Leikjarýni

Birt þann 18. júlí, 2018 | Höfundur: Steinar Logi

Leikjarýni: The Crew 2 – „verk í mótun“

Leikjarýni: The Crew 2 – „verk í mótun“ Steinar Logi

Samantekt: Fínasti bíla/flug/báta-leikur frá Ubisoft sem gæti samt verið betri og er „verk í mótun“.

3.5

Góður


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

The Crew 2 er bílaleikur í þriðja veldi þar sem þú ert ekki bara að keppa á landi heldur líka í lofti og á vatni. Þannig að betra nafn væri keppnisleikur og keppnissvæðið þitt eru gervöll Bandaríkin en það er líka hægt að skoða sig um, taka myndir og uppgötva ýmislegt.

The Crew 2 er bílaleikur í þriðja veldi þar sem þú ert ekki bara að keppa á landi heldur líka í lofti og á vatni.

Leikurinn reynir að gera marga hluti en það hefur verið talað um The Crew 2 sem „CaR-P-G“ með tilvísan í RPG leiki sem þýðir að þú ert að bæta bílinn þinn smátt og smátt á ýmsum sviðum rétt eins og karakter í Skyrim. Í hvert sinn sem þú vinnur keppni færðu verðlaun í formi „lootbox“ sem bætir farartækið þitt til dæmis betri gírkassi, útblástur, vél, inngjöf, bremsur o.s.frv. sem leiðir til hraðara farartækis með betri meðhöndlun. Verðlaunin koma í grænum (algengt), bláum (sjaldgæft, gefur auka eiginleika eins og „increase nitro power by 2,7%“) eða bleikum lit sem gefur tvenna auka eiginleika (í framtíðaruppfærslu og seinna í leiknum verður hægt að fá jafnvel sjaldgæfari hluti).

Þú finnur ekki fyrir þessum RPG áhrifum strax því að í byrjun er nóg að gera og maður fær mjög fljótlega góð farartæki en smátt og smátt verða allar viðbætur hægari og tímafrekari. Þetta minnir óþægilega á farsímaleiki þar sem vonin er að maður gefist upp á „grind-inu“ og eyði smá pening. Fyrir „hvalina“ þá er strax hægt að kaupa sig áfram í Crew 2 því að hægt er að kaupa allt með svokölluðum CC „crew credits“ (sem gildir eins og gjaldmiðill leiksins nema maður að maður kaupir hann í PSN búðinni). Maður fær líka þetta CC með því að vinna sig áfram í sögunni svona rétt til að koma manni á bragðið.

Í hvert sinn sem þú vinnur keppni færðu verðlaun í formi „lootbox“ sem bætir farartækið þitt til dæmis betri gírkassi, útblástur, vél, inngjöf, bremsur o.s.frv. sem leiðir til hraðara farartækis með betri meðhöndlun.

En þetta kemur svosem ekki niður á leiknum sjálfum, alla vega ekki fyrst um sinn. Það er ekki mjög erfitt að safna upp í ný farartæki og undirritaður er ekki svo langt í að fá allar týpur farartækja yfir takmarkaðan spilatíma. Vandamálið er kannski ef maður vill safna öllum gerðunum og það tekur óratíma. Farartækin í leiknum eru: sportbílar (venjulegir, „drag“ og „drift“ keppnisbílar), „Monster trucks“, ofurbílar eða „hypercars“, rallýbílar, mótorhjól, utan-vegar bílar, listflugsvélar, keppnisrellur, hraðbátar, þotubát („jetboat“) og formúlubílar. Þannig að það er ágætis fjölbreytni að þessu leyti (og það bætast við 2-3 nýjar tegundir farartækja í leiknum sjálfum sem ég ætla ekki að spilla).

Sagan í The Crew 2 er algert aukaatriði og er það gott mál. Það er rétt gefin ástæða fyrir því af hverju þú ert að taka þátt í öllum þessum keppnum í litlum vídeóum sem hægt er að sleppa, en hún er sú að þú ert stjarna í sjónvarpsþætti og þess vegna eru aðdáendur lykilatriði í að byggja þig upp og frægð þína. Stundum held ég að Ubisoft sé viljandi að setja eitthvað einstaklega hallærislegt í leikina sína en í byrjun þá er bifvélavirkinn þinn, Hiro, að tala við framleiðanda sjónvarpsþáttarins sem svarar þegar Hiro segir að við ætlum að gera okkar besta: „Hiro, my friend, I don’t want your best, I want legendary badass-dom“. Já, ég skrifaði þetta niður orðrétt. Frægð þín er styrkleikakerfi (level up) leiksins og eftir að hafa unnið þið upp í frægð þá geturðu farið upp í allt að Icon styrkleika 9999 þannig að það er hægt að eyða fáránlega miklum tíma í þetta. Hvert 10. icon þá færðu „lootbox” en hvert 100. þá færðu farartæki. Þetta getur semsagt verið ansi mikill „grind“ leikur ef hann er spilaður þannig.

„Hiro, my friend, I don’t want your best, I want legendary badass-dom“

Keppnisgreinarnar eru breytilegar útfrá áðurnefndum farartækjum og þær er ekki alltaf eins og best er á kosið. Bílahlutinn er sterkasti hluti leiksins enda erfiðara að gera keppnir í lofti og á vatni eins spennandi. Ubisoft reynir með því að gera flugkúnstir að lykilatriði í háaloftum; í einni tegundinni þá þarf maður að gera alls konar kúnstir á takmörkuðum tíma. Síðan er hin tegund flugkeppnana þannig að maður þarf að snúa vélinni á réttan hátt í hvert sinn sem maður fer í gegnum „checkpoint“ og ef maður stendur sig ekki nóg vel í því þá missir maður tíma. Þetta er ekki alslæm nálgun en maður fær fljótt leið og vill frekar fljúga um sjálfur og skoða sig um (það er plús í leiknum að maður getur fengið aðdáendur með því að flækjast um og gera brjálaða hluti). Bátakeppnir eru langt frá því að vera eins skemmtilegar og bílakeppnirnar og virka eins og einhvers konar hæg útgáfa af þeim.

Bílahlutinn er sterkasti hluti leiksins enda erfiðara að gera keppnir í lofti og á vatni eins spennandi.

Það skemmtilegasta að mínu mati er að keppa utan vegar því að maður þarf ekki að fylgja beinni línu, getur skotist á milli trjáa og þotið niður brattar brekkur í stórkostlegu landslagi. Gallinn er samt að meðan maður getur keyrt niður ýmsar hindranir eins og girðingu, staura og skilti án þess að það hafi mikil áhrif á hraða þá snarstoppar maður á öðrum, stundum einhverju eins og grjóti sem er ómögulegt að sjá fyrr en of seint. Það væri fínt af það væri meiri balans í þessu. Þessar hefðbundnu bílakeppnir eru fínar en stundum getur „rubberbanding“ verið pirrandi þ.e.a.s. sama hversu vel maður keyrir þá er tölvan komin við hliðina á manni á ákveðnum tímapunktum á brautinni, sérstaklega í sögutengdum kappakstrum (hliðstæða við „boss“ bardaga).

Gallinn við The Crew 2 er kannski að hann reynir að gera of mikið og þrátt fyrir að hann gefi sig út fyrir að vera fjölspilunarleikur þá er hann það í rauninni ekki. Þú ert skyldaður til að vera sítengdur en mestmegnið af leiknum er það þú og tölvan. Í kringum þig sérðu aðra spilara og þú getur meira að segja séð hvað það er langt í þá svo þú getur keyrt alveg að þeim en síðan er ekki hægt að gera meira, ekki einu sinni hægt að dansa Fortnite dans. Það er hægt að bjóða þeim í liðið sitt eða „Crew“ sem ég hef reynt en enginn hefur bitið ennþá. Ubisoft virðast hafa hagrætt fjölspilun þannig að maður sér bara örfáa spilara í kringum sig eða þá að það eru einfaldlega fáir að spila. Þannig að best er ef þú þekkir einhvern sem spilar leikinn líka en það er ekki allir tilbúnir að borga fullt verð fyrir svona leik. Maður er að spá hvernig svona leik hefði gengið ef hann tæki meiri áhættu og rukkaði ekki fullt verð.

The Crew 2 er leikur sem manni langar til að elska en nær því ekki alveg að svo stöddu, en hann nær samt alveg að vera góður vinur. Það er augljóst að það verður stuðningur við hann í framtíðinni svo að kannski á hann eftir að batna með tímanum. Leikheimurinn er stór og fallegur en það er ekki alltaf mikið að gera í honum. Það er hægt að taka þátt í ljósmyndaáskorunum þar sem maður á að taka myndir af birni, þér sjálfum fljúgandi á hvolfi í Grand Canyon og allt þar á milli (einnig er mikið af svona áskorunum sem þurfa annan spilara sem er dáldið pirrandi þegar enginn er í kring eins og oft er málið). Maður hefði verið ánægður með meira af stökkpöllum eins og í Burnout leikjum eða jafnvel einhverju til að safna.

The Crew 2 er leikur sem manni langar til að elska en nær því ekki alveg að svo stöddu, en hann nær samt alveg að vera góður vinur.

En ég er samt ennþá að spila hann um sinn því að það er margt gott við hann. Landslagið er iðulega mjög flott, sérstaklega kemur rigning vel út. Tónlistin er fjölbreytileg (ekki gera sömu mistök og ég, tónlistin er sjálfgefin á rokkrásinni og ef þú breytir ekki neinu þá heyrirðu bara brot af því sem er í boði) og ekki skemmir fyrir að Kaleo er með No Good þarna. Það er líka gaman að skapa sín eigin augnablik því að maður getur skipt á milli bíls, flugvélar og báts á með því að smella á hnapp. Allt í allt er ég yfir meðallag ánægður með The Crew 2 þrátt fyrir gallana og vonandi þróast hann í rétta átt.

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑