Fréttir

Birt þann 27. september, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Tölvuleikir hækka í verði – líka á Íslandi

Undanfarna daga hafa myndast heitar umræður á netinu um tölvuleikjaverð á væntanlegum tölvuleikjum fyrir næstu kynslóð leikjatölva. Undanfarin 15 ár hefur tölvuleikjaverðið haldist í kringum 60 dollara í Bandaríkjunum en hækkar upp í 70 dollara með næstu kynslóð leikjatölva (Business Insider). Samkvæmt okkar heimildum má búast við að verð á leikjum hérlendis muni fylgja verðþróun erlendis.

Á Íslandi erum við háð gengi íslensku krónunnar sem getur sveiflast mikið á milli ára sem þýðir að verðið á tölvuleikjum getur hækkað eða lækkað á milli mánaða. Fyrir um 15 árum var algengt að nýlegir tölvuleikir kostuðu í kringum fjögur til sjö þúsund krónur á Íslandi líkt og fram kemur í þessari verðkönnun sem GameOver.is gerði árið 2007.

24 stundir (30. nóvember 2007), bls. 56

Undanfarin ár hefur algengt verð fyrir tölvuleiki verið á bilinu níu til tólf þúsund krónur. Árið 2011 framkvæmdi Nörd Norðursins verðkönnun og var algengt verð þá sjö til tíu þúsund krónur á nýjum leikjatitlum.

Við fórum á nokkrar íslenskar vefsíður sem bjóða upp á forpöntun á PS5 leikjum og virðist algengt verð vera á bilinu tíu og upp í þrettán, jafnvel fjórtán þúsund krónur, sem gerir í kringum 10% hækkun. Áhugavert er að skoða verðmuninn þar sem Coolshop.is býður upp á besta verðið á PS5 leikjatitlum þar sem hækkunin milli leikjatölvukynslóða er lítil sem engin.

Elko.is (skjáskot tekið 27. sept. 2020)


Gamestodin.is (skjáskot tekið 27. sept. 2020)


Coolshop.is (skjáskot tekið 27. sept. 2020)


Heimkaup.is (skjáskot tekið 27. sept. 2020)


Frá árinu 2007 hafa tölvuleikir þar af leiðandi hækkað um 80-150% í verði á íslenskum markaði í íslenskum krónum talið. Samkvæmt Verðlagreiknivél Hagstofu Íslands hefur verðlag hækkað um 82% á sama tímabili.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑