Birt þann 7. ágúst, 2018 | Höfundur: Kjartan Rúnarsson
Kvikmyndarýni: Solo: a Star Wars Story – „Vel leikin og skemmtilega skrifuð“
Samantekt: Skemmtileg og flott ævintýramynd sem öll fjölskyldan getur haft gaman af.
3.5
Skemmtileg
Solo: a Star Wars Story er skemmtileg en smá misheppnuð frásögn af einni elskuðustu kvikmyndapersónu allra tíma.
Flest okkar þekkja Star Wars kvikmyndaseríuna og mörg okkar voru jafnvel bitin af kvikmyndabakteríunni við áhorf á Star Wars kvikmynd. Það á við um undirritaðan. Star Wars á sinn stað í hjarta mínu og margar af mínum fyrirmyndum koma úr þessari margumtöluðu og vinsælu kvikmyndaseríu. Han Solo, ein af aðalsöguhetjum Star Wars sögunnar, er ein slík fyrirmynd. Saga Han Solo kennir manni að hafa trú á sjálfum sér, því ef maður gerir það ekki sjálfur, þá gerir það enginn annar. Han Solo er ein af mikilvægustu söguhetjum kvikmyndaiðnaðarins og ein stærsta kvikmyndahetja kvikmyndasögunnar. Vegna þess hve mikil áhrif Han Solo hafði á mig þegar ég var yngri, hafði ég litla trú á því að hægt væri að gera kvikmynd um forsögu hans og stór efaðist um að það mundi virka. Að vissu leiti hafði ég rétt fyrir mér en þó hafði ég að mestu rangt fyrir mér.
Solo: A Star Wars Story fjallar um ungan mann að nafni Han um það bil tíu árum á undan A New Hope. Hún segir frá ævintýrum Han og félaga hans Chewbacca þegar Han er á á seinni hluta táningsára sinna. Hann er munaðarlaus þjófur á plánetunni Correlia og þráir að komast þaðan með vinkonu og kærustu sinni Qi’ra.
Solo: A Star Wars Story fjallar um ungan mann að nafni Han um það bil tíu árum á undan A New Hope. Hún segir frá ævintýrum Han og félaga hans Chewbacca þegar Han er á á seinni hluta táningsára sinna.
Solo er leikinn af leikaranum Alden Ehrenreich sem þekktastur er fyrir leik sinn sem leikarinn og söngvarinn Hobie Doyle í kvikmyndinni Heil, Caesar!, eftir Coen bræður, og Ethan Wate í kvikmyndinni Beautiful Creatures eftir Richard LaGravenese. Ehrenreich virðist stórskemmta sér sem Solo og gerir það einstaklega vel án þess að virðast vera að herma eftir Harrison Ford sem lék sömu persónu í öðrum myndum seríunnar. Ehrenreich nær að gera persónuna að sinni þó að hann taki eitt og annað frá Ford og virkar það svona mæta vel.
Félagi og vinur Solo, Chewbacca, er leikinn af finnska körfuboltamanninum Joonas Suotamo. Hann hefur ekki leikið í kvikmynd af fullri lengd fyrr en í Star Wars: The Force Awakens. Þá lék hann sömu persónuna en hann var fenginn til þess að aðstoða leikarann Peter Meyhew við að leika Chewbacca. Suotamo tekst að taka þessa þekktu persónu og koma henni aftur á hvíta tjaldið af miklu öryggi. Qi’ra, kærasta Solo, er leikin af leikkonunni Emilia Clarke en hún er þekktust fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttaröðinni Game of Thrones sem drekamóðirin Daenerys Targaryen. Clarke tekur þetta hlutverk og gerir sitt besta með það sem hún hefur. Undirritaður telur að reyndari leikkona hefði verið sterkari valkostur vegna þess að Clarke skilar ekki persónunni eins vel og hægt hefði verið.
Glover er eitt það besta sem gat komið fyrir þessa mynd.
Perónan Lando Calrissian er ein af elskuðustu persónum Star Wars sögunnar og er hann leikinn af Donald Glover, þekktur sem söngvarinn Childish Gambino og fyrir leik sinn í þættinum Atlanta og í kvikmyndinni The Martian. Glover tekur þessa stórkostlegu persónu og gerir hana algjörlega að sinni. Hann leikur Calrissian af miklu sjálfsöryggi og gefur nýja sýn á þessa persónu sem upprunalega var leikin af leikaranum Billy Dee Williams. Glover er eitt það besta sem gat komið fyrir þessa mynd.
Tónn myndarinnar er frábær. Hann gefur algjörlega nýja sýn inn í vetrarbrautina langt, langt í burtu en hingað til höfum við ekki fengið að sjá inni í undirheima hennar og virkaði það mjög vel fyrir mitt leiti. Dryden Vos, leikinn af Paul Bettany er aðal andstæðingur aðalpersónanna en hann er glæpaforingi sem svífst einskis. Glæpaforingjar og undirheimaátök eiga vel heima í þessum heimi sem náð hefur að fanga hug og hjörtu svo margra.
Myndin hefði getað staðið undir sjálfri sér án þess að þurfa að nota svokallað „fan service“ eða á lélegri íslensku, aðdáendaþjónustu.
Ýmsir hlutir sem hafa hingað til verið nokkurskonar leyndardómar í sögu Solo, eru birtir í þessari sögu, eins og hvaðan Solo fær frægu geislabyssuna sem hann er með, og hið þekkta „Kessel run“ sem skip Solo, „The Millenium Falcon“ fór á 12 parsekum. Þessir og fleiri leyndardómar koma fram í þessari mynd og telur undirritaður það hafa verið óþarfa. Myndin hefði getað staðið undir sjálfri sér án þess að þurfa að nota svokallað „fan service“ eða á lélegri íslensku, aðdáendaþjónustu. Myndin geldur fyrir það og telur undirritaður að slæmar gagnrýnir sem þessi mynd hefur fengið stafi að miklu leyti af því.
Solo: A Star Wars Story er skemmtileg og flott ævintýramynd sem öll fjölskyldan gæti haft gaman af. Vel leikin og skemmtilega skrifuð mynd sem segir of mikið af bakgrunnssögu vetrarbrautarinnar langt, langt í burtu.