Árið 2022 hætti Gzero starfsemi eftir að hafa boðið íslenskum spilurum upp á eftirminnilega tölvuleikjaaðstöðu í um tuttugu ár. Húsnæði þeirra á Grensás fór á sölu sama ár og lítil hreyfing hefur verið þar síðan Gzero hætti. Um þessar mundir er þó að færast aftur líf í staðinn þar sem VR Worlds mun opna föstudaginn 5. desember kl. 12:00.
Um er að ræða nýjan sýndarveruleikasal sem býður upp á sýndarveruleikaupplifanir sem finnast ekki annarsstaðar á Íslandi.
Um er að ræða nýjan sýndarveruleikasal sem býður upp á sýndarveruleikaupplifanir sem finnast ekki annarsstaðar á Íslandi. Meðal þess sem í boði verður er tæki sem heitir Super 360 Flight þar sem spilarar setjast í sérstakt tæki og setja á sig sýndarveruleikabúnað. Tækið skynjar hreyfingar og hristingar í sýndarveruleikanum og bregst við því sem er að gerast í leikjaheiminum með því að hristast og færast til og frá eins og sést í meðfylgjandi kynningarmyndbandi.
VR Paraglider er annað tæki sem virkar á svipaðan hátt. Þar setjast spilarar í sérstök sæti en ólíkt Super 360 Flight þá hreyfist VR Paraglider fyrst og fremst upp og niður og sýnir valdar upplifanir í 360 gráðu sýndarveruleikaupplifun. Fleiri leikir verða í boði í VR Worlds, eins og til dæmis mótórhjólaleikur, skotleikur og samvinnuleik þar sem allt að fjórir geta spilað saman. Einnig verða nokkrir hefðbundnari spilarkassar á svæðinu sem eru ekki tengdir við sýndarveruleika.
VR Worlds býður upp á sérstakt barnasvæði þar sem hver leikur kostar 500 kr. leikur per spilara. Á almenna VR svæðinu kostar hver leikur 1.000 kr. per spilara. Hægt er að leigja sérstakan VR-völl sem kostar 7.500 kr. per klukkustund þar sem nokkrir geta spilað saman á sama tíma. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu VR Worlds.
Á heimasíðu VR Worlds kemur fram að lágmarksaldur sé ýmist 6 ára eða 8 ára í tækin og að einhver tæki séu æskileg eldri börnum sem hafa náð 10-12 ára aldri. Við hjá Nörd Norðursins erum ekki með upplýsingar um hvaða sýndarveruleikabúnað (gleraugu) VR Worlds notar en fyrirspurn hefur verið send á VR Worlds og verður þessi frétt uppfærð þegar svar hefur borist. Þess ber að geta að þá er lágmarksaldur á Meta Quest 3 sýndarveruleikabúnaðinum 10 ára (var áður 13 ára), PSVR2 fyrir PlayStation 5 er með 12 ára lágmarksaldur og 13 ára lágmarksaldur er fyrir Apple Vision Pro. Börn geta verið viðkvæm og alls ekki æskilegt að nota sýndarveruleika lengi í einu. Mikilvægt er að foreldrar og forráðarmenn kynni sér almenn notkunarviðmið fyrir sýndarveruleika.
@vrworld.is Við hlökkum til að sjá ykkur a föstudaginn 5 desember klukkan 12:00💗 📍Grensásvegur 16 #reykjavik #vrworld ♬ original sound – VR world
Mynd: VRWorlds á Instagram
