Greinar

Birt þann 13. október, 2020 | Höfundur: Nörd Norðursins

Spilaði sig í gegnum ævintýraheim Final Fantasy VII

Haukur Óskar Þorgeirsson, tölvuleikjaspilari, ákvað að upplifa ævintýraheim Final Fantasy VII frá öllum mögulegum hliðum með því að spila leikina, horfa á myndirnar og lesa bækurnar. Haukur deildi upplifun sinni með meðlimum Facebook-hópsins Tölvuleikir – spjall fyrir alla og fengum við leyfi til að endurbirta færsluna í heild sinni hér á heimasíðu Nörd Norðursins.


Haukur Óskar Þorgeirsson skrifar:

Lífsstraumsdraumurinn – EÐA – Hvernig ég spilaði allt Final Fantasy VII…

ALLT.
FINAL.
FANTASY.
VII.

Final Fantasy VII hefur sökum mikilla vinsælda getið af sér fjöldan allan af spin-off leikjum, teiknimyndum, og jafnvel bókum.

Þá er ég loksins búinn að ljúka 5 mánaða verkefni þar sem ég neytti hverrar einnar og einustu sögu tengdri Final Fantasy VII. Meðfylgjandi er tímalína sem sýnir ferlið. Mig langaði til að setja endapunkt við þetta með því að skrifa niður nokkrar yfirborðspælingar hér.

Þetta byrjaði allt á því að ég spilaði og mér líkaði við demoið fyrir FFVII Remake (skráði ekki niður hvenær það var). Ég hafði aldrei spilað FFVII áður, en hann hefur verið á (allt of löngum) listanum mínum (https://hawkuro.github.io) í vel yfir áratug. Ég var 5 ára þegar hann kom fyrst út þannig að ég missti svoldið af þeirri lest, en sem áralangur aðdáandi RPG tölvuleikja var leikurinn sem endur-popularize-aði stefnuna í vestrinu og bylti sögufrásagnarformi tölvuleikja ansi stórt gat í spilasögunni hjá mér.

Ég ákvað að ég myndi spila FFVII Remake, en stökk þó ekki á hann um leið og hann kom út þar sem ég var að klára annan leik. Ég skoðaði samt sem áður nokkur myndbönd um leikinn þar sem ég var forvitinn að sjá hvað fólk hafði að segja um hann og það var búið að spoila helstu sögupunktunum í þeim upprunalega fyrir mér í gegn um árin. Það sem kom mér á óvart varðandi Remake er (vague spoiler alert) að hann inniheldur sögulínu aukalega sem byggir að miklu leyti á upplýsingum sem koma fram mun síðar í upprunalega leiknum og jafnvel hinu svokallaða „Compilation of FFVII“.

Þá var aðeins eitt í spilinu fyrir mann sem átti von á sínu fyrsta barni í fullri vinnu í miðjum heimsfaraldri:

Neyta allra sagnanna í Final Fantasy VII bálknum.

(Ókei, ég viðurkenni hér að upprunalega planið var ekki að neyta (orð sem ég nota vegna þess að það nær yfir að lesa, spila og horfa) allra sagnanna. Í fyrstu ætlaði ég bara að spila upprunalega leikinn, Crisis Core, og horfa á Advent Children. En á sjálfsögðu vatt það upp á sig með tímanum, FOMO, og andlegum togkrafti completionisma.)

Þar með talið eru upprunalegi leikurinn, Compilation of Final Fantasy VII (safn af leikjum, bókum, og kvikmyndum sem segja sögur sem gerast fyrir og eftir upprunalega leikinn), og að lokum hinn glænýi Final Fantasy VII Remake.

FINAL FANTASY VII

Ég þurfti að sjálfsögðu að byrja á byrjuninni með upprunalega leiknum. Eða allavega semi-upprunalega. Ég spilaði hann á Switch-inum, að hluta til út af færanleika tölvunnar, og að hluta til út af auka fítusunum. 150 saveslottin, 3x hraði og engin random encounters af og til komu sér vel fyrir manneskju í flýti sem vildi ná að spila eins mikið af leiknum og hann gat.

Þetta var, eins og fyrr var getið, fyrsta skiptið sem ég hef spilað Final Fantasy VII. Sagan og bardagakerfið eru enn þann dag í dag ansi góð (þegar þú nærð að klóra þig fram úr dræmri þýðingunni). Það er ljóst að sögunni hefur verið tjaslað saman úr að miklu leiti ótengdum hugmyndum, en leikjahöfundar láta það virka í heildina og ná að koma inn nokkrum mjög sterkum punktum (sem hefðu án efa lent harðar hefði ég ekki vitað af þeim fyrirfram). Materia kerfið er algjör snilld, sérstaklega í leik þar sem félagar spilarans hverfa úr og bætast við hópinn í gegn um leikinn.

Brautryðjandi grafíkin (á útgáfutíma) hefur elst talsvert verr. Fólk var ennþá svoldið að læra að nota þrívíddargrafík yfir höfuð á þessum tíma og þetta er solid snemmbúin tilraun, en leikir hafa þróast ansi langt síðan þá. Ég hef að sjálfsögðu enga nostalgíu í garð þessa leiks þannig að ég lít hann öðrum (ekki endilega neitt betri nota bene, bara öðrum) augum en einhver sem var að spila einn af sínum fyrstu þrívíddarleikjum við lok tíunada áratugarins, þannig að á meðan ég skil vel hvers vegna hann fól í sér umbyltingu á sínum tíma þá var hann ekki að heilla mig í grafíkdeildinni með þrjá mismunandi listastíla í klessu og síður en svo fáguð módel.

LAST ORDER: FINAL FANTASY VII

Næst á dagskrá ákvað ég að kíkja á Last Order, sem er anime stuttmynd framleidd af hinu vel þekkta stúdíói Madhouse (Trigun, Death Note, One Punch Man S1 og margt fleira). Þetta voru eftir á að hyggja ákveðin mistök þar sem senurnar úr FFVII sem eru endurgerðar hér vitna líka að miklu leyti í Crisis Core og Before Crisis, þannig að ég ætti að endurhorfa á þetta núna til að ná öllu. Annars var mjög skemmtilegt að sjá þessar senur endurgerðar í anime formi.

FINAL FANTASY VII: ADVENT CHILDREN COMPLETE

Þetta var eini hlutinn af þessum pakka sem ég hafði séð áður, þar sem fyrir áratug eða svo horfði ég á þessa mynd án þess að hafa spilað neitt af leikjunum og það voru… mistök. Það voru jafnvel mistök að horfa á Complete útgáfuna á þessum tímapunkti í rununni hér, þar sem það vantar heilan helling af samhengi sem kemur aðeins fram í bókinni On the Way to a Smile. Þannig að þetta á líka skilið enduráhorf nú þegar ég er búinn með restina. Hasarsenurnar (sem eru megnið af myndinni) eru snilld tho.

CRISIS CORE: FINAL FANTASY VII

Þetta er sennilega uppáhaldsleikurinn minn í seríunni, og sá eini sem ég kláraði 100% (kláraði samt nb. söguna í öllum hinum). Bardagakerfið er ákveðin prótótýpa fyrir kerfið í Remake, en mér persónulega líkaði betur við hægara pace-ið á bardögunum í CC og það hversu mikið betur er hægt að vinna gegn erfiðleikastiginu með þekkingu á kerfunum og góðum undirbúningi.

Ég mæli eindregið með þessum leik þó það sé því miður ansi erfitt að spila hann löglega árið 2020. Þannig er mál með vexti að ein af aðalpersónunum í leiknum er Genesis, sem er byggður á japönsku poppstjörnunni Gackt. Talið er að ástæða þess að þessi leikur hefur ekki verið endurútgefinn síðan hann kom út á PSP (og það bara á UMD disk) sé að Squenix hafi ekki lengur rétt á að nota ímynd hans.

Þó eru fleiri leiðir til að spila hann sem ég fer ekki frekar út í hér. Sjálfur spilaði ég hann á PSP Go-inum mínum.

DIRGE OF CERBERUS: FINAL FANTASY VII

Þessi hluti af Compilation-inu er að mínu mati sá slakasti. Sagan er sæmilega áhugaverð, á þessum tímapunkti erum við komin þrjú ár eftir lok upprunalega leiksins (ári eftir Advent Children). Spilunin er þó ekki mjög vel útfærður þriðju persónu skotleikur (sem er ekki leikjategund sem ég hef mikinn áhuga á til að byrja með), þannig að ég endaði á því að kveikja bara á ódauðleikasvindli til að komast í gegn um söguna.

Ég ætlaði upprunalega ekkert að spila þennan. Líkt og með Crisis Core er upprunalega PS2 útgáfan sú eina sem er til, en þegar mér tókst að klóra mig fram úr því að spila hann með ákveðnum máta ákvað ég að slá til, svona upp á completion-isma.

Við enda þessa leikjar birtist einn mesti veikleiki Compilation-sins að mínu mati: Sú staðreynd að Compilation-ið er óklárað. Leikurinn endar á cliff-hanger varðandi Genesis, en aldrei varð til neitt framhald af þeirri sögu. Þannig að endirinn situr bara þarna, lafandi eins og slitið reipi sem hangir aftan úr bíl á meðan þú veltir fyrir þér hvað hafi verið að óvörum skilið eftir neðar í brekkunni. Brotið loforð um lokna persónuboga (e. character arc) sem aldrei urðu, en voru byrjaðir með því að henda persónunum í ný átök við byrjun Compilation-sins sem taka þegar upp er staðið mörg hver engan almennilegan endi áður en hætt var að framleiða efni í Compilation-ið. En meira um það síðar.

FINAL FANTASY VII, AFTUR (BARA MIDGAR PARTURINN)

Ég tók smá upprifjun áður en ég dembdi mér í Remake, að þessu sinni var PS1 útgáfan spiluð á PSP. Grafíkin virkar mun betur á þeim pínulitla skjá og bakgrunnarnir fúnkera líka betur með fjölhyrningum sem teiknaðir eru í sömu upplausn. Listastíllinn nýtur sín talsvert betur við þessar aðstæður heldur en hann gerði á Switch útgáfunni.

FINAL FANTASY VII: REMAKE

Tim Rogers leikjagagnrýnandi (m.a.) minnist á í þriggja tíma langri myndbandsgagnrýni sinni á þennan leik að Final Fantasy VII (1997) sé leikur sem grátbiður um að vera endurgerður. Næstu tveir PS1 leikir í FF seríunni taka það sem FFVII lærði um þrívíddargrafík og pússa það þar til það skín og skilur fyrsta þrívíddarleikinn í seríunni eftir í moldinni. Árið 2005 var upphafssena leiksins endurgerð í PS3 grafík sem kynti undir löngun aðdáenda í endurgerð á öllum leiknum með nútímagrafík.

Það var ekki fyrr en á E3 sýningu Sony heilum áratug síðar sem að Square Enix staðfesti að endurgerðin væri í bígerð.

The reunion at hand may bring joy.
It may bring fear.
But let us embrace whatever it brings.
For they are coming back.
At last…

The promise has been made.

Fimm árum og miklum stefnubreytingum í gerð endurgerðarinnar síðar kom fyrsti hluti hennar, Final Fantasy VII: Remake, loksins út. Og ég var loksins búinn að undirbúa það að spila hann (spoiler: þessi staðhæfing var ósönn).

Ég elska allt sem búið er að gera við söguna í þessum leik. Leikjahöfundar stunda það alveg eitthvað að negla betur niður persónusköpun sem meira var ýjað að í upprunalega leiknum, sem kann að falla illa í kramið hjá þeim sem voru með öðruvísi lesningu á þeim texta, en afleiðingin er mun heildsteyptari persónur sem eru afbragðs vel leiknar og færðar til lífs með nútíma þrívíddar teiknitækni.

Búið er að bæta inn hliðarsögu sem á eftir að spilast betur út um það hvernig þetta er í raun hliðarveruleiki við upprunalega leikinn og ákveðin öfl virðast vera að berjast við að brjóta eða viðhalda sögulínu upprunalega leiksins. Í gegn um það og annarsstaðar er vitnað í alls konar efni sem kemur seinna í upprunalega leiknum og í Compilation-inu, sem kemur til með að stuðla að sterkari fyrirboðum fléttuðum inn í söguna og gera hana heildrænni. Þetta gerir upplifunina gríðarlega spennandi fyrir manneskju eins og mig sem hefur farið í gegn um grunn-söguna áður og ég hlakka mjög til að sjá hvert þetta fer.

Aftur á móti gerir þetta leikinn minna hentugan sem byrjunarpunkt, eins og margir (ég þar meðtalinn) voru að vonast eftir. Það er að vissu leiti leitt að ekki sé til hrein og bein endurgerð á upprunalega leiknum, en ég held að þegar upp sé staðið kunni þetta að vera enn áhugaverðari upplifun.

Eini almennilegi vankanturinn að mínu mati er bardagakerfið. Materia kerfið er mætt aftur til leiks, en hér er það niðurnjörfað miðað við upprunalega leikinn. Það vantar helling af mögulegum samsetningum sem buðu upp á mikla sköpunargleði við uppsetningu á persónunum, þvert á móti eru sárafáar samsetningar einu sinni vænlegar á efsta erfiðleikastiginu sem aflæsist eftir að maður klárar söguna. Og það er aðeins á þessu grautleiðinlega (hvað varðar hlutana af RPG kerfi sem ég hef gaman af) efsta erfiðleikastigi sem þú finnur það sem þú þarft til að klára að uppfæra persónurnar. Með öðrum orðum er ekki hægt að klára að setja upp persónurnar eins og maður vill áður en maður klárar söguna, heldur þarf maður að drösla sér í gegn um hundleiðinlegan eftirleik ef maður ætlar að skilja við persónurnar fullkláraðar. Þetta kann að vera kvörtun sem á bara við minn persónulega spilastíl, en hún hefur gildi fyrir mér og ég er manneskjan sem skrifar þannig að þar hafið þið það.

Í stuttu máli lagði fullkláraði ég ekki Remake. Ég kláraði bara söguna og partana sem náðu áhuga mínum af aukaefninu. Til dæmis nældi ég í alla níu kjólana sem Cloud, Tifa og Aerith geta gengið í og kláraði hæsta erfiðleikastig upphýfingakeppninnar.

En ég bíð spenntur eftir næsta hluta, sá fyrsti sagði hreint ótrúlega sterka útgáfu af sögunni og til þess er ég nú að þessu.

FINAL FANTASY VII: ON THE WAY TO A SMILE

Einhverntíman stuttu áður en ég byrjaði á Remake ákvað ég að lesa þennan forleik fyrir Advent Children sem gefur betri mynd af hvar persónur upprunalega leiksins eru staddar í lífinu tveimur árum eftir lok hans (það tók svolítinn tíma fyrir bókina að koma í pósti, en hún er ekki til sem rafbók). Hún er hálfnauðsynleg til að skilja nokkurn skapaðan hlut sem gerist í Advent Children en þar er eiginlega ekkert útskýrt hvað persónurnar eru að gera og af hverju.

Bókin kynnir ný átök í persónubogum þeirra sem einhver eru útkljáð í myndinni en önnur eru ekki útkljáð yfir höfuð. Það sem eftir stendur er smásagnasafn með undarlega dapran tón, þar sem öllum sögunum er slúttað áður en nokkrum endi er náð.

Mæli með þessari bara út af aukna samhenginu sem hún gefur Advent Children, en hún er ekkert sérstök lesning að mínu mati.

FINAL FANTASY VII: THE KIDS ARE ALRIGHT – A TURKS SIDESTORY

Þessi er sú betri af tveimur bókum Kazushige Nojima um heim FFVII. Heildsteypt saga með sínar eigin persónur í aðalhlutverki sem eru meðal uppáhaldspersóna minna í öllum bálknum. Ég komst að því við lesningu að nokkrar persónur sem ég hélt að væru nýjar í Remake komu í raun héðan, þannig að mér hefði verið nær að lesa þessa áður en ég spilaði Remake.

Ég get mælt með þessari almennt sem bók fyrir aðdáendur FFVII. Allir uppáhalds Turkarnir ykkar koma við sögu (hún gerist stuttu eftir Shinra smásöguna í On the Way to a Smile) og nýju persónurnar eru mjög skemmtilegar hér. Söguþráðurinn er fínn sömuleiðis.

PICTURING THE PAST (SMÁSAGA ÚR FINAL FANTASY VII: WORLD PREVIEW)

Smásaga eftir Kazushige Nojima um persónu sem kemur við í æsku Aerith. Sæmilega áhugaverð smáráðgáta sem gefur smá innsýn í líf Aerith í æsku innan veggja Shinra.

BEFORE CRISIS: FINAL FANTASY VII (ENDURGERÐ AF AÐDÁANDA)

Nú er ég farinn að skrapa neðst úr askinum. Þessi leikur var símaleikur – ekki eins og þeir sem við þekkjum í dag heldur á gömlum „flip“ símum. Hann hefur aldrei verið endurútgefinn, og krafðist netþjóna sem löngu er búið að slökkva á.

Og hann var aðeins gefinn út í Japan.

Fyrir stuttu gátu enskumælandi aðdáendur í fyrsta skipti spilað þennan leik í einhverri mynd, þar sem aðdáandi tók sig til og endurgerði hann allan byggt á myndum, myndböndum og handriti sem höfðu verið fljótandi um netið. Endurgerðin er gerð í RPG Maker 2003, sem þýðir að með þýðandanum EasyRPG er hægt að spila hann á ýmsum græjum. Þannig að ég henti honum á PS Vituna mína og spilaði í gegn.

Bardagakerfið í endurgerðinni er meira og minna óskylt því upprunalega, en sagan er öll til staðar svo framarlega sem ég fæ séð. Hún er alveg sæmileg, gefur innsýn í hvað meginþorri meðlima Avalanche hryðjuverkasamtakanna (sem Barret og félagar eru bara smáhópur innan) var að brugga, kynnir Veld/Verdot (mismunandi enskun á „ヴェルド“/“Verudo“) sem kemur einnig fram í Shinra smásögunni í On the Way to a Smile. Aðalpersónur leiksins koma einnig fram í Last Order að mér skilst (þarf að horfa á það aftur).

THE MAIDEN WHO TRAVELS THE PLANET (ÞÝTT AF AÐDÁENDUM OG FRAMLEITT SEM HLAÐVARPSLEIKRIT)

Svo át ég bara botninn á askinum heilan með því að lesa þessa tæplega kanónísku smásögu skrifaða af Benny Matsuyama (ólíkt hinni smásögunni og bókunum sem eru skrifaðar af Kazushige Nojima, sem skrifaði líka upprunalega leikinn) fyrir Ultimania bók sem var aðeins gefin út á japönsku.

Aðdáendasíðan TheLifestream.net tók sig til og þýddi söguna og framleiddi klukkutíma langt hlaðvarpsleikrit með tónlist og raddleik sem gera þessari sæmilega skemmtilegu smásögu góð skil. Hún fjallar um ferðalag síðustu Cetra manneskjunnar í lífsstraumnum svokallaða frá því að hún fellur í valinn til enda FFVII og hvernig hún hittir sálir fleiri fallinna persóna og gerir upp við þær.

Áhugaverð pæling, gaman að sjá þessi samskipti, en ekki er staðfest að þetta kanónískur hluti af sögu FFVII.

Lokaorð

Og það var allt sem hann söng. Nú er bara að bíða eftir næsta hluta sögunnar.

Það er ýmislegt gott að finna í heimi Final Fantasy VII, hæst mæli ég með Crisis Core, The Kids are Alright, Remake, og að sjálfsögðu upprunalega leiknum.

Það kitlar fullklárunarhluta heilans mjög að hafa klárað þetta allt saman, ég get látið mismunandi sögurnar, þemun og pælingarnar sem finna má í þessum sögum hringla og skella saman í heilanum og verið viss um að það eru engir hlutar sem mig vantar í heildarmyndina, sem er skemmtilegt.

En í bili er kominn tími á að spila eitthvað annað.

Skoða stærri útgáfu

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑