Fréttir

Birt þann 19. september, 2018 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Sony kynnir PlayStation Classic leikjatölvuna

Sony kynnti í dag PlayStation Classic leikjatölvuna í tilefni 24 ára afmæli tölvunnar í Japan desember næstkomandi.

PlayStation var fyrsta leikjatölvan til að ná að seljast í 100 miljónum eintaka á heimsvísu og var fyrsta leikjatölvan til að bjóða spilurum upp á tölvuleiki í þrívídd sem hægt var að spila heima í stofu. Mörgum mun eflaust finnast Sony vera að apa eftir Nintendo og útgáfu þeirra á NES og SNES Classic leikjatölvunum með þessu útspili. Hvernig Sony tekst til verður forvitnilegt að fylgjast með.

Þann 3. desember 1994 kom PlayStation fyrst á japanskan markað og að því tilefni mun PlayStation Classic koma út 3. desember næstkomandi.

Þann 3. desember 1994 kom PlayStation fyrst á japanskan markað (í september ári síðar á evrópskan markað), og að því tilefni mun PlayStation Classic koma út 3. desember næstkomandi. Tölvan mun kosta um $100, £90 eða €100 sem gera um 13 þúsund íslenskar krónur á núverandi gengi. Hvernig verðið endar hér heima þegar búið er að bæta við öllum gjöldum og tollum mun líklega skýrast þegar nær dregur.

Evrópska PlayStation bloggið kynnti suma af þeim 20 leikjum sem fylgja tölvunni, þar á meðal var staðfest að Final Fantasy VII, Jumping Flash, Ridge Racer Type 4, Tekken 3 og Wild Arms væru þar á meðal. Það þýðir að 15 leikir til viðbótar eiga eftir að bætast við leikjapakkann og verða tilkynntir síðar. Það má gera ráð fyrir að stærstu PS1 leikirnir skili sér á PlayStation Classic, eða það vonum við minnsta kosti.

Það verða tveir upprunalega PS1 pinnar í pakkanum (þessir sem eru án analog pinna) til að spila með vinum og HDMI snúra. Frekar spes að það sé upprunalega fjarstýringin en ekki seinni úttgáfan sem er í pakkanum að okkar mati.

Með að ýta á Open takka tölvunnar er hægt að skipta um leiki, á meðan Reset takkinn setur leiki í svefnstillingu sem er svo hægt að kveikja á aftur og haldið áfram. Vélin er að sögn Sony um 45% minni en upprunalega PlayStation vélin (ekki PSone vélin sem kom síðar út og var talsvert minni en upprunalega).

Fyrir marga er gráa leikjatölva Sony mikilvæg sem hluti af leikjaminningum þeirra og margir sem byrjuðu að spila tölvuleiki í fyrsta sinn á þeirri tölvu. Seríur eins og Tekken, Ridge Racer, Metal Gear Solid, Gran Turismo o.fl. voru kjarnaleikir sem stuðluðu af velgengni Sony með leikjatölvu þeirra eftir að það slitnaði upp úr samstarfi þeirra við Nintendo nokkrum árum áður.

Við vitum ekki mikið eins og er um hvernig leikirnir verða, annað en að Sony segir að þeir verði í upprunalegu formi. Það má þá gera ráð fyrir að það þýði 4:3 upplausn að mestu og grafíkin eins og fólk man eftir henni, líklega þýðir þetta að við fáum ekki trophy’s bætt við leikina, en það má alltaf láta sér dreyma.

PlayStation bloggið stefnir á að kynna fleiri leiki síðar sem verða hluti af PlayStation Classic pakkanum.

Hverjir eru uppáhalds PlayStation 1 leikir ykkar?
Hvað viljið þið helst sjá í þessum pakka?

Myndir: PlayStation.Blog

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑