Leikjarýni

Birt þann 28. ágúst, 2018 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Leikjarýni: Warhammer 40.000: Inquisitor – Martyr

Leikjarýni: Warhammer 40.000: Inquisitor – Martyr Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Þessi býður upp á fína skemmtun, auðvelt að detta í „heilalausa“ spilun.

3.5

Fín skemmtun


Warhammer 40.000 á uppruna sinn í borðspilun og fígúrum frá Warhammer fantasíu heiminum þar sem stríð er stanslaust og blóð ávallt flæðandi.

Games Workshop fyrirtækið heldur utan um þennan gríðalega stóra og flókna heim og kemur að útgáfu efnis sem byggir á þessum heimi, hvort sem það eru bækur, tölvuleikir og jafnvel ein tölvugerð teiknimynd.

Tölvuleikir hafa lengi verið vinsælt form til að segja sögur og má helst nefna herkænskuleikina Dawn of War ásamt Warhammer 40k: Space Marine þriðju persónu hasar leik sem var hannaður af Relic Entertainment; þeim sömu og gerðu Dawn of War. Nú er komið af nýjum leik sem er hasar og fantasíu leikurinn Warhammer 40.000: Inquisitor – Martyr. Smá munnfylli og eftir þetta verður hann bara kallaður Martyr.

Caligari geimsvæði hefur á dularfullan hátt fyllst af villutrúarmönnum, stökkbreytingum og djöflum Chaos (sem hafa spillt af kröftunum sem búa í Warp (þar sem geimskipin notast við til að ferðast um í vetrarbrautinni) og spilla öllum sem komast í snertingu við það). Leikmenn geta valið að spila sem þrír mismunandi Inquisitor klassar með ólíkum hæfileikum og persónuleikum. Inquisitor reglan er leynilögregla Keisarans og fer um vetrarbrautina til að berja niður villutrú og Chaos.

Hægt er að spila sem þrjár mismunandi persónur og hafa þærsíðan þrjá undirflokka sem býður uppá fjölbreytni í spilun.

Hægt er að spila sem þrjár mismunandi persónur og hafa þærsíðan þrjá undirflokka sem býður uppá fjölbreytni í spilun. Crusader Inquisitor er stór risi sem veður fyrst inn í hasarinn með stóra byssu eða enn stærra sverð og labbar útblóðugur en lifandi úr bardögum, Assassin Inquisitor nýtir sér óvæntar árásir og snögg viðbrögð og síðan Psyker Inquisitor sem notar eldinn til að brenna óvinina. Helsti vandinn við þessar persónur er að það er talsvert erfiðara að spila sem Psyker eða Assassin og þarf meiri kunnáttu og einbeitingu fyrir vikið. Einnig er ekki hægt að skipta á milli vopna eða annarra hluta í miðju verkefni svo það borgar sig að skipuleggja vel áður.

Leikurinn spilast að miklu leyti eins og t.d síðasti leikur ungverska framleiðandans NeocoreGames, The Incredible Adventures of Van Helsing. Hasar og hlutverkaleikur í anda Diablo leikjanna, þar sem takmarkið er að drepa sem flesta óvini, finna besta „loot“-ið og byggja persónu sína upp hvort sem þú spilar einn, uppí sófa með vini eða í gegnum netið.

Saga leiksins gerist í Caligari svæðinu (sem var hannað sérstaklega fyrir leikinn) og færist sagan á milli sólkerfa og pláneta á svæðinu. Svæðið er í raun einn stór sandkassi fyrir þig að spila í.

Saga leiksins gerist í Caligari svæðinu (sem var hannað sérstaklega fyrir leikinn) og færist sagan á milli sólkerfa og pláneta á svæðinu. Svæðið er í raun einn stór sandkassi fyrir þig að spila í. Það eru regluleg söguverkefni í boði ásamt ótal hliðarverkefnum, sum sem geta haft áhrif á svæðið sem þú ert í. Sum verkefnin er stutt og einföld t.d. „dreptu þessa gaura“, „eyðilegðu þessa byggingu“ og þar fram eftir götunum. Önnur vinda uppá sig og eru í nokkrum hlutum. Helsti gallinn sem er hægt að finna af þeim, er að þau sett saman handahófskennt, þá færðu í raun aldrei sama borðið á ný, en aftur á móti verða þau stundum frekar litlaus og virka eins fyrir vikið.

Kjarninn er þó Martyr sagan sem dregur nafn sitt af risastóru virkismusteris geimskipi sem heitir Martyr og inniheldur leyndarmál úr fortíð Inquisition-reglunnar. Það hefur birst óvænt á svæðinu og ert þú sendur til að kanna það. Það tekur um 20-30 tíma að klára sögu leiksins og er vel hægt að tvö- ef ekki þrefalda töluna með öllu því aukalegu sem er hægt að gera ásamt netspilun leiksins, svo leikmenn verða ekki uppiskroppa með efni að spila á næstunni í leiknum. Sagan vinnur seint til verðlauna en hún nær að vera nógu „pulpy“ og er í takt við viðfangsefnið.

Á milli verkefna ert þú á brú geimskipi þíns og getur talað við hinar ýmsu persónur sem þú rekst á í gegnum sögu leiksins og eru margir af þeim hálfgerðir kaupmenn eða hjálpa til við að hanna vopn eða annað slíkt sem þú munt þurfa á að halda. Verkefni leiksins eru merkt með tölu sem tengist tölfræði þinni á vopnum og brynju (ekki ólíkt Light lvl í Destiny), þetta er síðan litamerkt eins og hlutir leiksins til að gefa þér til kynna hvenær er best að eiga við þetta án þess að verða algerlega slátrað. Vandinn við þetta er að stundum neyðistu til að velja hluti sem eru betri í styrkleika en henta ekki leikstíl þínum til að komast áfram.

Það er stórt og mikið hæfileikatré til að sníða að þínu þörfum ásamt svo miklu öðru. Cabal (klan) kerfi er til staðar til að finna hópa að spila með. Einnig hefur framleiðandi leiksins lofað uppfærslum á leiknum, bæði fríum og verðlögðum.

Þú getur notað ýmsa hluti í umhverfi borðanna til að skýla þér fyrir óvinum og skjóta á þá, en óvinir geta einnig gert það sama og hægt er að eyðileggja skjólið svo það borgar sig að staldra ekki of lengi á hverjum stað. Blóð flæðir og líkamshlutar þeytast um reglulega eins og sæmir Warhammer leik. Þegar þú ert með kveðjusögs-sverð og lætur Chaos óvininn hafa það þá skortir ekki blóðið og vinnur leikurinn alveg fyrir aldursmerkingunni þar.

Hægt er að spila í gegnum verkefni leiksins saman í 2 manna co-op uppí sófa, eitthvað sem er of sjaldgæft í dag og þá spilar gesturinn sem forsniðin persóna.

Eitt sem getur stundum verið ergjandi er að þú getur haldið inn X takkanum á Dualshock pinnanum til að ráðast á næsta óvin og almennt fer persónan þín á næst óvin, en stundum ákveður hún í miðjum klíðum að það sé betri hugmynd að fara á óvininn sem er hinum megin á svæðinu, eða kistuna á borðinu og hundsa óvini leiksins. Þetta getur gert manni lífið leitt stundum, en nær samt ekki að skemma of mikið, meira pirrings dæmi stundum.

Hægt er að spila í gegnum verkefni leiksins saman í 2 manna co-op uppí sófa, eitthvað sem er of sjaldgæft í dag og þá spilar gesturinn sem forsniðin persóna. Einnig er hægt að spila í gegnum netið fjórir saman ásamt PvP spilun á móti öðrum leikmönnum.

Leikurinn keyrir á CoreTech3 grafík vélinni sem fyrirtækið hannaði sjálft og lítur almennt vel út. Það er hægt að velja á PS4 Pro vélum möguleikann á Balanced eða Quality, það er lítið farið útí hvað það gerir þó. Balanced virðist keyra leikinn í 1080p upplausn með betri rammahraða (fps) og Quality keyrir í 1440p á lægri fps. Ég prufaði bæði en var mest með stillt á Balanced sem almennt virkaði vel þó leikurinn gat alveg tekið dýfur þegar mikill hasar og fjöldi óvina var á skjánum á sama tíma. Leikurinn hrundi nokkrum sinnum hjá mér þegar ég var að spila, en skemmdi aldrei fyrir neinni spilun. Eitt til að hafa í huga (og sem ég komst að þegar netið datt út hjá mér), er að þú þarft að vera ávallt nettengdur til að spila leikinn, jafnvel þó að þú sért ein/n að spila.

Martyr nær að mínu mati vel að ná Warhammer 40.000 heiminum og fyrir kunnuga þá er það einn af ánægjulegustu hlutum leiksins. Fyrir okkur hin er leikurinn fínasta skemmtun og er auðvelt að detta í smá „heilalausa“ spilun, þó mætti hann vera betri en er með nóg af efni til að endast eitthvað. Spurningin er bara á hvort þið viljið kaupa leikinn núna eða bíða eftir einhverri verðlækkun?

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑