Bækur og blöð

Birt þann 4. júní, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bókarýni: Þoka eftir Þorstein Mar

Alla tíð hefur mér fundist þokan dularfull og jafnvel drungaleg, þrátt fyrir að vita að þetta er náttúrulegt fyrirbæri sem á sér eðlilega skýringu. Hryllingsmyndin The Fog eftir John Carpenter og tölvuleikjaserían frá Konami um smábæinn Silent Hill hafa ekkert nema ýtt undir þann hugsunarhátt hjá mér. Nú er komin ný íslensk skáldsaga, Þoka, eftir Þorstein Mar og er gefin út af Rúnatý. Þetta er hans fyrsta skáldsaga í fullri lengd en í fyrra kom út smásagnasafnið Myrkfælni. Ásamt Þoku kemur út Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur, þar sem er að finna fimm sögur eftir H.P. Lovecraft, þýddar af Þorsteini.

Kápan af Þoku er ákaflega smekkleg, stílhrein og einsleit. Titill bókarinnar er ritaður með sérstöku letri, ekki ósvipað gömlu merkingunum fyrir þoku í veðurfréttunum. Á kápunni er gráskalinn notaður óspart og það glittir í útlínur Hallgrímskirkju á sjóndeildarhringnum. Þetta skot af Reykjavík kemur manni í rétta stemningu þegar maður loksins hefur lesturinn. Bókin er rétt yfir 200 blaðsíður og er auðlesin á einum degi eða tveimur kvöldum.

Þoka eftir Þorstein MarÁ meðan lestri stóð hlustaði ég á tónlist úr kvikmyndum John Carpenters, The Fog, Christine, Prince of Darkness, They Live, In the Mouth of Madness og Village of the Damned. Allar þessar myndir hafa á köflum mjög drungalega tónlist sem trekkja mann upp og mér fannst það eiga vel við bókina.

Í byrjun bókarinnar finnst mannlaust skip við Faxaflóa og við frekari rannsóknir að hálfu lögreglunnar er augljóst að eitthvað hræðilegt hefur gerst um borð. Það eru fengnir fræðimenn til þess að aðstoða við rannsóknina þar sem þetta er ofar skilningi lögreglunnar. Morguninn eftir leggst þykk þoka yfir Reykjavík og þögnin á götum úti er kæfandi. Ásamt þokunni er framið hrottalegt morð sem virðist tengjast skipinu á einhvern hátt og fleiri fylgja í kjölfarið. Á rúmri viku fylgjumst við með rannsókninni frá sjónarhorni þeirra sem koma að henni, Fjalari varðstjóra, Grími dýrafræðingi, Guðbjörgu blaðamanni og Nirði sagnfræðingi. Þau spyrja sjálft sig hvort þessi morð ætli engan endi að taka og hvort hægt sé að koma í veg fyrir fleiri. Hvað er málið með þessa þoku og er einhver að fylgjast með manni rétt úr augsýn í þokunni?

Bókin hoppar um tíma og rúm til þess að halda lesandanum á tánum en er þó ávallt í réttri röð dagalega séð. Það er aldrei hoppað það langt að lesandinn missi þráðinn, en það hjálpar mikið að persónurnar eru með auðþekkjanleg nöfn. Framvindan er nokkuð hröð og þegar rannsóknin tók á flug verð ég að játa að ég varð ansi forvitinn og spenntur að vita hvað myndi gerast næst. Manni leiddist aldrei á meðan lestrinum stóð. Það var gaman að fylgjast með persónunum, þeirra vandamálum og framvindu rannsóknarinnar en mér fannst leiðinlegt að vita að endalok bókarinnar voru nærri. Atburðir birtust manni að því virðist á ljóshraða en lokin voru vísvitandi hæg eins og martröð.

Þorsteinn Mar nær að skapa kalda og drungalega stemningu í Þoku. Maður spyr sig hvers vegna ætli Þorsteinn hafi valið að láta söguna eiga sér stað á  fyrri hluta 9. áratugarins í stað nútímans. Ætli hann hafi ekki viljað láta líta út fyrirað þessir atburðir hafi átt sér stað í alvörunni, atburðir sem fólk vill minnst muna eftir hvað þá þessa þoku sem virtist stöðva allt mannlífið í borginni. Svo er náttúrulega auðvelt að ná í fólk í nútímanum, kannski betra að sleppa klisjunni um farsímann sem var fyrir utan þjónustusvæðið. Hefði sagan verið eins hrollvekjandi ef sögusviðið væri ekki vafið þoku? Þokan bindur atburðina saman og lesandinn getur hreinlega trúað því að svona hryllileg morð eigi sér stað í Reykjavík, það er óvissa við hvert þrep í þykkri þokunni.

Þoka er fín afþreying og ég hefði ekkert á móti því ef gerð væri kvikmynd eftir bókinni. Það er notalegt að hugsa til þess að við Íslendingar getum lesið eitthvað annað en þessar krimmasögur sem einoka bókamarkaðinn hér á landi. Þoka notar krimmann vel en fer sínar eigin leiðir og víkkar sjóndeildarhringinn í leiðinni.Passið ykkur á þokunni, það er aldrei að vita hvað leynist í henni.

– Jósef Karl Gunnarsson

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑