Birt þann 5. apríl, 2019 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
BAFTA Video Games Awards 2019 í máli og myndum
God of War var sigurvegari kvöldsins með samtals fimm BAFTA verðlaun. Return of Obra Dinn og Nintendo Labo hlutu tvenn verðlaun hvor.
BAFTA tölvuleikjaverðlaunahátíðin fór fram í London í gær og var þetta í fimmtánda sinn sem hátíðin var haldin. Þar var fjölbreyttur hópur fólks innan tölvuleikjageirans tilnefndur og verðlaunaður fyrir framlag sitt til tölvuleikja. Leikurinn God of War stóð uppi sem sigurvegari kvöldsins með flest verðlaun, alls fimm BAFTA verðlaun, og var valinn besti leikur ársins og hlaut einnig verðlaun fyrir sögu, hljóð, tónlist og talsetningu. Það má vissulega tengja þessi verðlaun með beinum og óbeinum hætti við Ísland þar sem kammerkórinn Schola cantorum frá Íslandi syngur í leiknum, auk þess byggir leikurinn á sögum úr norrænni goðafræði.
Indíleikurinn Return of the Obra Dinn og Nintendo Labo serían hlutu hvor um sig tvenn BAFTA verðlaun. Return of the Obra Dinn var verðlaunaður fyrir listrænt afrek og einnig fyrir leikjahönnun. Nintendo Labo sigraði í flokkunum fjölskylduleikir annars vegar og hins vegar nýjung í tölvuleik.
Leikur handan skemmtunar (Game Beyond Entertainment) er nýr verðlaunaflokkur sem vakti þó nokkra athygli. Þar eru leikir tilnefndir sem hafa nálgast leikjaformið með dýpri hætti en eingöngu í afþreyingarskyni (það má ekki gleyma því að leikir geta líka verið alvarlegir, dökkir og jafnvel óþægilegir). My Child Lebensborn frá norska leikjafyrirtækinu Sarepta Studio sigraði þann flokk en í þeim leik tekur spilarinn að sér foreldrahlutverkið og elur upp barn í Noregi stuttu eftir stríð þar sem spilarinn þarf að takast á við fordómafullt samfélag og erfiðar ákvarðanir.
Írski skemmtikrafturinn Dara O’Briain var kynnir kvöldsins og fór á kostum. Hann byrjaði hátíðina með léttu gríni sem tengjast tölvuleikum og gerði meðal annars grín af því hversu vinsælt Battle Royale Mode er orðið í nánast öllum leikjum í dag, meira að segja Tetris! Hægt er að sjá útgáfur af Battle Royale í Call of Duty og ótrúlega en satt, FIFA. „Og jafnvel Fallout 76 – eða það er reyndar bara vegna þess að það er bara ein manneskja enn að spila leikinn,“ sagði Dara O’Briain og uppskar mikinn hlátur í kjölfarið.
Enginn leikur frá CCP var tilnefndur í ár en Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, lét sig ekki vanta. Reyndar virtust mynadvélarnar vera nokkuð hrifnar af honum Hilmari og birtu tvisvar til þrisvar nærmynd af honum yfir kvöldið. Til gamans má geta að þá var EVE Online tilnefndur til BAFTA verðlauna árið 2015 og 2017 í flokknum viðvarandi tölvuleikur eða tölvuleikur í stöðugri þróun.
Lucas Pope hélt hjartnæma þakkarræðu þegar hann tók á móti verðlaunum fyrir leikjahönnun í Return of the Obra Dinn. Í ræðu sinni þakkaði hann föður sínum innilega fyrir gott uppeldi og góð ráð, en hann lést áður en Lucas náði að klára leikinn og sá því aldrei fullkláruðu útgáfuna.
Söngvarinn George Shelley mætti á svið til að tilkynna besta fjölspilunarleikinn. Minnstu munaði að hann hefði tilkynnt sigurvegarann án þess að fara yfir hvaða leikir voru tilnefndir í flokknum og þegar hann var við það að tilkynna vinningshafann náði Dara O’Briain rétt svo að stoppa hann!
Norska teymið Elin Festøy og Catharina Bøhler frá Teknopilot og Sarepta Studio tóku á móti verðlaunum fyrir My Child Lebensborn sem er mjög tilfinningaríkur leikur. Lesin voru upp skilaboð um að nauðsynlegt sé að læra af sögunni í þeirri von um að mistök fortíðarinnar endurtaki sig ekki og mikilvægi þess standa upp fyrir börnum sem þurfa á rödd að halda. Norska pressan sýndi viðburðinum lítinn áhuga og voru mjög fáir fjölmiðlar þar í landi sem sögðu frá BAFTA verðlaunum Norðmanna. Tölvuleikjaspilarar og fleiri gagnrýndu norsku pressuna í kjölfarið sem ýtti við fréttamiðlum til að fjalla um málið.
SIGURVEGARAR BAFTA GAMES AWARDS 2019
LISTRÆNT AFREK:
Return of the Obra Dinn
HLJÓÐRÆNT AFREK:
God of War
BESTI LEIKURINN:
God of War
BESTI BRESKI LEIKURINN:
Forza Horizon 4
BESTA FRUMRAUNIN:
Yoku’s Island Express
VIÐVARANDI LEIKUR:
Fortnite
FJÖLSKYLDULEIKUR:
Nintendo Labo
LEIKUR HANDAN SKEMMTUNAR:
My Child Lebensborn
LEIKJAHÖNNUN:
Return of the Obra Dinn
NÝJUNG Í TÖLVULEIK:
Nintendo Labo
SÍMA- OG SPJALDTÖLVULEIKUR:
Florence
FJÖLSPILUN:
A Way Out
TÓNLIST:
God of War
SAGA:
God of War
UPPRUNALEG EIGN:
Into the Breach
FLYTJANDI (LEIKARI/LEIKKONA):
Jeremy Davies sem The Stranger í God of War
EE SÍMA- OG SPJALDTÖLVULEIKUR ÁRSINS:
Old School Runescape
Forsíðumynd: BAFTA Games Awards 2019