni sinni á bókinni Flóttinn til skýjanna eftir Kristján Má Gunnarsson, en sú bók er einnig gefin út af Rúnatý, fjallar Elín Björk Jóhannsdóttir um að yfirlestri bókarinnar hafi verið ábótavant, hún minnist meðal annars á að nafnaruglingur hafi orðið á einum stað þegar kvenpersóna skipti skyndilega um nafn. Um Vargsöld hef ég sömu hluti að segja, innsláttar-, stafsetningavillur og málfarsvillur eru nokkuð fleiri en von er að finna í íslenskum bókum en svo undarlega vill til að í Vargsöld var einnig að finna nafnarugling. Kvenpersónan Vélrún, aukapersóna sem aðeins kemur fyrir í hluta bókarinnar, heitir skyndilega á einum stað Véldís. Þetta eru hlutir sem góður yfirlestur myndi auðveldlega laga en er eitthvað sem getur haft veruleg áhrif á (allavega suma) lesendur. Ég er til að mynda slíkur lesandi og var stundum einkar pirruð á þessu. Línan er strax lögð aftan á kápu bókarinnar þar sem stendur:
„Vargsöld er fyrsta sagan um í bókaflokki Ráðgríð og ævintýri hennar“
Þessi texti er húkkið, helsta leið útgefanda til að selja bókina áhugasömum kaupendum. Að rekast á svona alvarlegan rugling á kápu er ekki eitthvað sem heillar. Það sendir skilaboð til lesanda um bókin sé illa unnin, alveg sama hvort sú sé raunin, fyrstu kynni þurfa að vera góð og þau þurfa að heilla, hætta er á að mögulegir lesendur leggi þessa bók frá sér í bókabúðinni og kíki á þá næstu.
Annað vandamál sem mögulega hefði horfið við góða ritstjórn eru of mikil smáatriði í lýsingum. Höfundur var alltof gjarn á að lýsa minnstu smáatriðum, allt frá innanhússmunum og klæðum til bardagalýsinga. Þetta sýnir mikinn áhuga höfundar á þeim heimi sem hann skapar og löngun hans til að færa lesendur sína sem næst þeim heimi en eins og svo oft áður er hér um að ræða ákveðið jafnvægi. Of mikil smáatriði og lesturinn verður óþarflega hægur, lesandi fær ekki tækifæri til að ímynda sér neitt sjálfur, taka virkan þátt í sköpun, allt er lagt á borð fyrir hann. Eitt atriði sem ég man sérstaklega eftir var þegar borði var lýst, ofan á því voru þrjár flöskur og ein lá á hliðinni. Þetta skiptir engu máli fyrir framvinduna og bætir litlu við annað en að hægja á frásögninni. Nákvæmar lýsingar eru skemmtilegar en þær þurfa vera í hófi og þar sem um er að ræða bókaflokk má alveg dreifa þeim milli bóka svo lesandi sökkvi dýpra og dýpra inn í heiminn sem er Norðurmæri.
Nú kann einhverjum að þykja að ég sé full harkaleg og óvægin í gagnrýni minni á því sem kunna að þykja að vera smáatriði. Fyrir því er einföld ástæða. Ég hef trú á þessum bókaflokki, ég hef trú á að hann geti vaxið og orðið góð viðbót í flóru íslenskra bókmennta og hvet ég Þorstein til að halda áfram. Ég hef einnig fulla trú á að fantasíubókmenntir eigi erindi við íslenska neytendur og því hvet ég Rúnatý til að sýna meiri metnað og leggja meiri vinnu í útgáfuvinnu sína. Útgáfa er ekki auðvelt starf en til verksins verður að vanda ef neytendur eiga að fjárfesta í bókunum.
Þegar allt kemur til alls var ég hrifin af bókinni, mér finnst sagan áhugaverð og ég hlakka til að lesa hvað gerist í næstu bókum, aðalpersónur og helstu aukapersónur eru áhugaverðar og ólíkar og allar eru þær margbrotnar. Eins og ég hef áður sagt vona ég að Ráðgríð haldi áfram að þroskast og fái meira aðalhlutverk í næstu bókum og ég hef fulla trú á að hún geti þroskast og orðið mjög sterk kvenpersóna. Hins vegar er mjög mikilvægt að næstu bækur verði betur unnar og hvet ég Þorstein og Rúnatý til að standa undir því og efla þar með íslenskan fantasíumarkað!
Þrjár stjörnur.
Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
nemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.