Greinar

Birt þann 5. desember, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

0

Saga leiks: Super Mario Bros. 2

Allir tölvuleikjaunnendur ættu að þekkja Super Mario leikina. Fyrsti leikurinn með bræðrunum Mario og Luigi, Mario Bros., kom út árið 1983, og því kemur þessi víðfræga tölvuleikjasería til með að fagna 30 ára afmæli sínu í júní á næsta ári. Mario Bros. náði þó aldrei miklum vinsældum. Það var ekki fyrr en Super Mario Bros. kom út í september árið 1985 sem serían tók á flug, en sá leikur er mest seldi Mario leikurinn, og í þokkabót einn af mest seldu tölvuleikjum allra tíma, með rúmlega 40 milljón eintök seld á heimsvísu.

Super Mario Bros. var vinsælasti tölvuleikur síns tíma. Leikurinn má að miklu leyti þakka vinsældir sínar þeirri staðreynd að hann fylgdi með NES tölvunni þegar hún kom á bandaríska markaðinn, og því var Super Mario Bros. í flestum tilvikum fyrsti Nintendo leikurinn sem vestrænir neytendur spiluðu. Fyrir utan það var leikurinn sjálfur virkilega góður. Gagnrýnendur lofuðu leikinn fyrir góða stjórnun, frumlega borðaskipun, litríkt útlit og umfram allt var leikurinn í alla aðra staði vel hannaður. Því kom það mörgum á óvart vestan hafs, að með eins vinsælan leik og Super Mario Bros., hafi ekki komið út framhald fyrir leikinn fyrr en þremur árum síðar, þegar Super Mario Bros. 2 kom út í Bandaríkjunum í september 1988. Sat Nintendo virkilega auðum höndum í þrjú ár án þess að freistast til að henda út framhaldi fyrr? Stutta svarið er nei. Langa svarið er aðeins flóknara.

Super Mario Bros. 2 kom út í Japan 3. maí 1986, aðeins átta mánuðum á eftir fyrirrennari sínum. Af hverju beið þá bandaríski armur Nintendo í rúm tvö ár með að gefa leikinn út fyrir vestrænan markað? Málið er að japanski Super Mario Bros. 2, og vestræni Super Mario Bros. 2, eru ekki sami leikurinn. Japanski Super Mario Bros. 2 kom út fyrir Famicom Disk System viðbótina og er alls ekki ósvipaður fyrri leiknum, en hann notast í raun við sömu leikjavél. Leikurinn var gífurlega vinsæll í Japan og seldist í 2.5 milljón eintökum, og er þar með mest seldi Disk System leikurinn. Leikurinn bauð ekki upp á tvíspilun líkt og fyrri leikurinn, heldur gat aðeins einn spilari spilað, en hann gat valið á milli Mario og Luigi sem höfðu örlítið breytta spilunareiginleika frá fyrri leiknum. Leikurinn var einnig gerður erfiðari. Óvinirnir voru til að mynda mun ágengari og sveppirnir sem höfðu framan af verið tengdir við aukalíf voru stundum eitraðir og drápu spilarann. Leikurinn var í raun það erfiður að Nintendo í Bandaríkjunum þorðu ekki að gefa hann út, þar sem hinn vestræni heimur hafði ekki eins mikinn áhuga og Japanir á háu erfiðleikastigi tölvuleikja. Bandaríski markaðurinn þurfti engu að síður að fá framhald af vinsælasta leik allra tíma, og því var ákveðið að búa til annan leik fyrir þann markað.

Þar með hefst saga Super Mario Bros. 2 sem við öll þekkjum og spiluðum á gömlu gráu Nintendo brauðristunum okkar. Nintendo í Japan voru þegar byrjaðir að hanna Super Mario Bros. 3, og því vildu þeir ekki beina of mikið af sínum kröftum í að búa til glænýjan Super Mario Bros. 2 leik. Þá var gripið til þess ráðs að taka leik sem hafði ekki komið út í Bandaríkjunum, en var þegar tilbúinn og útgefinn í Japan, og breyta honum í bandaríska Super Mario Bros. 2. Leikurinn sem varð fyrir valinu var Yume Kōjō: Doki Doki Panic (Lauslega þýtt; Draumaverksmiðjan: Hjartþrungin óráðstía).

Yume Kōjō: Doki Doki Panic fjallar í stuttu máli um fjögurra manna arabíska fjölskyldu sem ferðast yfir í hliðstæðan heim til að bjarga börnum í neyð. Frumgerðin af leiknum var hugsuð sem samspilunarleikur, þar sem spilararnir gætu hent hvor öðrum um til að leysa þrautir og komast í gegnum borð. Þessi hugmynd þótti of háfleyg árið 1987, og því sat frumgerðin lengi ónotuð í gagnabönkum Nintendo þangað til Yume Kōjō: Doki Doki Panic var gerður út frá auglýsingasamstarfsverkefni milli Nintendo og japönsku Fuji sjónvarpsstöðvarinnar, en persónurnar í leiknum er byggðar á lukkudýrum Fuji. Leikurinn var gefinn út fyrir Famicom Disk System viðbótina, og hafði þar af leiðandi ekki verið gefinn út í Bandaríkjunum. Leikurinn þótti því tilvalinn til þess að breyta í Mario leik. Arabísku fjölskyldunni var skipt út fyrir Mario, Luigi, Toad og Peach prinsessu, en að öðru leyti var nánast engu breytt. Leikheimurinn þótti þegar frekar Mariolegur og tónlistin í leiknum var hönnuð af sama tónlistarmanni og hafði séð um fyrri Marioleiki. Eftir að sögusenum hafði verið bætt við og aðrar örsmáar pixlabreytingar gerðar, var leikurinn talinn tilbúinn fyrir útgáfu á bandarískan markað.

Super Mario Bros. 2 kom loks út í Bandaríkjunum þann 1. september árið 1988. Til gamans má geta að aðeins mánuði seinna kom Super Mario Bros. 3 út í Japan. Leikurinn seldist í 10 milljón eintökum og var þá þriðji mest seldi NES leikur síns tíma. Leikurinn fékk þar fyrir utan ágætis dóma, þrátt fyrir að vera gerólíkur fyrirrennara sínum. Sumir kvörtuðu þó undan því að þeim fyndist þeir ekki vera að spila Marioleik heldur eitthvað allt annað, en þessir sömu einstaklingar áttuðu sig ekki á því fyrr en mörgum árum seinna að þeir höfðu að vissu leyti haft rétt fyrir sér. Super Mario Bros. 2 er í rauninni Marioleikurinn sem átti aldrei að verða til, en varð engu að síður einn af mest mótandi leikjunum í Marioseríunni. Í leiknum kom margt fram sem átti eftir að loða við leikjaseríuna framan af. Til að mynda gátu persónur fyrst haldið á hlutum í þessum leik. Einnig kom í ljós að Luigi var hærri en Mario og fjölmargir af nýju óvinunum áttu eftir að sjást í komandi leikjum.

Bæði japanska og bandaríska útgáfan af Super Mario Bros. 2 voru að lokum gefnar út í þeim löndum sem þær áttu áður helst ekki að sjást í. Bandaríska útgáfan var fyrri til og var gefin út í Japan sem Super Mario USA fyrir Famicom tölvuna árið 1992. Japanska útgáfan sem hafði áður þótt of erfið fyrir bandarískan markað, kom út fyrir Super Nintendo tölvuna árið 1993 í leikjasafninu Super Mario Allstars, en þar hét leikurinn Super Mario Bros: The Lost Levels til að koma í veg fyrir allan rugling meðal bandarískra spilara.

Engu að síður eru báðar útgáfurnar af Super Mario Bros. 2 (og Yume Kōjō: Doki Doki Panic fyrir sitt leyti) frábærir leikir. Ef þið hafið af einhverri ástæðu ekki enn fengið færi á spila þessa klassísku leiki, leitið þá þá uppi og takið smá syrpu á A og B tökkunum.

 

Höfundur er Kristinn Ólafur Smárason,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑