Leikjarýni

Birt þann 25. október, 2023 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

0

Umbrotatímar á bronsöld

Umbrotatímar á bronsöld Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: TW: Pharoah er að mestu fínasti leikur sem hefði mátt vera þó dýpri. 

3

Valdatafl


Í kringum árið 1200 f. kr á bronsöldinni þá er Egyptaland í vanda. Faraóinn Merneptah þarf að velja hver mun taka við af honum og leiða landið í gegnum þá erfiðu tíma sem fram undan eru.

Þeir sem berjast um að taka við af honum eru:

  • Ramesses III eða „stríðs Faraóinn“, er einn af bestu herforingjum Egyptalands og vill skáka Ramesses II nafna sínum á alla vegu.
  • Seti er útnefndur arftaki Merneptah. Verst að hann er bilaður og miskunnarlaus og sér lítinn tilgang í pólitískum leikjum.
  • Tausret eiginkona Seti sem er jafn metnaðarfull og hann ef ekki meira. Hún er oft vanmetinn af öðrum, sérstaklega karlmönnum, sem reynist þeim oft banvænt.·       
  • Amenmesse er sagður vera sonur Merneptah og hefur verið útlægur til suðurhluta landsins. Hann stefnir á að nota auðlindir Kush svæðisins til að endurheimta það sem hann tapaði.

Síðan hefurðu leiðtogana Irsu og Bay sem leiða fylkingar Canaanite ásamt Suppiluliuma og Kurunta sem leiða sundraðar fylkingar Hittitie.

Í upphafi Total War: Pharoah er hægt að velja á milli þessara leiðtoga og hafa þeir hina ýmsu kosti og galla

Það er hægt að velja á milli tveggja „konunglegra arfleiða“ til að stefna að, Faraóa Egyptalands eða „Great King“ Hittie. Merneptah byrjar leikinn sem Faraó en um 1202 f.Kr. þá deyr hann sem getur leitt til borgarastyrjaldar þar sem ýmsar fylkingar berjast allar um völdin á svæðinu. Suppiluliuma byrjar sem konungur Hitties og getur lent í að vera ógnað af fylkingum hjá sér sem getur einnig leitt til styrjaldar

Lok bronsaldarinnar var róstusamt tímabil í sögu Egyptalands og annarra ríkja í heiminum og var mikið um átök á milli þjóðflokka  og annarra sem ásældust auðlindir þess. Það er ekki nóg að verða Faraó eða konungur svæðisins, leikurinn er ekki búinn þá. Það opnast upp fyrir nýja möguleika, hæfileika og frekari uppbyggingu veldis þíns. En á sama tíma munu ófáir andstæðingar ógna þér.

Stóri hlutur Total War: Pharoah er í lokin þegar innrás Sjávarfólksins byrjar. Þetta eru tveir kaflar sem verða bara erfiðari þegar líður á og siðmenningin í kringum þig er að byrja að falla. Herirnir vaxa í stærð og styrk þegar líður á. Að auki við þessa erfiðu hættu eru ótal óvinir frá svæðum eins og Líbíu í vestri og Anatolíu í Norðrinu sem herja á landið reglulega.

Fyrir þá sem þekkja ekki til Total War herkænskuleikja Creative Assembly fyrirtækisins snúast þeir um að velja sér land eða leiðtoga og byggja upp svæði sitt eða ríki og ná völdum á nærliggjandi svæðum og löndum. Þetta er gert á tvenna vegu, með að byggja um borgir og byggingar, safna herjum, stjórna herjum þínum á stóru landakorti. Hin leiðin er þegar að herir þínir og andstæðinganna mætast á vígvellinum eða í umsátri um borg. Þá er hægt að fara inn í þær orrustur og stjórna þeim eins og í RTS herkænskuleik. Góður herforingi getur gert gæfumuninn og unnið orrustur sem líta út fyrir að vera ómögulegar að vinna. Slæmur getur leitt til þess að sandar Egyptalands muni seint losna við allt blóðið sem herir þínir skilja eftir sig í ósigri.

Ég veit um suma leikmenn Total War leikjanna sem hafa meira gaman að öðru hvorum hlutum leiksins á meðan flestir hafa gaman af bæði. Ég skal viðurkenna að ég hef ávallt haft mest gaman af því að skipuleggja allt á korti leikjanna og byggja upp veldi mitt og skipuleggja og láta síðan herforingja mína berjast orrustur leikjanna. Í Empire: Total War eyddi ég miklum tíma að byggja upp Danaveldi og undir lokin náði það yfir alla Evrópu og var með nýlendur bæði í N-Ameríku og Indlandi.

Creative Assembly Sofia er sá hluti CA sem býr til Total War: Pharaoh en hingað til hefur fyrirtækið unnið að aukaefni fyrir Total War: Rome II og síðan árið 2020 bjuggu þeir til Total War Saga: Troy leikinn.

Nýtt í seríunni þetta árið eru stöður (stansar) sem herdeildir geta tekið. Þær geta myndað spjóta- eða skjaldvegg í  kyrrstöðu. Brynjur hermanna munu skemmast þegar líður á og gerir herina viðkvæmari fyrir árásum óvina. Umhverfið mun einnig hafa áhrif; þrumuveður, eldur sem getur breiðst út og eyðimerkur sem gera ferðalög erfiðari er allt eitthvað sem upprennandi herforingjar þurfa að kljást við. Hægt er síðar að fá til liðs við sig hersveitir sem eru betur undirbúnar undir slíkar aðstæður. Umsátur um borgir hefur fengið uppfærslu og þarf nú að ná þremur sigurpunktum til að leggja undir sig borgina en hver punktur gefur vissa bónusa þegar barist er.

Hægt er að tilbiðja hina ýmsu guði og goð Egyptalands og byggja þeim hin ýmsu musteri sem geta gefið þér bónusa í bardögum leiksins. Það er síðan baktjaldamakk í kringum völdin í landinu og eru margar leiðir að koma andstæðingum sínum fyrir kattarnef án þess að reka rýtinginn beint í hjarta þeirra á meðan þú vinnur þig upp metorðastigann.

Ef að leikmenn eru enn áhugasamir eftir að hafa sökkt sér í sögu og fall Faraóanna þá bíður fjölspilun leiksins eftir þeim. Hægt er að spila í gegnum leikinn í co-op með vinum eða á móti öðrum leikmönnum og sjá hver er besti herforinginn í raun og veru. Hægt er að vera átta leikmenn mest eða fjórir á móti fjórum og auðvelt er að setja upp leiki á netinu.

Ýmsir hlutar Total War leikjanna hafa verið straumlínulagaðir aðeins og það er ekkert af fantasíu hlutum Total War: Warhammer leikjanna í boði hérna. Það er gríðarlega mikið hérna að kanna og ég gæti léttilega skrifað langan kafla um hvern og einn hluta leiksins en ég mun hlífa ykkur við það. Það er gáfulegt að prufa mismunandi leiðtoga og sjá hvað hentar ykkur best, leikurinn er fínn með að taka fram hvaða hlutar eru erfiðari en aðrir og nóg er um kennsluparta í leiknum, jafnvel fyrir eldri leikmenn sem hafa spilað í mörg ár.

Leikurinn er engin bylting fyrir seríuna en er góð skemmtun og býður upp á nóg að gera í honum, það hefði verið gaman að sjá meira eins og í Crusader Kings 3 með baktjaldamakk leiksins en sá leikur er frábær upp á slíkt. Leikurinn er með mikla vídd en er pínu grunnur á sama tíma. Þetta tímabil í sögunni býður upp á svo margt að það er svekkjandi að sjá ekki meira gert með það.

Leikurinn keyrði vel á i7 9700K vélinni minni með Nvidia Geforce 3080Ti og 32GB innra minni, nema kannski helst í lokin þegar innrásir Sea People byrjuðu. Það var pínu svekkjandi að sjá SEGA lauma inn Denuvo sjóræningjavörninni rétt eftir að fyrstu dómar leiksins voru komnir út. Þetta er því miður eitthvað sem margir útgefendur gera í dag.

Gervigreind hermanna er stundum slæm í orrustuhlutum leiksins, það er sumt sem manni finnst ekki hafa verið lagað í þessari seríu í mörg ár og maður er að sjá sömu hlutina gerast ár eftir ár þegar spilað er.

Þrátt fyrir vissa vankanta og skort á smá dýpt þá er Total War: Pharoah góð skemmtun og skemmtileg viðbót í Total War seríuna. Vonandi munu SEGA og Creative Assembly vera ekki of grófir í peningaplokki með DLC (aukaefni) og öðru slíku eins og fólki hefur fundist þeirra gera með Warhammer leikina síðustu árin.

Ég er enn að bíða eftir Medieval Total War 3 eða Empire Total War 2 frá Creative Assembly og vonandi er það mögulegt á næstu árum, sérstaklega þar sem fyrirtækið hefur vaxið mikið síðustu árin og er með þó nokkur leikjastúdíó undir sínum hatti í dag.

Eintak var í boði útgefanda

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑