Greinar

Birt þann 15. mars, 2023 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

PS VR2 draumur í sýndarveruleika

PlayStation VR2 kom út fyrir stuttu og er þetta nýjasta sýndarveruleika tæki Sony eftir að þeir gáfu út PS VR árið 2016 fyrir PlayStation 4. Það tæki var mjög vel heppnað skref fyrirtækisins í sýndarveruleika heiminum þar sem risar eins og Facebook, Google og Valve hafa hingað til verið fremstir í flokki.

PS VR seldist í um 5 milljónum eintaka sem er virkilega góður árangur fyrir slíka græju. Þarna var komin VR tæki fyrir almenning þar sem þú þurftir ekki rándýra tölvu og alls konar aukadót. Þetta var þó langt frá því að vera gallalaust og var mjög háð því að Sony ákvað að endurnýta PS Move hreyfipinnana frá PlayStation 3 sem stjórnunartæki í PS VR á PS4 ásamt því að þurfa myndavél til að skynja hreyfingar leikmanna. Það gat stundum verið strembið að fá allt til að virka vel saman þrátt fyrir það komu út margir góðir leikir fyrir PS VR.

Leikir eins og Doom 3, The Elder Scrolls V: Skyrim, Resident Evil 7, No Man‘s Sky, Hitman 3, Moss, Star Wars: Squadrons, Beat Saber, Astro Bot Rescue Mission, Rez, Superhot, Until Dawn: Rush of Blood voru bara hluti af því sem var í boði á PS VR.

PS VR 2 og uppfærslur frá PS VR

Sumir þessa leikja hafa nú fengið fríar eða keyptar uppfærslur til að virka með PS VR2 á PlayStation 5. Því miður er ekki hægt að spila leiki sem fólk á fyrir PS VR á PS VR2 en það hefði verið flott ef hægt væri að spila þá í einhverskonar „back-compatibility“ stillingu eins og er hægt með PS4 leiki á PS5.

Hérna fyrir neðan er stutt myndband sem fer aðeins í gegnum hvað er í boði í PS VR2 pakkanum þegar hann er opnaður.

Það fylgja með tvær VR2 Sense fjarstýringar sem eru margfalt betri en gömlu PS Move pinnarnir. Þær geta skynjað vissar fingrahreyfingar leikmanna ásamt því að vita hvar höndin þín er staðsett. Þetta leyfir þér að komast í en betri snertingu við þessar sýndarheima sem PS VR2 býður upp á. VR2 Sense styður helstu möguleika DualSense fjarstýringarnar svo er virkilega gaman að spila Horizon Call of the Mountain og finna fyrir mismunandi gripi í hendinni þegar þú ert að nota vopn leiksins eða klifra upp fjall. Einnig er auðvelt að gera alls konar kjánalegar handahreyfingar og ýta höndunum í átt að fólki og bregst það við í þeim leik skemmtilega og horfir mjög skringilega á þig eftir á.

Það virkar mjög vel hvernig VR2 Sense skiptir tökkunum á milli handanna. Þetta er í raun eins og þú værir með DualSense fjarstýringu sem væri búin að taka í sundur. Fyrir mínar sakir er nýja fjarstýringin einn besti hlutinn við PS VR2 og gerir upplifunina virkilega góða, ekki sakar að þær eru frekar léttar og eru með lítið band til að festa höndina við svo að þú sért ekki óvart að kasta einhverju í átt að fólki eða sjónvarpinu. Það eru síðan vissir leikir sem notast við hefðbundna fjarstýringu eins og Gran Turismo 7 en í með þeim leik er einnig hægt að nota stýri sem ætti að gera upplifunina virkilega góða.

Ólíkt eldri kynslóð þá þarf enga myndavél til að nota PS VR2. Höfuðsettið er með innbyggðar myndavélar að innan og utan. Þær ytri fylgjast með handahreyfingum leikmanna og hvar VR2 Sense fjarstýringarnar eru með innrauðum ljósum sem eru til að staðsetja þig og hreyfingar í sýndarumhverfi leikjanna.

Það er pínu skrítið fyrst þegar þú kveikir á PS VR2 að höfuðsettið víbrar, það er nefnilega lítill mótor í því sem titrar stundum í leikjum til að gera upplifun þeirra enn meiri. Það er síðan takkar að ofan til að breyta hvernig OLED linsurnar eru staðsettar út frá augum fólks og stilling sem leyfir þér að færa frampart VR2 fram eða aftur að andliti þínu. Það er síðan gúmmí að neðan til að hindra að ljós komi í sjónsvið spilarans.

Neðan á PS VR2 er power takki í miðjunni og vinstra megin er hljóðnemi til að nota í spjalli í leikjum. Hægra megin er stillingartakki sem er hægt að ýta á til að sjá umhverfið í kringum þig án þess að þurfa að rífa af sér settið t.d. ef þú vilt fá þér að drekka, svara í símann eða annað. Þetta er í svarthvítu, en það er fljótt að venjast og kemur að góðum notum að geta ýtt á einn takka til að sjá í kringum sig eða svara fólki nálægt manni. Það er innbyggð vifta til að kæla allt saman og minnka að það myndist móða.

Það fylgja lítil stereó heyrnartól sem er hægt að smella við PS VR2 og setja síðan í lítið hólf á hliðunum þegar þú ert ekki að nota þau. Auðvelt er að tengja heyrnartól sem eru með AUX tengi og fá enn betri hljómgæði.

Ég notaði mikið Pulse 3D heyrnartólin frá Sony og komu þau mjög vel út, eini gallinn er að það er stundum smá bras að fá þetta allt til að passa vel á hausnum á manni en þegar þetta er allt komið þá dregur þetta mann en meira inn í upplifunina.

Hvað er svo PS VR2?

PS VR2 notast við einn USB-C kapal sem er um 4,5 m að lengd og sæmilega þykkur og sterkbyggður. Það er hægt að fjarlægja hann ef þarf að skipta honum út en það krefst reyndar smá vinnu og þekkingu.

OLED linsurnar eru með 2000×2040 upplausn per auga og styður PS VR2 90-120hz endurnýjunartíðni ef leikirnir þurfa þess mt.t.. rammahraða. Sjónsviðið er 110 gráður sem er framför frá eldra PS VR. Linsurnar styðja við HDR litatæknina.

Þegar er spilað PS VR2 þá geta aðrir fylgst með á sjónvarps- eða tölvuskjá í gegnum Social Screen eins og með PS VR. Þetta er 2D upplifun en en að öðru leyti sér maður hvað  er í gangi í leiknum. Hægt er að spila leiki sem eru ekki með VR stuðning í Cinematic Mode og með því þá eru leikmenn með risastóran flatan skjá fyrir framan sig sem leikurinn er „varpaður“ á. Hægt er að stilla stærð hans til að henta hverjum og einum.

Við spilun þá eru í boði þrjár leiðir; að sitja, standa og Roomscale. Það síðastnefnda notast við 2m x 2m umhverfi sem er hægt að afmarka í hugbúnaði PS5 og leyfir mesta frelsið í hreyfingum og spilun. Gott er að færa flest allt sem er hægt að reka sig í og vara fjölskylduna og gæludýrin hvað er að fara að gerast.

PS VR2 leikir og spilun

Nokkrir leikir til að skoða nánar

Það er skemmtileg flóra að leikjum í boði sem hentar flestum spilurum.

DEMEO er flottur hlutverkaleikur sem minnir á Dungeons and Dragons borðspilun heima með vinum og hægt er að spila hann í VR eða hefðbundið og styður hann spilun við PC.
Kayak VR er flottur kajak leikur þar sem leikmenn róa í í fallegu umhverfi og upplifa rólega stemningu og sjá náttúru og dýralíf.
Star Wars: Tales from the Galaxy‘s Edge er uppfærð útgáfa af leik sem kom út fyrir önnur VR tæki. Leikmenn fara í spennandi ævintýri og fá að skjóta úr geislabyssum og auðvitað að sveifla geislasverði.
Moss Book I, II sætur ævintýra- og þrautaleikur þar sem þú ert að aðstoða sæta mús að bjarga frænda sínum frá illum eldspúandi snáki.
CITIES VR: Enhanced Edition leyfir þér að hanna draumaborgina í sýndarveruleika.
PAVLOV og Pistol Whip eru tveir spennandi skot- og hasarleikir. Pavlov er fjölspilunarleikur sem gerir út á nákvæmni vopna leiksins.

Leikir sem eru á leiðinni: Beat Saber, The Walking Dead: Saints & Sinners – Chapter 2, Before your Eyes, Green Hell VR, Journey to Foundation,  Resident Evil 4 endurgerðin og Dark Pictures: Switchback VR.

Spilun og umfjöllum um PS VR2

Hérna fyrir neðan er myndband sem ég bjó til sem sýnir PS VR2, fer stuttlega í gegnum það helsta og sýnir nokkra leiki fyrir þá sem vilja sjá þetta nánar og kannski fá tilfinninguna fyrir þessu aðeins betur.

Samantekt

Ég hef spilað í gegnum ýmsa leiki á meðan ég prófaði PS VR2 græjuna þ.á.m. nokkra PS VR leiki eins og REZ og Thumper sem ég verslaði PS VR2 uppfærslu, leiki eins og Resident Evil: Village, Gran Turismo 7 og No Man‘s Sky sem fengu fríar uppfærslur ásamt því að spila leiki eins og Horizon Call of the Mountain og Job Simulator sem ég verslaði, einnig prófaði ég helstu demóin sem eru í boði í PSN búðinni.

Það verður að segjast að PS VR2 er hrikalega flott græja frá Sony og augljóst að þeir hafa lært mikið á milli kynslóða. Það er ágætis úrval af smá og stærri leikjum, eins og er, í boði fyrir fólk að kíkja á. Hvað framtíðin ber í skauti sér verður spennandi að sjá, svona tæki standa og falla með stuðning leikjaframleiðanda og útgefanda og vonar maður að Sony muni styðja vel við þessa nýju græju og muni koma með spennandi leiki síðan úr þeim ótal seríum sem þeir eiga. Enn betra væri ef þeir taki upp veskið og fái stór nöfn á indie markaðnum til liðs við sig.

Ef ég fæ síðan drauma PS VR2 leik minn Half-Life: Alyx gefinn út þá held að ég muni hoppa mjög hátt af gleði. Vonandi ná Sony og Valve samkomulagi um að gefa hann út hérna þar sem hann er eins og er eingöngu spilanlegur Steam VR.

Hægt er að versla PS VR2 pakkann í helstu raftækja- og afþreyingarverslunum landsins og kostar venjulegi pakkinn rétt um 110 þúsund krónur og pakkinn með Horizon: Call of the Mountain á um 119 þús. Þetta er auðvitað ekki klink en til samanburðar þá kostar 128GB útgáfa Meta Quest 2 (allur pakkinn) um 85 þúsund. HTC Vive og önnur eru töluvert dýrari ásamt því að þurfa kraftmikla PC leikjavél til að keyra leikina á.

Flest bendir til þess að Meta Quest 3 verði líka töluvert dýrara þar sem Meta (Facebook), stefnir á að höfða til harðkjarna VR spilara og verða með talsvert kraftmeiri tæki en áður. Það er síðan spurning hvernig fyrirtækin munu bregðast við nýjasta útspili Sony í VR bransanum.

Ég er mjög sáttur við PlayStation VR2 og er spenntur fyrir hvað er framundan, þetta er flott tæki sem gerir aðgang að VR (sýndarveruleika) mjög auðveldan með einni snúru í PS5 og vel hönnuðu höfuðsetti og fjarstýringum.

Nú er bara að vona að Sony standi sig að koma með spennandi leiki.

Við viljum þakka Senu á innilega fyrir afnotin af PS VR2 til að fjalla um.

Tengill á PlayStation.is síðuna og umfjöllun um PS VR2

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑