Fréttir

Birt þann 11. júní, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Tvær útgáfur af PlayStation 5

Sony kynnti PlayStation 5 leikjatölvuna á sérstakri PS5 kynningu sem haldin var í kvöld. Í fyrsta sinn birti fyrirtækið myndir af leikjatölvunni sem væntanleg er í verslanir síðar á þessu ári. Sony hafði áður birt myndir af fjarstýringunni sem fylgir tölvunni og má segja að útlit tölvunnar fylgi útliti hennar þar sem litirnir hvítur og svartur eru allsráðandi.

Á kynningunni kom fram að tvær útgáfur af PlayStation 5 tölvunni verða í boði. Hefðbundna útgáfan inniheldur geisladrif (4K UHD Blu-Ray Drive) á meðan stafræna útgáfan, eða Digital Edition, verður án geisladrifs. Leikjaverslun hefur að miklu leyti færst yfir á stafrænt form undanfarin ár og er stafræna útgáfan því hugsuð fyrir þá spilara sem versla sína leiki eingöngu í gegnum netið. Stafræna útgáfa tölvunnar tekur minna pláss og má segja að hún líti aðeins betur út en hefðbundna útgáfan þar sem geisladrifið skekkir útlit hennar aðeins. Sony gaf ekki upp hvað tölvan ætti að kosta en það má fastlega gera ráð fyrir því að stafræna útgáfan verði ódýrari.

Nokkrir PlayStation 5 aukahlutir voru einnig sýndir í kvöld: DualSense hleðsludokka, ný HD myndavél, Pulse 3D þráðlaus heyrnatól og fjarstýring. Ekki var minnst á PlayStation VR.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑