Birt þann 2. júlí, 2018 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Viðtal við Ingva Snædal hjá ThroughLine Games – „Fólkið er það skemmtilegasta við tölvuleikjagerð“
Ingvi Steinn Steinsson Snædal er 32 ára gamall Austfirðingur sem starfar hjá danska leikjafyrirtækinu ThroughLine Games sem gerði ævintýraleikinn Forgotton Anne sem kom í verslanir í seinasti mánuði fyrir PC, PlayStation 4 og Xbox One. En hvernig kom til að Austfirðingurinn endaði í tölvuleikjabransanum í Danmörku?
Ingvi segist sjálfur hafa spilað tölvuleiki sem krakki og ólst þá upp við DOS, NES og PS leikina á níunda og tíunda áratugnum. Leikir á borð við Secret Agent, Hocus Pocus og Jazz Jackrabbit, ásamt söguríkari leikjum eins og Broken Sword, Baldur‘s Gate og Diskworld kveiktu á áhuga hans um að sækjast eftir framtíð í tölvuleikjabransanum.
Draumurinn var að gerast tölvuleikjarithöfundur
„Í gegnum árin hef ég fiktað mig áfram í þrívíddarteikningu, hljóðvinnslu, smásöguskriftum og öðru slíku, en aldrei varið nægum tíma í eitt svið til að verða mjög góður í því, sem gerir mig að einstaklingi sem getur margt en er ekki sérfræðingur í neinu – fullkominn framkvæmdastjóri , semsagt.“ segir Ingvi þegar hann er spurður að því hvernig kom til að hann endaði sem aðstoðarframkvæmdastjóri hjá ThroughLine Games.
Draumurinn var að gerast tölvuleikjarithöfundur, en því lengra sem ég komst í náminu, því meira óx áhugi minn á hinum sviðum tölvuleikjagerðar.
Ingvi og eiginkona hans ákváðu að flytja til Danmerkur eftir fjármálakreppuna árið 2008. „Þegar ég flutti til Danmerkur var það vegna þess að konan mín, sem er pólsk, þjáðist af alvarlegu skammdegisþunglyndi eftir að hafa misst vinnuna í kjölfar kreppunnar árið 2008. Ég ákvað því að skella mér í háskóla. Draumurinn var að gerast tölvuleikjarithöfundur, en því lengra sem ég komst í náminu, því meira óx áhugi minn á hinum sviðum tölvuleikjagerðar. Þess vegna ákvað ég að taka meistaragráðu í Fjölmiðlunarfræði og læra á allt sem við kemur tölvuleikjagerð – frá hugmynd til markaðssetningu og útgáfu.“
Mynd tekin af ThroughLine Games Blog
Fjölbreytt verkefni hjá ThroughLine Games
Að loknu námi var Ingva boðið starf hjá ThroughLine Games eftir að hafa sótt um lærlingsstöðu hjá þeim og starfað sem enskukennari og tölvuleikjafréttamaður hjá Hooked Gamers. „Ég hafði verið í sambandi við Alfred og Michael, stofnanda ThroughLine Games, sem nemandi þegar ég var að leita mér að lærlingsstöðu, en ekkert varð af því.
Eftir útskrift vann ég sem enskukennari við Háskólann í Suður-Danmörku og það var þá sem þeir höfðu samband við mig og buðu mér starfsviðtal. Það var áralöng reynsla mín sem tölvuleikjafréttamaður sem þeim leist heldur betur vel á. Aðalverkefnin yrðu að sjá um samfélagsmiðla fyrirtækisins en með tímanum tók ég að mér að ritstýra handritinu, sjá um þýðingar, lita hreyfimyndaramma, QA prufur, og að kynna leikinn á ráðstefnum vítt um heim, ásamt öðrum verkefnum.“
Gleymdir hlutir gera uppreisn
Forgotton Anne er ævintýra-platformer um unga konu, Anne, sem ólst upp í hinu gleymda ríki.
Ævintýraleikurinn Forgotton Anne var gefinn út í seinasta mánuði. Leikurinn hefur hlotið nokkra athygli og þá meðal annars fyrir þann áhugaverða teiknimyndastíl sem er að finna í leiknum. En út á hvað gengur leikurinn nákvæmlega? „Forgotton Anne er ævintýra-platformer um unga konu, Anne, sem ólst upp í hinu gleymda ríki. Allir hlutir sem mannfólki er annt um einn daginn og gleymast þann næsta birtast hér í gleymda ríkinu sem Forgotlings, eða gleymlingar. Anima, sem er lífskraftur þessa heims, gefur gleymlingunum líf og er notað sem eldsneyti fyrir samfélagið. Anne og Bonku – gamall maður sem ól Anne upp, eru einu manneskjurnar í hinu gleymda ríki.“
„Bonku er að byggja brú til heims mannanna og Anne er hans hægri hönd. Anne er aðal löggæsluyfirvald ríkisins og sér um að halda friðinn. Hún er með Arca-steininn á hendinni sér sem gerir henni kleyft að breyta flæði anima í umhverfinu, taka afl úr ílátum og setja það í vélar, og bókstaflega sjúga sálina úr gleymlingum sem standa í vegi hennar. Leikurinn byrjar með sprengingu fyrir utan turninn, sem er heimili Anne og Bonku. Uppreisn gegn þeim og samfélaginu sem þau hafa byggt er byrjuð, og Anne þarf að stoppa hana, koma aflinu aftur á, og komast að því hvað er í gangi – af hverju þessir uppreisnargleymlingar vilja ekki að brúin verði byggð?“
Sagan aðalatriðið í Forgotton Anne
Forgotton Anne spilast í 2.5D en lítur út eins og teiknimynd og eru allar hreyfingar Anne handteiknaðar fyrir leikin, alls yfir 5000 rammar fyrir hana eina. „Þrautirnar í leiknum fela flestar í sér að laga anima-flæðið í umhverfinu eða losa lásaþrautir, en þar sem hreyfingar Anne eru handteiknaðar eru hreyfingar hennar þyngri en í platformer leikjum eins og Limbo eða Super Meat Boy. Þær svipa meira til Another World, Abe’s Oddysee, og hinum upprunalega Prince of Persia.“
Sagan er klárlega aðalatriðið í þessum leik og eru karakterarnir sem þú getur hitt yfir 80 talsins.
Ingvi bendir á að rík áhersla er lögð á söguhluta leiksins. „Sagan er klárlega aðalatriðið í þessum leik og eru karakterarnir sem þú getur hitt yfir 80 talsins. Listastíll leiksins og ofbeldisleysi hans þýða að allir, óháð aldri, geta spilað, en sagan snertir á þungum hugmyndum sem aðeins fullorðnar sálir eru líklegar til að skilja.“
Skjáskot úr Forgotton Anne
Sóttu innblástur til Ghibli og Pan’s Labyrinth
En hvaðan kom hugmyndin að Forgotton Anne og hvert sóttuð þið innblástur? „Michael og Alfred eru báðir brjálaðir Anime-aðdáendur og Alfred er útskrifaður teiknimyndaleikstjóri frá Danska Kvikmyndaháskólanum. Þegar þeir félagar stofnuðu ThroughLine Games 2014 voru þeir báðir að vinna í danska leikjageiranum, en þá langaði að gera eitthvað öðruvísi – að segja sögu í tölvuleik sem talaði til þeirra og innihélt málefni sem þeim var annt um.“
… þá langaði að gera eitthvað öðruvísi – að segja sögu í tölvuleik sem talaði til þeirra og innihélt málefni sem þeim var annt um.
Leikjahönnuðir leiksins sóttu innblástur víða, meðal annar til Studio Ghibli og Pan’s Labyrinth eftir Guillermo del Toro.„Ef þú sérð hvernig hönnun Anne hefur breyst frá okkar upprunalegu hönnunum til hvernig hún lítur út í dag verður hún meira og meira Anime-leg. Ástæða þess er að teiknararnir okkar, Debbie og Sebastian, eru útskrifuð úr Lista og Samskiptaháskólanum í Tókýó, þar sem þau lærðu frá Hiroyuki Morita, leikstjóra The Cat Returns, og Tatsuro Iwamoto, listarstjóra Ace Attorney leikjanna, meðal annarra virkra listamanna í japanska Anime-iðnaðinum. Innblástur sóttum við meðal annars frá Ghibli fyrir ævintýralegan heim og Satoshi Kon fyrir þung málefni og dimma veröld. Labyrinth eftir Jim Henson, Pan’s Labyrinth eftir Guillermo del Toro, og verk Henry Selick voru einnig mikið rædd við hönnun sögunnar.“
@throughlinegames á Instagram
„Hvað varðar spilun tökum við innblástur frá leikjum eins og Abe‘s Oddysee, Another World, Diskworld, Monkey Island, Broken Sword og fleirum. Við vildum hafa hreyfingar Anne eins raunverulegar og hægt er í teiknimyndalegum tölvuleik og þessvegna völdum við þyngd yfir snerpu, og húmorinn sem þú færð í leiknum minnir mikið á point-and-click leikina á listanum mínum, á meðan heimurinn og málefnin minna smá á Abe‘s Oddysee. Eins og er með flesta leiki, sækjum við innblástur frá mörgum öðrum stöðum – of mörgum til að nefna.“
Engir tveir dagar eins
Forgotton Anne hefur verið í vinnslu í um fjögur ár, eða allt frá árinu 2014, en það er Square Enix Collective sem gefur leikinn út. „Leikurinn hefur fengið frábæra dóma, en við erum enn að vinna við að bæta hann hér og þar. Nú í sumar kemur út tungumálauppfærsla sem bætir við 6-7 tungumálum.“
Sem aðstoðarframkvæmdastjóri hef ég fingurna í öllu.
„Sem aðstoðarframkvæmdastjóri hef ég fingurna í öllu.“ segir Ingvi þegar hann er spurður að því hvert hans hlutverk var við gerð leiksins. „Þegar ég byrjaði þurfti að lita margar hreyfimyndir svo teiknararnir gátu einbeitt sér að því að hreinsa útlínur. Þegar Morten, rithöfundur leiksins, kláraði handritið fór ég yfir það og lagaði málfræði, stafsetningu, lokaði söguþráðsholum, og kom öllum textanum inn í leikjavélina. Ég klippti hjóðupptökurnar frá leikurunum og sá um að tímasetja texta, hljóð, og hreyfingar karakteranna, ásamt því að tímasetja hljóð við hreyfingar við spilun. Ég hef ferðast vítt um heim og kynnt leikinn, og sé um samfélagsmiðla fyrirtækisins. Sem aðstoðarframkvæmdastjóri hef ég líklega fjölbreyttasta hlutverkið í fyrirtækinu. Engir tveir dagar eru eins.“
Lítil teymi bjóða upp á frumlegar lausnir
Eftir að hafa spilað í gegnum Forgotton Anne tók ég eftir því í kreditlistanum að þú talaðir inn á fyrir nokkra karaktera í leiknum. Hvernig gekk það? „Við réðum einungis 7 atvinnu leikara til að gefa öllum 80 karakterum raddir sínar, en það kom í ljós að það var ómögulegt að púsla því saman þannig að enginn endar með því að tala við sjálfan sig. Við ákváðum því að bjóða þeim sem vildu innan okkar veggja að lesa inn fyrir nokkur minni hlutverk og vildu allir taka þátt. Nokkrir lesa bara inn fyrir eitt hlutverk en aðrir fyrir fleiri. Það var mjög gaman og öðruvísi að lesa inn fyrir gleymlingana í leiknum. Sumir fundu í sér hulinn hæfileika, eins og Alex, listamaðurinn okkar sem leikur Amp, gjallahornið sem vinnur fyrir rannsóknarlögreglubyssuna Magnum. Af einhverri ástæðu endaði ég með að leika þá gleymlinga sem standa í vegi fyrir Anne og hún þarf að flytja til að komast inn um hurð. Fyrir mörgum árum var ég dyravörður í Reykjavík og þótti félögum mínum hér það skondin tilviljun.“
Þar sem við höfðum ekki aðgang að alvöru stúdíói urðum við að vera frumleg í þeim efnum. Við enduðum með því að fela okkur undir þykkri dúnsæng með góðan hljóðnema til að ná hreinni upptöku og hreinsa hana svo enn frekar með forriti.
„Þar sem við höfðum ekki aðgang að alvöru stúdíói urðum við að vera frumleg í þeim efnum. Við enduðum með því að fela okkur undir þykkri dúnsæng með góðan hljóðnema til að ná hreinni upptöku og hreinsa hana svo enn frekar með forriti. Þegar maður vinnur í litlu teymi er hægt að vera frumlegur í lausnum.“
Fólkið er það skemmtilegasta við tölvuleikjagerð
Að mati Ingva er það félagsskapurinn sem er það skemmtilegast við tölvugeirann. „Við vinnum flest við að gera hluti sem við fiktuðum við í frítíma okkar á meðan við vorum nemar eða unnum önnur störf. Það er töff, en vinna er vinna. Félagsskapurinn í tölvuleikjageiranum er engu líkur. Við elskum öll leiki og höfum sameiginlegan orðaforða, áhugamál, og hugmyndir sem við tölum um til lengdar í hverri hádegispásu. Við erum öll frekar miklir nördar og myndum á milli okkar vinskap sem mun lifa að eilífu. Fólkið er það skemmtilegasta við tölvuleikjagerð.“
Við erum öll frekar miklir nördar og myndum á milli okkar vinskap sem mun lifa að eilífu. Fólkið er það skemmtilegasta við tölvuleikjagerð.
En spilaru eitthvað leiki sjálfur í þínum frítíma? „Ég spila allt nema íþróttaleiki. Ef mig langar að spila fótbolta tek ég bolta út á völl með félögum mínum og spila fótbolta. Ég spila aðallega leiki með góðri sögu og elska gamaldags point-and-click. Leikirnir sem Daedalic Entertainment gefa út eru góðir og upp á síðkastið hef ég verið að endurspila gömlu Black Isle leikina af GOG, Icewind Dale og Baldur‘s Gate til dæmis. Ég elska líka Mount & Blade seríuna, Elder Scrolls Online þegar ég hef tíma fyrir MMO, og platformera eins og Hue, og Candle.“
Á heimasíðu ThroughLine Games er gefið til kynna að annar leikur sé í vinnslu, geturu sagt okkur eitthvað frá þeim leik? „Freistandi, en ég get því miður ekkert sagt enn. ThroughLine Games mun alltaf hafa söguna í fyrirrúmi.“
Eitthvað að lokum?
„Ef þið viljið frekari upplýsingar um okkur, fylgið okkur endilega á samfélagsmiðlunum; Twitter , Facebook og Instagram. Ég er Duneyrr á Steam, og kaupið Forgotton Anne núna! Leikurinn er á 25% afslætti á Steam Sumarútsölunni!“