Leikjarýni

Birt þann 8. desember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Darksiders II

Darksiders 2 er þriðju persónu ævintýraleikur í anda God of War leikjaseríunnar sem notast við kerfi sem sjást í hlutverkaleikum. Leikurinn er framleiddur af Vigil Games og gefinn út af THQ og er framhald fyrri leiks með sama nafni.

Um leikinn

Maður spilar sem Dauðinn, einn af fjórum riddaranna úr Opinberunarbókinni, sem ætlar sér að þurrka út glæpi bróður síns, Stríðs, og endurvekja mannkynið. Framleiðendur leiksins hafa tekið sér bessaleyfi varðandi nöfn riddaranna en þar sem lítið er skrifað um þá í Opinberun Jóhannesar hafa þeir ansi frjálsar hendur hvert þeir vilja fara með þessar persónur og sögu. Um riddarana fjóra í Biblíunni er þetta ritað:

Hvítur hestur, og sá sem á honum sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra. […] Og út gekk annar hestur, rauður, og þeim sem á honum sat var gefið vald að taka burt friðinn af jörðunni, svo að menn brytjuðu hverjir aðra niður. Og honum var fengið sverð mikið. […] Svartur hestur, og sá er á honum sat hafði vog í hendi sér. […] Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum. […] Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með hungri, og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.

– Biblían, Opinberunarbókin, kafli 6.

Í leit sinni þarf Dauðinn að ferðast til nokkra ólíkra heima sem eru misstórir og hjálpa fólki við að finna vissa hluti til þess að komast áfram í leiknum. Það er ekkert grín að taka að sér að spila þennan leik þar sem aðeins aðalhlutinn af leiknum tekur um 40 tíma að klára og ef maður vill taka hliðarspor, finna og gera allt annað sem hægt er að gera, þá er örugglega hægt að bæta við 20 – 40 tímum til viðbótar. Það er gott að vita að maður þarf ekki að hafa spilað fyrri leikinn til þess að skilja hvað er að gerast í leiknum. Einnig vil ég benda á að það fylgir ekki bæklingur um leikinn heldur þarf maður að nálgast hann á heimasíðu THQ, það er samt sem áður lítill bæklingur sem fylgir með leiknum sem hefur aðeins að geyma upplýsingar um stjórnun persónunnar sem maður spilar ásamt kóða fyrir The Crucible sem er hringleikahús þar sem maður berst við óvini fyrir verðlaun.

Spilun

Þegar ég komst að því að þetta væri leikur í anda God of War þá varð ég frekar spenntur að spila þennan leik en var þó smeykur við að leikurinn myndi styðjast við kerfi sem sjást í hlutverkaleikjum. En það er algjör óþarfi að vera smeykur við þetta kerfi því maður venst því furðu fljótt og er þetta ansi sniðug leið til að sökkva manni í þennan heim.

… það er algjör óþarfi að vera smeykur við þetta kerfi því maður venst því furðu fljótt og er þetta ansi sniðug leið til að sökkva manni í þennan heim.

Maður byggir sig upp í gegnum leikinn og getur breytt útliti og eiginleikum sínum, eftir því sem maður spilar leikinn lengur, klárar ákveðin svæði eða verkefni vinnur maður sér inn reynslustig sem að endingu færir manni færnisstig sem er hægt að nota til að leysa úr læðingi galdra til að hjálpa manni að sigrast á óvinum sínum. Óvinir, brjótanlegir hlutir og kistur skilja eftir sig gull, vopn og ýmsar varnir eins og brynjur og stígvél ásamt fleiru. Maður getur eytt uppí korter ef ekki meira bara að finna útúr því að skoða kosti og galla þess sem maður hefur safnað og nýta það besta til að bæta sig á ýmsum sviðum.

Maður hittir nokkra bardagameistara sem geta kennt þér ný brögð gegn greiðslu og fer það í lista yfir brögð sem þú kannt og getur gert. Einnig hittir maður farandsala hér og þar sem hægt er bæði að selja og kaupa af þeim hluti.

Það er mjög gott kort að finna í leiknum sem hægt er að skoða og það er mjög þægilegt að geta stokkið frá einum stað til annars þegar maður hefur klárað ákveðið verkefni og þarf að fara til baka með góðu fréttirnar, sem sparar manni svakalegan tíma. Einnig er að finna lista yfir öll verkefni sem þú getur gert og stillt hvort þú viljir velja að byrja á þeim.

Maður er ekki alveg aleinn í leiknum, Dauðinn ríður á hesti sínum þegar það hentar honum og hrafn vísar honum veginn á næsta áfangastað sem getur verið hjálpsamt.

Til að byrja með er frekar auðvelt að hakka sig í gegnum leikinn en þegar líður á þá þarf maður virkilega að hugsa um hvaða vopn og brynjur maður notar. Vill maður geta gert sem mestan skaða eða vill maður eiga möguleika á að endurlífga sig. Maður finnur nóg af gulli og vopnum að maður þarf eiginlega ekki að taka hliðarspor í þeirri von að finna öflugari vopn en mig grunar að ef valið er erfitt spilunarstig þá gæti maður þurft að stóla meira á annað fólk og hljálpa þeim fyrir gróða.

Það er nóg um bardaga og þrautir í leiknum en þetta getur stundum orðið þreytt þar sem sama formúlan er notuð aftur og aftur. Maður kemur að svæði sem lokast allt í kringum mann og maður þarf að verjast gegn mörgum óvinum, þetta gerist svo oft að maður sér þetta langar leiðir. Þegar maður heldur að maður er kominn aðeins nær áætlunarverki sínu þá þarf maður að finna fleiri hluti sem er oft í þrennum. Þrautir eru svipaðar en það er þó aðeins kryddað uppá þetta með því bæta samvinnu hér og þar, hvort sem það þýðir að stóla á aðra eða sjálfan sig. Suma endakalla þarf maður aðeins að hugsa sig um hvað á að gera, þrátt fyrir að það sé sýnt manni hvað á að gera, maður þarf að nota veikleika óvinarins og hæfa hann þá. Oftar en ekki þá þarf maður að nota eitthvað í umhverfinu til þess að nota gegn óvininum og kryddar það aðeins uppá flóruna sem er að finna í leiknum.

Það er nóg um bardaga og þrautir í leiknum en þetta getur stundum orðið þreytt þar sem sama formúlan er notuð aftur og aftur.

Ég varð var við nokkrar villur hér og þar, en ekkert sem ergjaði mig mikið. Eitt skipti datt ég niður fyrir borðið þegar ég var að synda nálægt botninum á einu svæði, sem betur fer dó ég á endanum og fékk að endurræsa leikinn á nálægum sjálfvistunarpunkti (sem leikurinn gerir oft og það er mikill léttir ef maður deyr). Leikurinn fraus tvisvar í sama borðinu, þegar maður er á Jörðinni, sem mér fannst frekar skrítið. Svo kom af og til að leikurinn hökti, oft ef mikið var að gerast eða maður hreyfði sjónarhornið hratt. Í eitt skipti þá datt hraðinn á leiknum niður á litlu svæði í einu borði og það var ekkert að gerast. Þrátt fyrir þessa hnökra þá skemmdi það ekki fyrir mér leikinn.

Tónlist og hönnun

Hljóð og talsetning er til fyrirmyndar og það er auðvelt að gleyma sér inní þessum forna heimi. En það er hins vegar tónlistin sem stelur senunni að mínu mati.

Tónlistin í leiknum er samin af Jesper Kyd, sem ætti að vera kunnuglegt nafn fyrir þá sem hafa spilað Hitman leikina, og er ótrúlega fjölbreytt. Tónlistin passar ákaflega vel við umhverfið og oft eru þetta mjög ljúfir og fagrir tónar sem fá að hljóma sem endurspegla dulúðina og fegurðina í umhverfinu sem maður ferðast um í gegnum leikinn. En aftur á móti kemur ótrúlega flott hetjuleg tónlist þegar maður þarf að taka á honum stóra sínum. Það er leiðinlegt að vita af því að uppáhalds lagið mitt í leiknum er ekki á lagalistanum á geisladisknum sem inniheldur tónlistina úr leiknum. En tónlistin er fáanleg á iTunes og á Amazon á tveim diskum. Það er hægt að heyra nokkur lög úr leiknum á heimasíðu Jesper Kyd, og þetta lag sem er ekki með er að finna á Soundcloud prófílnum hans.

Leikurinn er mjög flottur en grafíkin virkar gömul, umhverfið kemur yfirleitt betur út heldur en persónur gera. Maður tók helst eftir því ef persónur voru í mikilli nærmynd þá sá maður að smáatriðin komu ekki eins vel út og maður býst við nú á dögum.

Samantekt

Að komast í gegnum þennan leik tekur sinn tíma en það er alltaf eitthvað hægt að gera eða skoða sig um. Stundum getur þetta verið þreytandi að vera sífellt að leita að einhverri þrennu til að komast áfram en annars væri leikurinn frekar stuttur ef maður þyrfti ekki að gera alla þessa hluti. Það er þó reynt að hrissta upp í hlutunum með breytingum sem þarfnast samvinnu og smá hugsun milli bardaga. Ef þú vilt spila epískan leik þá er auðvelt að mæla með Darksiders 2 þrátt fyrir nokkra hnökra hér og þar.

 

GRAFÍK
HLJÓÐ
SAGA
SPILUN
ENDING
7,0
9,0
7,0
8,5
8,5

SAMTALS

8,0

 

 

Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑