Fréttir

Birt þann 8. júní, 2019 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

EA sýnir 15 mín úr Star Wars: Jedi Fallen Order á EA Play

Leikjasýning E3 2019 (Electronic Entertainment Expo), er ein sú stærsta í heiminum og er haldin árlega í Los Angeles í Bandaríkjunum. Þetta árið er útgáfurisinn EA (Electronic Arts) fyrstur á svæðið með sína kynningu.

Fyrrum IGN liðinn og núverandi Youtube stjarnan Greg Miller er kynnirinn fyrir kynningu EA.

Star Wars: Jedi Fallen Order leikur EA og Respawn Entertainment byrjar EA Play 2019 kynninguna og hefur vægast sagt gengið brösulega síðustu árin hjá EA við gerð Star Wars leikja, hvað þá góðan Star Wars leik. Stig Asmussen sem leiddi vinnuna á bakvið God of War III og Vince Zampella frá Respawn mættu og ræddu um leikinn á kynningunni.

Sýndar voru um 15 mínútur úr leiknum. Saga hefst eftir að „Order 66“ var framkvæmd og Sith veldið eyddi nær öllu Jedi riddurunum í vetrarbrautinni. Leikmenn fara í fótspor Cal Cestus sem er að reyna að endurreisa Jedi regluna og er staddur á Wookie plánetunni Kashyyyk. Þetta er að sögn Asmussen um þrjá tíma inn í söguþráð leiksins. Leikurinn er spilaður í þriðju persónu og er ljóst að hreyfikerfið úr Titanfall leikjunum hefur haft áhrif á stjórnun leiksins. Við fáum að sjá persónu Forest Whitaker, Saw Gererra úr Rogue One: A Star Wars Story, hjálpa til við að frelsa Wookies úr haldi Empire og finna út úr því hvað þeir eru að gera á plánetunni.

Karakterinn þinn er með blátt geislasverð og hefur Jedi krafta sem koma að góðu þegar þarf að opna brotna málmhurð. Lítið sætt vélmenni fylgir þér og á eftir að koma í ljós hvernig það mun hjálpa til við spilun leiksins. Þú notar klifurjurtir til að sveifla þér um eins og Tarzan og notar síðan geislasverðið á stormsveitarhermennina. Auðvitað er litla vélmennið klárt í að opna hurðir og annað sem ekki er ólíkt RD-D2 vélmenninu. Cal berst við hermann með orkustöng sem getur átt séns í geislasverð. Á meðan leikmenn fara um umhverfið sjást hermenn berjast við eldbjöllur með eldvörpum.

Leikir eins og Uncharted og Tomb Raider virðast vera áhrifavaldar þegar litið er til spilun leiksins og sést það þegar klifrað er um í umhverfi leiksins og leysa þrautir sem tengjast umhverfinu. Hægt er að kasta geislasverðinu að óvinum, ásamt að draga þá til þín eða kasta. Einnig virðist vera hægt að hægja á tímanum í andartak sem hjálpar örugglega til í erfiðum bardögum.

Að lokum fáum við að sjá stutt myndbrot sem sýnir úr restinni af leiknum en leikurinn mun koma út á PC, PS4 og Xbox One þann 15. nóvember.


Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑