Fréttir1

Birt þann 21. febrúar, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

PlayStation 4 kynnt – Væntanleg í lok árs 2013

Í gær hélt Sony tveggja klukkutíma kynningarfund um næstu PlayStation leikjatölvuna, PlayStation 4 (PS4), og kynntu væntanlega PS4 leikir. Nýja tölvan er kraftmeiri en sú fyrri og mun bjóða upp á nýja möguleika, en PlayStation 4 er væntanleg í verslanir í lok árs 2013.

Breyttir tímar – breyttar áherslur

Talsmenn Sony töluðu mikið um að með breyttum tímum kæmu breyttar áherslur. Þeir segjast ekki líta lengur á stofuna sem miðju tölvuleikjaspilunar, heldur sé spilarinn sjálfur miðja hennar. Með PS4 getur spilarinn spilað og nálgast upplýsingar um leikina sína í gegnum önnur tæki eins og t.d. PlayStation Vita (PS Vita), snjallsíma og spjaldtölvur, og verður sérstök áhersla lögð á samspil PS4 og PS Vita.

PS4 fjarstýring
DualShock 4, stjórntæki PlayStation 4.

Aukin áhersla verður lögð á samfélagsmiðla í PS4 og vilja þeir gera upplifun spilarans persónulegri. PlayStation Network (PSN) heldur að sjálfsögðu áfram og mun bjóða upp á samfélagsmiðla- og leikjaþjónustu auk þess sem notendur geta nýtt sér þjónustu þriðju aðila, eins og t.d. að fara inn á Facebook eða deila tölvuleikjaspilun sinni í beinni í gegnum USTREAM. Prófílar hvers og eins á PSN eiga eftir að verða persónulegri og ítarlegri en áður og verður auðveldara að deila leikjaupplýsingum með vinum, t.d. með því að deila brotum úr tölvuleikjaspilun eða skoða hvaða leiki vinir þínar hefa verið að kaupa sér. Sérstökum „share“ takka hefur meira að segja verið bætt við PS4 fjarstýringuna (á Kotaku getur þú nálgast nákvæmar upplýsingar um PS4 fjartsýringuna og PS4 myndavélina). Með áherslu á samfélagsmiðla og persónulega upplifun vill Sony að PS4 tölvan læri að þekkja leikjamynstur spilarans með tímanum og geti að lokum sagt hvað honum líkar við og hvað honum líkar ekki við.

 

Meiri kraftur og betri grafík

Augljóslega mun PS4 vera kraftmeiri en PS3 og var grafíkin í sýnishornunum ótrúlega flott. Stökkið milli PS3 og PS4 virðist vera nokkuð langt. Á heimasíðu GamingBolt er hægt að nálgast ítarlegri lista yfir það sem leynist undir húddinu á PS4.

PS4 yfirlit
Vélbúnaður PlayStation 4.

Í PS4 verður hægt að sækja leiki og byrja að spila þá samstundis á meðan tölvan klárar að niðurhala restinni af leiknum. Einnig verður hægt að spila leiki á meðan tölvan uppfærir leikinn og geta uppfærslur og annað niðurhal haldið áfram þó slökkt sé á tölvunni. Hraði tölvunnar verður það mikill að þeir segja biðtíma vera nánast alveg úr sögunni.

PS4 fékk í raun ekki mjög langa eða ítarlega kynningu í gær, heldur fór mesti tíminn í að auglýsa væntanlega tölvuleiki og fjalla um framtíðarsýn Sony og möguleika PS4. Sjálf PS4 tölvan var ekki einu sinni sýnd á kynningunni sem olli vissulega vonbrigðum.

 

Viðbrögð íslenskra spilara: Hvar er PS4 tölvan?!

Að lokinni kynningu spurðum við lesendur á Facebook hvernig þeim litist á nýju leikjatölvuna. Í ljós komu blendnar tilfinningar og fannst mörgum að Sony hafi átt að sýna PlayStation 4 vélina en ekki bara tala um hana. Íslenskir Xbox spilarar voru nokkuð heillaðir af nýju leikjatölvu Sony, en segjast þurfa að bíða og sjá hvernig útkoman verður. Íslenskir PlayStation spilarar virtust á heildina litið vera vel sáttir með kynninguna, þó að sumir tóku undir það að það hefði verið skemmtilegra að fá að sjá tölvuna.

PS4 Facebook

 

Væntanlegir leikir

Stóru leikjafyrirtækin munu gefa út tölvuleiki á nýju PlayStation leikjatölvuna og er nú þegar búið að lofa nokkrum titlum á PS4, þar á meðal: Diablo III (frá Blizzard), Knack, Killzone: Shadow Fall, DriveClub, The Witness (frá Jonathan Blow, gaurnum sem gerði Braid), Final Fantasy, Watch Dogs, Destiny (frá Bungie) og Infamous: Second Son. Sony var í samstarfi við leikjafyrirtækin og hafði þau í huga þegar þeir voru að þróa PS4, en það verður einnig tekið tillit til indí leikja sem verða fáanlegir í gegnum PSN.

Við skulum enda þessa umfjöllun á nokkrum nýjum leikjabrotum sem voru sýnd á kynningunni. Ef þú hefur áhuga á að horfa á alla kynninguna í heild sinni að þá er hægt að gera það hér.

 

Killzone: Shadow Fall

 

inFAMOUS: Second Son

 

Knack

 

Watch Dogs

 

The Witness

 

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑